Margrét Heiðdal fæddist í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi 17. október 1917. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 1. maí 2016.
Foreldrar hennar voru Jóhanna Jörgensdóttir Heiðdal húsmóðir, frá Krossavík í Vopnafirði, f. 2. júní 1890, d. 27. september 1965, og Sigurður Heiðdal, rithöfundur, skólastjóri og forstöðumaður á Litla-Hrauni, f. í Saurbæ á Kjalarnesi 16. júlí 1884, d. 17. febrúar 1972. Systkini Margrétar eru: Vilhjálmur, f. 4. ágúst 1912, d. 3. febrúar 2005, Ingibjörg, f. 10. júní 1915, d. 15. apríl 2010, Gunnar, f. 16. febrúar 1926, Anna, f. 25. september 1930, og Kristjana, f. 22. júlí 1933.
Margrét giftist 7. október 1948 Birgi Guðmundssyni frá Vífilsmýrum í Önundarfirði, f. 10. mars 1920, d. 17. september 1998. Þau skildu. Kjördóttir þeirra er Nína Þórsdóttir iðnrekstrarfræðingur, f. 12. febrúar 1962. Hennar maður er Jón Björnsson húsasmíðameistari, frá Kópaskeri, f. 5. desember 1953. Dóttir þeirra er Margrét Snæfríður enskufræðingur, f. 17. febrúar 1992.
Margrét sleit barnsskónum í faðmi fjölskyldu sinnar á Stokkseyri og frá unglingsárum á Eyrarbakka. Hún stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og vann alla sína starfsævi við afgreiðslu- og bankastörf í Reykjavík. Margrét bjó síðast á Dalbraut 18 í Reykjavík, en dvaldi síðustu árin á Hjúkrunarheimilinu Skjóli.
Útför Margrétar fer fram frá Áskirkju í dag, 12. maí 2016, kl. 13.
Í mínum huga var mamma alltaf ferðbúin. Hún hafði óþrjótandi ánægju af ferðalögum, löngum sem stuttum. Allar mínar bestu æskuminningar tengjast ferðalögum. Útilegurnar voru ófáar til Þingvalla, þar sem aðalmálið var að finna skjólgóða laut til að liggja í sólbaði. Svo var slegist við köngulær, sem héldu ættarmót í tjaldinu okkar og mamma fór ekki inn í tjaldið, fyrr en að það var örugglega orðið köngulóarlaust. Einnig að Laugarvatni, þar sem mamma þekkti vel til eftir að hafa verið þar í skóla. Þar var farið í sund í gömlu sundlauginni og í gamla gufubaðið. Alltaf gott veður á Laugarvatni, var viðkvæðið, og gjarnan gist í Menntaskólanum. Eða í Þrastaskógi með Imbu og Baldri, þar sem þær systur „höfðu aldrei vitað agalegra“ en mýflugurnar sem réðust harkalega á smurða brauðið í blikkdósunum. Oftast var svo einhver í næsta herbergi eða á næsta tjaldstæði, sem mamma þekkti eða kannaðist við.
Seinna tóku svo utanlandsferðir við, aðallega til Spánar. Aldrei var hægt að fá nóga sól á kroppinn. Og þess vel gætt, að brenna ekki á nefinu. Mamma átti lengi vel plasthlíf fyrir nefið, sem hengd var á sólgleraugun. Mikið þarfaþing fyrir krítarhvíta Íslendinga fyrstu dagana í sólinni, en ekki að sama skapi mjög smart. Skondinn búnaður fyrir manneskju, sem annars var alltaf smekkleg, vel til höfð og meðvituð um útlitið. Og svo var endalaust hægt að þræða markaðina.
Mamma var líka óþreytandi við að ferðast innanlands. Með rútu í Stykkishólm að heimsækja Hönnu og Sigga Skúla og Önnu, meðan þau bjuggu þar, eða með Villa og Imbu og seinna Hjálmtý í „skreppitúra“ til Vopnafjarðar að heimsækja ættingjana þar. Hún naut þess beinlínis að sitja í bíl og horfa á landslagið líða framhjá. Það voru ekki margar sveitirnar, þar sem hún þekkti ekki deili á einhverjum gömlum skólasystkinum, vinnufélögum eða jafnvel ferðafélögum. Hún var svo ótrúlega minnug á samferðafólk og mjög mannglögg.
Mömmu var mjög annt um systkini sín og systkinabörnin. Þau studdu svo sannarlega við bakið á henni, sérstaklega eftir að hún varð einstæð. Eiga þau Villi og Imba, sem nú eru bæði horfin yfir móðuna miklu, sem og Gunnar, Anna og Kristjana og systkinabörnin miklar þakkir skildar fyrir alla ræktarsemina og stuðninginn, sem þau sýndu okkur.
Síðustu árin dvaldi mamma á Hjúkrunarheimilinu Skjóli og naut þar faglegrar og kærleiksríkrar umönnunar hjá starfsfólkinu á fimmtu hæð. Þeirra atlæti verður seint nógsamlega þakkað.
Nú er hún farin í síðustu ferðina. Megi hún eiga góða ferð og hafi hún þökk fyrir allt og allt.
Nína Þórsdóttir.
Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Anna og Kristjana.