[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Helga Má Magnússyni tókst að ljúka keppnisferli sínum með því að verða Íslands-, deildar- og bikarmeistari með KR í vetur.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Helga Má Magnússyni tókst að ljúka keppnisferli sínum með því að verða Íslands-, deildar- og bikarmeistari með KR í vetur. Hann er að flytjast búferlum með fjölskyldu sinni til Washington-borgar og lætur af þeim sökum staðar numið í körfuboltanum.

„Ég sá fyrir mér að ég myndi spila til fertugs ef ég á að segja eins og er. Skrokkurinn er í mjög góðu standi því mér leið ótrúlega vel í úrslitakeppninni og þá er álagið mest. Ég myndi ekki hætta ef ég væri ekki að flytja. Þá væri ég að fara að reyna við fjórða í röð. Þetta er svo gaman, maður. Ég held að ég gæti ekki hætt þessu ef ég yrði hér á Íslandi. Á meðan maður leggur eitthvað af mörkum. Meðan mér líður þannig að liðið sé betra með mig innanborðs mun ég alltaf spila,“ sagði Helgi þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum í gær. Daginn áður hafði KR unnið Hauka í þriðja skiptið og þar með úrslitarimmuna um titilinn 3:1. Helgi getur ekki neitað því að síðasta tímabil hans þróaðist út í handrit sem hann hefði allt eins getað skrifað fyrirfram.

„Já. Við unnum þrefalt og ég vann bikarinn í fyrsta skipti. Auk þess unnum við þriðja árið í röð. Eftir að hafa verið í meiðslum fyrri hluta tímabils er seinni hlutinn nánast eins og ég hafi skrifað þetta sjálfur.“

Vilja vera íþyngjandi lið

KR-liðið er geysilega gott og vel þjálfað körfuboltalið eins og árangurinn sýnir. Þar sem liðið hafði unnið síðustu tvö árin var opinber umræða um það nánast öll á sömu lund. Liðið átti einfaldlega að verða Íslandsmeistari og það næsta auðveldlega. Í fjölmiðlum var jafnvel gengið svo langt að spá því að liðið myndi ekki tapa leik á tímabilinu. Helga fannst ekki sérstaklega erfitt að standast þessa pressu.

„Umræðan var þannig að það yrði skandall ef við yrðum ekki meistarar. Manni finnst slík umræða alltaf svolítið sérstök því auðvitað getum við tapað eins og hvert annað lið. Mér fannst okkur takast að nýta umræðuna sem einhvers konar áskorun um að standa undir væntingum. Við ræddum ekki sérstaklega um fjölmiðlaumræðuna en við fórum oft yfir málin. Við töluðum oft um það okkar á milli að við værum bestir og vildum láta önnur lið finna fyrir því frá fyrstu mínútu í leikjum. Við viljum vera íþyngjandi lið og stöðugt að höggva í andstæðinginn þangað til hann brotnar. Þannig töluðum við inni í klefa og þannig nálguðumst við leikina. Við förum ekki í felur með það. Í klefanum er hroki til staðar þegar við tölum um okkur í samanburði við önnur lið. Menn þurfa að hafa sjálfstraust og vera pínu hrokafullir. Við sögðum hver við annan að við værum bestir og ætluðum að sýna það.“

Fékk mikla athygli

Þegar Helgi greindi frá því í vetur að tímabilið yrði hans síðasta var töluvert um það fjallað. „Þetta tímabil mun lifa í minningunni bæði vegna titlanna og vegna umfjöllunarinnar. Eftir að við unnum bikarinn jókst umfjöllunin um mig persónulega mjög mikið og það var ofboðslega gaman. Öllum íþróttamönnum finnst gaman að fá umfjöllun. Ég myndi því ráðleggja ungu íþróttafólki að hóta því að hætta að minnsta kosti einu sinni á ferlinum. Það borgar sig,“ sagði Helgi og hló.

Helgi er margfaldur Íslandsmeistari. Var viðloðandi leikmannahópinn þegar KR vann árið 2000 og var í frægu liði sem vann 2009 eftir oddaleik við firnasterkt lið Grindavíkur, en þeirrar rimmu verður lengi minnst meðal íþróttaunnenda. Helgi var spurður hvaða titill stæði upp úr.

Stoltur af sigrinum 2009

„Árið 2009 stendur upp úr, meðal annars vegna þess að við lentum 1:2 undir og þurftum þá að fara til Grindavíkur. Við komuna þangað fann maður að þjóðhátíðarstemning ríkti í bænum. Veisla virtist vera að hefjast hjá þeim enda höfðu þeir unnið þriðja leikinn sannfærandi og mig minnir að Nick Bradford hafi skorað tæplega 50 stig í þeim leik. Ég er stoltur af því hvernig við meðhöndluðum þann leik því auðvelt hefði verið að brotna. Benni (Benedikt Guðmundsson) og Ingi (Þór Steinþórsson) gerðu þá mjög vel og fengu Einar Gylfa sálfræðing (sem sér marga leiki með KR, innskot blaðamanns) fyrir fjórða leikinn. Einbeitingin breyttist úr því að við værum hræddir við að tapa yfir í að spila til sigurs. Þegar maður er með betra lið er hættulegt að verða hræddur við tapa. Ef menn eru farnir að spila upp á að tapa ekki, án þess að vera búnir að vinna eitt eða neitt, eru þeir komnir á slæman stað.“

Erfitt að vinna titilinn

Helgi er því þeirrar skoðunar að titlarnir 2009 og 2016 séu toppurinn á ferli hans með KR.

„Sá sigur var því sætur en sá nýjasti er einnig geggjaður. Að verða Íslandsmeistari er fáránlega erfitt, alveg sama hvernig mannskap liðið er með. Hvað þá þrjú ár í röð. Að halda einbeitingu og hungrinu allan tímann er merkilegt. Ég var að hugsa um þetta í gær og báðir þessir titlar eru geggjaðir í mínum huga,“ sagði Helgi og fer að fagnaðarlátunum í Vesturbænum loknum að huga að för til Vesturheims.

Helgi Már Magnússon

» Er hættur körfuknattleiksiðkun og lýkur ferlinum sem þrefaldur meistari með KR.
» Lék einnig í Bandaríkjunum, Sviss og í Svíþjóð á ferlinum.
»Helgi er gifur Guðrúnu Sóleyju Gunnarsdóttur. Þau hjónin hafa bæði afrekað að spila í lokakeppni EM í sínum íþróttagreinum. Guðrún lék á EM í fótbolta 2009.