Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Kjaradeilan hefur siglt í strand og viðræður hafa engu skilað,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra. Kjaradeila þeirra við Isavia virðist í hnút.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Kjaradeilan hefur siglt í strand og viðræður hafa engu skilað,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra. Kjaradeila þeirra við Isavia virðist í hnút. Síðasti fundur hjá Ríkissáttasemjara var á þriðjudag og næsti verður 9. maí. Er það skv. þeirri reglu að sé kjaradeila komin á borð sáttasemjara skuli jafnan funda á tveggja vikna fresti.

Röskun hefur orðið á flugi síðustu daga vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Aðfaranótt föstudags áttu tveir menn að vera á vakt en báðir voru veikir.

Engir afleysingamenn

Ekki mátti vegna bannsins kalla inn afleysingamenn og lá öll flugumferð niðri frá fimmtudagskvöldi til kl. 7 í gærmorgun. Morgunvélarnar fóru því seinna í loftið en áætlun gerði ráð fyrir. Hjá Icelandair snerti þetta á fjórða þúsund farþega sem áttu bókað far í tuttugu ferðum.

Kjarasamningur milli flugumferðarstjóra og Isavia var gerður 2011 og var til fimm ára. Nú, þegar gildistíminn er útrunnin, segir Sigurjón nauðsynlegt að horfa til kjaraþróunar og skyldra þátta. Mikið launaskrið hafi verið í fluggeiranum síðustu misserin og menn hans vilji ekki sitja eftir í þeirri þróun. Einnig beri að geta þess að vegna fjölgunar ferða til og frá landinu, svo og aukinnar umferðar véla yfir Norður-Atlantshafið, sé álag á flugumferðarstjóra mun meira en verið hafi til skamms tíma. Slíkt beri að virða til hærri launa.

Hnotskurn
» Föst byrjunarlaun flugumferðarstjóra eru 418 þús. kr. Eftir 25 ár geta launin orðið 791 þús. kr. Svo bætist vaktaálag við.
» Mikil aukavinna hefur fylgt starfinu. Viljum minnka hana og vera með fjölskyldum okkar, segir Sigurjón formaður.