Farið er að bera á fleiri fjársvikamálum þar sem óprúttinn aðili notar tölvupóst til að blekkja starfsfólk fyrirtækja og fá það til að millifæra fé.
Farið er að bera á fleiri fjársvikamálum þar sem óprúttinn aðili notar tölvupóst til að blekkja starfsfólk fyrirtækja og fá það til að millifæra fé. — Morgunblaðið/Heiddi
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Búast má við að tilraunir til netsvika muni fara vaxandi samhliða losun fjármagnshafta og því brýnt fyrir fyrirtæki að vera vel á verði.

„Við hjá Landsbankanum viljum sérstaklega vara við auknum tilraunum til netsvika sem beinast gegn fyrirtækjum. En undanfarna mánuði höfum við orðið vör við aukinn fjölda tilkynninga um svikastarfsemi frá viðskiptavinum okkar,“ segir Siggeir Vilhjálmsson, forstöðumaður viðskiptalausna fyrirtækja hjá Landsbankanum, í samtali við Morgunblaðið.

Hann er einn þeirra fjölmörgu sem fluttu erindi á Fjármáladeginum, ráðstefnu um fjármál fyrirtækja, sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í gær.

Við þessi fjársvik notast óprúttinn aðili t.d. við tölvupóstfang, sem líkist póstfangi yfirmanns þess fyrirtækis sem svikin beinast að, og sendir fölsk greiðslufyrirmæli til starfsmanns fyrirtækisins. „Með þessu er reynt að hrinda af stað atburðarás sem endar með því að greitt er inn á bankareikning sem svikarinn hefur stjórn á,“ segir Siggeir og bendir á að bandaríska alríkislögreglan ( FBI ) hafi upplýsingar um að reynt hafi verið að svíkja út um 2,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 280 milljörðum íslenskra króna, með svikastarfsemi af þessari gerð. Þá hafa alríkislögreglunni borist alls um 18 þúsund tilkynningar vegna þessara svika undanfarin tvö ár.

Mikilvægt að vera vel á verði

Að sögn Siggeirs er afar mikilvægt að starfsfólk fyrirtækja sé vakandi fyrir svikum sem þessum.

„Það er í raun verið að ráðast á innviði fyrirtækja, en áður en svikin eru framin eru þessir aðilar búnir að kortleggja valdbrautir og starfsemi fyrirtækisins og jafnvel búnir að kynna sér fréttir sem fjalla um þau viðskipti sem fyrirtækið er í. Svo þegar rétta tækifærið gefst reyna þeir að stinga sér inn í greiðsluferilinn til að hafa áhrif á hann.“

Spurður hvort hann telji brotum sem þessum eiga eftir að fjölga hér á landi kveður Siggeir já við. „Ég tel það fullvíst og þá einkum samhliða losun fjármagnshafta. Það er því afar mikilvægt að starfsfólk sé vel á verði og vakandi fyrir því að þessir hlutir kunna að gerast,“ segir hann og bendir á að erfitt geti reynst að endurheimta þá peninga sem rati inn á ranga bankareikninga og þá sitji fyrirtækin uppi með tjónið.