„Að styðja og styrkja íslenska tungu og bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar.“

Í dag verður opnuð afmælissýning í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska bókmenntafélags. Tvær aldir eru frá því að nokkrir menn komu saman í Kaupmannahöfn og settu á fót þetta merka félag, en það mun vera elsta starfandi félag á Íslandi að Biblíufélaginu undanskildu. Í tvö hundruð sumur samfleytt hefur félagið unnið þrekvirki í því að varðveita íslenska tungu og menningu og verður það framlag aldrei metið til fjár.

Þegar danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask kom hingað til lands árið 1813 skynjaði hann að íslenskan væri á undanhaldi í Reykjavík, höfuðstaðnum sjálfum, þar sem menn tjáðu sig jafnvel frekar á dönsku en íslensku, eða blönduðu saman tungumálunum í daglegu tali sínu. Þá var öll útgáfustarfsemi á íslenskum bókmenntum á þeim tíma í skötulíki. Rask spáði því að íslenska yrði útdautt tungumál innan hundrað ára í Reykjavík og líklega horfin með öllu innan þrjú hundruð ára ef ekkert yrði að gert.

Þó að íslenskan væri ekki móðurmál Rasks ákvað hann að spyrna yrði duglega við fótum, sem hann og gerði með stofnun bókmenntafélagsins. Það er því meðal annars Rask sjálfum að þakka að hinn myrki spádómur hans um framtíð íslenskunnar hefur ekki enn ræst.

Hið íslenska bókmenntafélag tók þegar myndarlega til starfa, en fyrsta útgefna verk þess, Sturlunga, kom út á árunum 1817-1820. Sjö árum síðar hóf félagið útgáfu Skírnis, elsta tímaritsins sem enn kemur út á íslensku. Síðan þá hafa mörg vegleg verk komið út á vegum félagsins og kannast líklega flestir Íslendingar við lærdómsritin, þar sem mörg af merkustu ritverkum mannkyns hafa verið þýdd á móðurmálið.

Á þessum tímamótum er vert að hafa það í huga að helstu verkefnum félagsins eins og þau voru skilgreind í upphafi, „að styðja og styrkja íslenska tungu og bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar,“ mun sennilega aldrei ljúka. Hlúa þarf vel að tungumáli fámennrar þjóðar sé vilji til þess að viðhalda kunnáttu í því, ekki síst á tímum alþjóðavæðingar og samskiptabyltingar.

Enskan hefur til að mynda tekið við hlutverki dönskunnar sem það erlenda tungumál sem flestir Íslendingar tileinka sér, og eru áhrif hennar á alla dægurmenningu óumdeild. Þau áhrif þurfa ekki að vera til hins verra, en mikilvægt er engu að síður að Íslendingar séu vel á verði um tungumál sitt.

Rík tungumálakunnátta er alls ekki af hinu slæma. Hún verður þó einskis virði ef móðurmálið sjálft glatast í leiðinni, eða eins og stendur á leiði Rasmusar Rask: „Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur en týn þó eigi að heldur þinni tungu.“