Unnur Ebenharðsdóttir fæddist á Akureyri 2. apríl 1925. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 17. mars 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Ebenharð Jónsson bifreiðaeftirlitsmaður á Akureyri, f. 10. maí 1896, d. 2. júlí 1983, og Guðrún Kolbeinsdóttir, húsmóðir og verslunarmaður á Akureyri, f. 10. okt. 1891, d. 13. apríl 1966.

Systkini Unnar: Ásta, f. 26. júlí 1923, býr á Akureyri, Ebba, f. 10. mars 1927, d. 11. október 2014, og Ingvi Gunnar, f. 11. júní 1921, d. 10. júní 2003, en hann var samfeðra þeim systrum.

Unnur stundaði hefðbundið nám í Barna- og gagnfræðaskóla Akureyrar. Að loknu námi starfaði hún hjá KEA á Akureyri, fyrst við verslunarstörf, en síðan í fjölmörg ár hjá Mjólkursamlagi KEA. Einnig starfaði hún í allmörg ár hjá Prentsmiðju Odds Björnssonar á Akureyri.

Útför Unnar fór fram í kyrrþey frá Höfðakapellu 31. mars 2016.

Kvöldið er okkar og vor um Vaglaskóg,

við skulum tjalda í grænum berjamó.

Leiddu mig vinur í lundinn frá í gær,

lindin þar niðar og birkihríslan grær.

Leikur í ljósum lokkum og angandi rósum,

leikur í ljósum lokkum hinn vaggandi blær.

Daggperlur glitra um dalinn færist ró,

draumar þess rætast sem gistir Vaglaskóg.

Kveldrauðu skini á krækilyngið slær.

Kyrrðin er friðandi, mild og angurvær.

Leikur í ljósum lokkum og angandi rósum,

leikur í ljósum lokkum hinn vaggandi blær.

(Kristján frá Djúpalæk)

Með þessum texta vil ég minnast yndislegrar frænku og vinkonu.

Þín verður sárt saknað, elsku Dadda.

Hafðu þökk fyrir allt. Hinsta kveðja,

Ásta og Heiðar.