„Öll ytri umgjörð samfélagsins og stjórnun þess hefur áhrif á reksturinn,“ segir Margrét um uppákomur síðustu vikna.
„Öll ytri umgjörð samfélagsins og stjórnun þess hefur áhrif á reksturinn,“ segir Margrét um uppákomur síðustu vikna. — Morgunblaðið/Golli
Að sögn Margrétar eru birgjar erlendis farnir að undrast yfir atburðarásinni sem verið hefur í íslenskum stjórnmálum upp á síðkastið.

Að sögn Margrétar eru birgjar erlendis farnir að undrast yfir atburðarásinni sem verið hefur í íslenskum stjórnmálum upp á síðkastið. Þá hefur hún áhyggjur af frumvarpi um opinber innkaup, segir þurfa ýmist að stoppa frumvarpið eða gera á því töluverðar breytingar.

Hverjar eru stærstu

áskoranirnar i rekstrinum

í augnablikinu?

Mér finnst allt þjóðfélagið standa á tímamótum og farsinn í kringum forsetakosningarnar skapar óöryggi. Mér finnst einnig slæmt að ekki liggi fyrir dagsetning fyrir alþingiskosningar í haust. Öll ytri umgjörð samfélagsins og stjórnun þess hefur áhrif á reksturinn. Við höfum fundið fyrir að birgjar undrast yfir stjórnun þjóðfélagsins og við höfum áhyggjur af því að þetta smiti út frá sér í ákvörðunum sem eru óæskilegar fyrir okkar rekstur.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ég sótti fund í Ósló í byrjun apríl þar sem voru fyrirlestrar um rekstur í heilbrigðiskerfinu fyrir stjórnendur í evrópskum fyrirtækjum. Þar kom ýmislegt áhugavert fram um samskipti hins opinbera við sína birgja.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég var alæta á bækur sem barn en á seinni árum hef ég ekki gefið mér jafn mikinn tíma í lestur og ég vildi. Astrid Lindgren stóð upp úr sem höfundur og hafði ég mjög gaman af þáttaröðinni sem var gerð um hana og sýnd á norrænu sjónvarpsstöðvunum. Hún hafði ótrúlegt innsæi í líf barna og hugsunarhátt. Slíkt innsæi skapar sterka fullorðna einstaklinga og stjórnendur.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Ef ég gæti valið Meryl Streep mundi ég gera það. Mér finnst hún geta sett sig inn í ólíkar kringumstæður og haft skilning á fólki. Starf stjórnenda felst mikið í því.

Hvernig heldurðu

þekkingunni við?

Með því að hafa frábæra stjórnendur mér við hlið, eiga góða vini sem hægt er að ræða við og virkja faglegt tengslanet

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég fer reglulega í ræktina og undanfarin níu ár áttum við schaefer hund sem þurfti mikla hreyfingu. Því miður nýtur hennar ekki við lengur. Ég er skógarbóndi á Snæfellsnesi og í því felst að planta þúsundum trjáplantna á hverju ári og bera á þær sem komnar eru í jörð á hverju vori. Þessu fylgir mikil útivist og hreyfing.

Ef þú þyrftir að finna

þér annan starfa,

hvert væri draumastarfið?

Ég sagði oft að ég mundi vilja enda eins og ég byrjaði með því að kenna en þá á háskólastigi. Einnig sé ég fyrir mér að taka þátt í stjórnarstörfum og nýta þannig reynslu mína

Ef þú settist aftur á skólabekk, hvað myndirðu vilja læra?

Ég hefði ekkert á móti því að læra iðn, t.d. smíði. Einnig gæti ég hugsað mér að bæta við mig skógræktarnámi.

Hvaða kostir og gallar

eru við það að hafa

reksturinn á Íslandi?

Gallarnir eru íslenska krónan og óstöðugur gjaldeyrir. Einnig yfirvöld sem hika ekki við að koma með lagasetningu sem heggur að grunnstoðum okkar reksturs og þá er ég að vísa til frumvarps til laga um opinber innkaup. Kostirnir við Ísland eru að hér er gott starfsfólk, sem er vel menntað og hefur metnað.

Hvernig færðu orku

og innblástur?

Við það að starfa með frábæru fólki á hverjum degi, sem er hugmyndaríkt og metnaðargjarnt. Fyrir utan vinnuna þá er yndislegt að upplifa tvo litla drengi sem eru barnabörnin mín og ég elska að lesa fyrir þá eða kubba með þeim. Skógræktin gefur síðan sitt og tilhugsunin um að skilja eftir sig arf til næstu kynslóðar er góð.

Ef þú yrðir einráð

í einn dag, hverju

myndirðu breyta?

Ég mundi tryggja að breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu um opinber innkaup eða helst að það næði ekki fram að ganga.

HIN HLIÐIN

Nám: Verslunarskóli Íslands, stúdent frá hagfræðibraut 1974; Háskóli Íslands, cand. oecon 1978; Copenhagen Business School, cand. merc. 1981; Insead. Executive Training, 1989-1990.

Störf: Kennari við Verslunarskóla Íslands á námsárunum; Framkvæmdastjóri hjá AIESEC International í Brussel í eitt ár; Starfaði hjá Dansk Esso/Statoil í Kaupmannahöfn við stjórnendaþjálfun og ráðningar; Framkvæmdastjóri hjá Q8 í Kaupmannahöfn í 9 ár og kom þar að rekstri ýmissa sviða, t.d. starfsmannamálum, tölvumálum, sölu og markaðsmálum; Framkvæmdastjóri hjá Skeljungi í 9 ár með ábyrgð á rekstri bensínstöðva; Forstjóri Icepharma sl. 10 ár og stjórnarformaður N1.

Áhugamál: Skógrækt, útivist og almenn hreyfing, fjölskylda og góðir vinir.

Fjölskylduhagir: Ég er gift Lúðvíg Lárussyni sálfræðingi og eigum við tvö uppkomin börn, tengdabörn og tvö barnabörn.