Freysteinn fæddist í Keflavík 12.5. 1931. Foreldar hans voru Þorbergur Pétur Sigurjónsson sem starfrækti bifreiðaverkstæði í Keflavík, rak Bílabúðina í Reykjavík, lengi við Hverfisgötu, og var ötull í verkalýðsbarátt- unni á sínum yngri árum, og k.h., Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir húsfreyja.
Þorbergur var sonur Sigurjóns Einarssonar, vegavinnuverkstjóra í Leiru í Keflavík, en Jónína Þorbjörg var systir Freysteins Gunnarssonar, skólastjóra Kennaraskóla Íslands og rithöfundar.
Eftirlifandi eiginkona Freysteins er Edda Þráinsdóttir, lengst af gjaldkeri hjá Rafveitu Hafnarfjarðar, og eignuðust þau tvær dætur, Melkorku Eddu og Freydísi Jónu.
Móðir Freysteins veiktist alvarlega af heilahimnubólgu er hann fimm ára og var hann hjá vandalausum eftir það, lengst af í Grænumýrartungu í Hrútafirði. Hann stundaði nám við MA, bjó í Svíþjóð í tvö ár, stundaði nám í rússnesku og rússneskum bókmenntum við Háskólann í Moskvu. Heimkominn bjó hann á Siglufirði, í Varmahlíð en lengst af í Hafnarfirði þar sem Freysteinn stundaði útgerð.
Freysteinn var með fremstu skákmeisturum Íslendinga um skeið. Hann var skákmeistari Íslands 1960, skákmeistari Norðurlanda 1965, skákmeistari Norðlendinga 1963, 1968 og 1973, varð efstur á skákþingi Norðurlanda 1967, ásamt Hoen og Svedenborg og tefldi á Olympíuskákmótum fyrir Íslands hönd árin 1956, 1958, 1960, 1966 og 1970. Hann skrifaði auk þess mikið um skák og vann ötullega að framgangi skáklistarinnar hér á landi.
Freysteinn var mikill aðdáandi Fischers, var félagi hans frá því Fischer var 15 ára, sótti FIDE fundi reglulega og vann þar að því um árabil að heimsmeistaraeinvígi yrði haldið á Íslandi. Hann átti án efa stóran þátt í því að heimsmeistaraeinvígið í skák, einvígi aldarinnar, milli Fischers og Spassky, var haldið í Reykjavík 1972.
Freysteinn lést 23.10. 1974.