Sendiherrann Einar Benediktsson.
Sendiherrann Einar Benediktsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Einar Benediktsson fæddist 30. apríl 1931 í Reykjavík og ólst þar upp. „Reykjavík þess tíma var með kolaský enda án hitaveitu, flugvallar og ferðamanna. Yfirleitt fjarri nútímanum.

Einar Benediktsson fæddist 30. apríl 1931 í Reykjavík og ólst þar upp.

„Reykjavík þess tíma var með kolaský enda án hitaveitu, flugvallar og ferðamanna. Yfirleitt fjarri nútímanum. En svo var einnig um önnur lönd, nema Bandaríkin, sem ég fékk ærið tilefni til að kynnast í námi og starfi.“

Einar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950, BA-prófi við Colgate University, Hamilton, NY 1953 og MA-prófi frá Fletcher School, Medford, Mass. 1954 með hagfræði sem aðalnámsgrein og sömuleiðis í framhaldsnámi við London School of Economics og Institut des Études Européennes í Torino 1954-56.

Starfsferillinn

Einar starfaði 1956-60 í hagdeild Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu (OEEC) í París; 1960-64 deildarstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytunum; 1964 deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu og það ár sendiráðunautur í París; 1968-70 deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu; 1970-76 fastafulltrúi hjá EFTA og alþjóðastofnunum í Genf, skipaður sendiherra; 1976-82 sendiherra í Frakklandi, jafnframt því hjá OECD og UNESCO og á Spáni og í Portúgal; 1982-86 sendiherra í Bretlandi, jafnframt því í Hollandi, Írlandi og Nígeríu; 1986-1991 sendiherra hjá NATO, Evrópusambandinu, Belgíu og Lúxemborg; 1991-93 sendiherra í Noregi jafnframt í Póllandi og Tékkóslóvakíu; 1993-98 sendiherra í Bandaríkjunum jafnframt því í Kanada, Brasilíu, Chile, Argentínu, Úrugvay, Venesúela og Costa Ríka. Einar starfaði á vegum forsætisráðuneytisins frá 1998 að starfslokum 2001. Var síðan um skeið ráðgjafi í utanríkis- og forsætisráðuneytunum og stjórnarformaður UNICEF Ísland 2003-2008. Einar hlaut stórriddarakross Fálkaorðunnar og erlend heiðursmerki.

Einar hefur sinnt ritstörfum töluvert og skrifaði bækurnar Ísland og Evrópuþróunin 1950-2000, útg. Ugla 2000; Iceland and European Development, útg. Almenna bókafél. 2003; og Að skilja heiminn Æviminningar sendiherra, útg. Ugla 2009. Hann hefur einnig skrifað fjölda blaða- og tímaritsgreina og hélt nýlega fyrirlestur í KFUM um guðfræðinginn og píslarvottinn Dietrich Bonhoeffer. „Hann er sá guðfræðingur sem ég hef mestar mætur á. Ég hef sótt kirkju alla tíð og var alinn upp af trúuðum foreldrum.

Ég er núna að spá í að taka mér frí frá ritstörfum og gefa mér tíma til að vera gamall. Það er eitt sem ég nenni ekki lengur og það er að fara til útlanda, enda búinn að gera töluvert af því. Ég er heimilismaður í eðli mínu og er þakklátur fyrir að hafa gott átt athvarf sem kona mín bjó okkur í 60 ár á þessu undarlega flakki í búsetu.“

Fjölskylda

Einar kvæntist 6.10. 1956 Elsu Pétursdóttur, f. 28.11. 1930, húsmóður. Foreldrar hennar: Pétur Pétursson, f. 11.2. 1884, d. 17.4. 1963, sjómaður og hafnarstarfsmaður, og Jódís Tómasdóttir, f. 12.7. 1886, d. 17.11. 1934, húsmóðir.

Börn Einars og Elsu eru Sigríður, f. 2.9. 1957, starfsmaður franska sendiráðsins í Reykjavík; Kristján, f. 27.3. 1959, vélaverkfræðingur hjá Landsvirkjun; Einar Már, f. 5.8. 1960, tölvufræðingur hjá OECD/IEA í París, en kona hans er Siophán Cantwell og eiga þau þrjú börn; Pétur, f. 17.6. 1964, ráðgjafi í Reykjavík, var kvæntur Selmu Ágústsdóttur og eiga þau tvo syni; Katrín, f. 8.5. 1967, framkvstj. Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, var gift Gunnari Erlingssyni og eiga þau þrjár dætur. Sonur Einars með Guðrúnu Ísleifsdóttur er Trausti, f. 24.11. 1956, Cand.mag. í Reykjavík, var kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur og eiga þau tvo syni.

Systkini Einars eru Katrín Svala Daly, f. 14.4. 1934, búsett í Washington DC; Valgerður Þóra, f. 8.5. 1935, bókasafnsfræðingur í Reykjavík; Oddur, f. 5.6. 1937, d. 17.8. 2010, prófessor í Reykjavík; Ragnheiður Kristín, f. 27.12. 1939, uppeldisfræðingur og kennari í Reykjavík.

Foreldrar Einars: Stefán Már Benediktsson, f. 24.7. 1906, d. 12.2. 1945, kaupmaður í Reykjavík, og Sigríður Oddsdóttir, f. 18.9. 1907, d. 27.8. 1988, húsmóðir.