Oklahoma City Thunder tók í fyrrinótt forystuna í rimmunni gegn San Antonio Spurs, 3:2, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Oklahoma sigraði 95:91 í San Antonio í Texas. San Antonio tapaði einungis einum heimaleik í deildakeppninni í vetur en hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í rimmunni gegn Oklahoma, sem fær nú tækifæri til að slá San Antonio út úr úrslitakeppninni á heimavelli í næsta leik. San Antonio hefur verið álitið vera líklegast til að vinna titilinn ásamt Golden State. Russell Westbrook átti stórleik og skoraði 35 stig og Kevin Durant var með 23 stig. Kawhi Leonard var stigahæstur hjá San Antonio með 26 stig. Svo virðist sem Oklahoma-liðið sé að smella saman á réttum tíma og stórstjörnurnar tvær spila vel þessa dagana. kris@mbl.is