Vefverslunin Heimkaup.is hefur keypt rekstur Hópkaupa. Seljandi er félagið Móberg en kaupverðið er trúnaðarmál. Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Magna verslana ehf. sem reka Heimkaup.is, segir að með kaupunum nýtist innviðir félagsins betur. Með sameiningunni skapist mikil tækifæri. „Sala og markaðssetninga á netinu er okkar kjarnastarfsemi. Við höfum rennt hýru auga til eininga sem gerðu okkur kleift að nýta okkar innviði betur,“ segir Guðmundur.
Hann segir Hópkaup bjóða viðskiptavinum að fá hagstætt verð á vörum og þjónustu í krafti fjöldans, þegar margir sameinast um kaupin. Skerpt verði á þessari áherslu hjá Hópkaupum og einingin rekin sem sjálfstæð deild innan fyrirtækisins við hlið Heimkaup.is.
Guðmundur segir Hópkaup strangt til tekið ekki vefverslun. Engu að síður hafi það orðið niðurstaðan í könnun MMR að félagið var í einu af þriðju efstu sætunum þegar íslenskir neytendur voru spurðir hvaða vefverslun kom fyrst upp í huga þeirra.
„Þessum vörumerkjum verður haldið algerlega aðskildum, enda þjóna þau ólíkum markhópum að mörgu leyti. Samt sem áður munum við endurvekja þann þátt í rekstri Hópkaupa, sem minna hefur farið fyrir í seinni tíð, að gera neytendum kleift að kaupa vörur í krafti fjöldans.“
Fram kom í ViðskiptaMogganum í apríl að Heimkaupsmenn áætla að veltan nái milljarði króna á næsta ári, fjórfalt meiri en 2014.