Nikulás Einarsson fæddist í Reykjavík 2. mars 1955. Hann lést 14. apríl 2016.
Hann var sonur Einars Nikulássonar rafvirkja, f. 3. október 1921, d. 28. maí 2010, og Kristínar Þórarinsdóttur píanóleikara, f. 7. september 1922, d. 6. desember 2014. Systkini Nikulásar eru: Rósa, f. 17. mars 1945, Ragnar Már, f. 5. september 1947, og Þórhildur, f. 13. nóvember 1953.
Nikulás og Sigrún Unnsteinsdóttir, f. 22. apríl 1957, voru í sambúð í nokkur ár. Foreldrar hennar voru Unnsteinn Guðmundsson pípulagningamaður, f. 7.9. 1931, d. 17.3. 1988, og Elín Björg Kristjánsdóttir saumakona, f. 28.7. 1933. Börn Nikulásar og Sigrúnar eru: 1) Einar, f. 13.8. 1982. 2) Ragnar Már, f. 21.1. 1985, kvæntur Kötlu Rós Völundardóttur. 3) Anna Rósa, f. 4.1. 1988, fv. maki Magnús Jónsson, f. 3.11. 1988, saman eiga þau tvo syni, þá Jón Karel og Rúnar Elís. Núverandi maki Sigurður Snær Guðmundsson. 4) Nikulás, f. 12.8. 1990.
Nikulás ólst upp í Breiðagerði 25. Ungur að árum hóf hann störf í fjölskyldufyrirtækinu Lömpum s.f. Hann ákvað að feta í fótspor föður síns og nam rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og starfaði Nikulás lengst af sjálfstætt eftir það. Nikulás byggði hús sitt í Vesturhúsum 9 í Grafarvogi. Nikulás var mikill tónlistarmaður og liggja eftir hann ógrynni af lögum og textum.
Nikulás var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík 28. apríl 2016.
Tónlistin helgaði líf okkar Kynni okkar hófust í Tónabæ þar sem hvort fyrir sig var tilnefnt sem tónlistarfulltrúi síns gagnfræðaskóla. Nikulás fyrir Breiðagerðisskóla og undirrituð fyrir Laugarlækjaskóla. Ekki hefði mig órað fyrir að þar færi fram völlinn, fyrsti ókrýndi konungur þungarokksins á Íslandi.
Eineltissamtökin 2006. Vegferð okkar hófst fyrir alvöru árið 2005, þar sem við sameinuðum krafta okkar í baráttunni gegn einelti og kynferðisáreiti. Árið 2006, með Eineltissamtökunum sem stofnsett voru árið 1998. Við sóttum heim ráðuneyti og undirstofnanir þeirra og varð vel ágengt.
Einelti drepur! Eineltissamtökin og Samstarfshópur um Vinnuvernd á Íslandi, beittu sér fyrir því að málþing var haldið á vegum Vinnueftirlits ríkisins 5. des. árið 2007. Bolun og valdníðsla datt úr tísku. Á daginn kom að leiðbeiningaskylda stjórnvalda á Íslandi var kerfislægur vandi og, hafði orðið útundan meira og minna í allri íslenskri stjórnsýslu. Andmælaréttur var fyrir borð borinn, þar til þú Nikulás lést kerfið hafa rækilega fyrir því að svara og líta ekki undan. Þú vissir að lagaákvæði sem takmarka mannréttindi verða að vera ótvíræð. Sé ekki svo ber að túlka þau einstaklingi í hag, því mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum.
Sérsveit gegn einelti 2009. Nikulás átti veg og vanda að því að safna saman liðsmönnum gegn einelti á fjasbókinni undir heitinu Sérsveit gegn einelti. Síðan náði mikilli útbreiðslu og lagði grunn að þverfaglegri samvinnu ráðuneyta, undirstofnana þeirra, stéttarfélaga og félagasamtaka á breiðum grunni í öllum aldurshópum .
Árið 2009, var samþykkt í Fjárlaganefnd Alþingis að leggja fram 9. milljónir til þverfaglegrar samvinnu ráðuneyta gegn einelti og kynferðisofbeldi. Í skólakerfinu og á vinnumarkaði.
Ljóst varð að sitjandi ráðherra félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra, fer með yfirstjórnunar og eftirlitskyldu eða ráðherraábyrgð byggt á 13. gr. og 14. gr. stjórnarskrárinnar frá 1944 og stjórnsýslulaga 1963. Samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 5718/2009
Dagur gegn einelti. 3. nóvember 2009 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Í tilefni dagsins útbjó Nikki táknrænan gjörning sem fólst í því að setja á flot ,,litla báta, sem sigldu með umkomulaus, nakin börn á öllum aldri á Tjörninni sem náðu ekki landi. Sem tákn hins kalda veruleika þess sem ofbeldið fæðir af sér.
Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisáreiti á landsvísu 8. nóvember 2011. Bjöllum var hringt gegn einelti og kynferðisáreiti kl. 13:00 að staðartíma í 7. mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar Íslandsklukkunni var hringt. Kirkjuklukkum var hringt. Það gall í vinnustaða- og skólabjöllum. Skipsklukkur klingdu við bryggju . Bílflautum var þeytt og bjöllubönd gengu á milli vina, úr einum skóla í annan. Jafnvel kisa fékk bjöllu.
Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti.
Friðarboðskapur samtímans á heimsvísu var festur í sessi árið 2012. Hringt var bjöllum hringinn í kringum jörðina 8. nóvember kl. 13:00 e.h. að staðartíma, viðstöðulaust í 7. mínútur, eina mínútu fyrir hvern vikudag. Gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum !
Skilaboð á ýmsum tungumálum á milli landa með áskorun um heimsfrið í gegnum netmiðla, með símhringingum og í skilaboðaskjóðum símaveitna.
Við reistum friðarsúlu fátækra 8. nóvember 2013. Fátækt veldur mismunun og ótímabæru efnahagshruni. Veldur hver á heldur Í 76. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að allir íslenskir ríkisborgarar eigi rétt á fæði, klæði, húsnæði og menntun við hæfi.
Eineltisfrír miðbær er siðbær. Við Nikki settumst gjarnan inn í kvöldkirkju Dómkirkjunnar á fimmtudagskvöldum, í andakt og með fyrirbæn á vörum, gegn einelti og kynferðisofbeldi, sem og báðum fyrir ýmsum réttlætismálum, ásamt Þorvaldi vini okkar miðborgarpresti.
Nikulás var afburðahæfileikum búinn, sannkallaður þúsundþjalasmiður , sterkgreindur, rökfastur með mikla réttlætiskennd og samúðarfullur svo menn og dýr löðuðust að honum .
Það var honum því í lófa lagið að kalla til sín herveldi himnanna með nokkrum brauðmolum. Tignarlegir með útbreidda vængi sveif flugherinn yfir Alþingishúsinu í hundraða vís í aðflugi sem lágflugi Eins og hendi væri veifað laust mávahernum niður og festi þar rætur sem eldskots ský, á svipstundu allt til þess eins að ná í nokkra brauðmola sér til viðurværis. Og enn vakir hann yfir og allt um kring til aðgátar fyrir réttlætissakir í túnfætinum heima á Austurvelli.
Að leiðarlokum. Þeir urðu margir rökþrota lögfræðingarnir og lögmennirnir, þegar Nikulás beitti fyrir sig rökvísi og gáfur andans fengu að njóta sín til fullnustu t.d. í Héraðsdómi og Hæstarétti .
Saman unnum við fullnaðar sigur, með hjálp Persónuverndar, jafnt vinnustaðinn, stéttarfélagið, Reykjavíkurborg, Svæðisráð um málefni fatlaðra í Reykjavík, Landlæknisembættið, Menntamálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Vinnueftirlitið, Umboðsmann Alþingis og ekki síst vottaða vinnustaðasálfræðinga Vinnueftirlits ríkisins.
NEI einelti borgar sig aldrei.
Þín ævarandi vinkona,
Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir.