Guðný Erla Guðjónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 24. apríl 1932. Hún lést á afmælisdaginn sinn 24. apríl 2016.
Foreldrar Erlu, eins og hún var jafnan kölluð, voru Magnúsína Jóhannsdóttir verkakona, f. 1904, og Guðjón Helgi Kristjánsson sjómaður, f. 1901.
Erla átti tvær systur, þær Rósu Fjólu Hólm Guðjónsdóttur, f. 1927, og Pálínu Kristjönu Guðjónsdóttur, f. 1925, d. 1990.
Elsta barn Erlu er Helga Þorkelsdóttir kennari, f. 19. apríl 1950, og var faðir hennar Gunnar Bernharð Jensson, f. 1929, d. 1991. Helga er gift Páli Þorgeirssyni lækni. Börn Helgu eru Hrefna Pálsdóttir og Hildur Droplaug Pálsdóttir. Erla giftist Þórarni Grímssyni verkamanni, f. 1924, árið 1953 og áttu þau tvö börn: 1) Theodóru J. Þórarinsdóttur, f. 1. september 1953, gift Birgi Bernódussyni, hann lést 1979. Barn Theodóru er Rakel Birgisdóttir. 2) Guðjón Þór Þórarinsson rennismiður, f. 20. júlí 1960, sambýliskona Elín Kristjánsdóttir. Sonur Guðjóns er Hlynur Þór Guðjónsson. Erla og Þórarinn skyldu.
Erla giftist seinni eiginmanni sínum, Erni Aanes vélstjóra, f. 1932, árið 1969. Börn þeirra eru: 1) Guðríður Arnardóttir kennari, f. 25. febrúar 1970, gift Hafliða Þórðarsyni lögreglufulltrúa. Börn Guðríðar eru Erla Dóra Magnúsdóttir, Eyþór Örn Hafliðason og Ólöf Þórunn Hafliðadóttir. 2) Eiríkur Örn Arnarson múrari, f. 29. janúar 1977, í sambúð með Rakel Rán Guðjónsdóttur. Langömmubörn Erlu eru orðin sjö.
Erla flutti barn að aldri með foreldrum sínum til Siglufjarðar og ólst þar upp en dvaldi mikið hjá ömmu sinni og afa, Sigríði Guðmundsdóttur og Jóhanni Kristjánssyni, m.a. á Ólafsfirði. Barnung fór Erla að vinna í síldinni á Siglufirði og 15 ára flutti flutti hún til Reykjavíkur, var í vist til að byrja með en seinna vann hún á Matstofu Austurbæjar. Lengst af, fram að gosinu í Eyjum, bjó Erla í Vestmanneyjum og vann þar samhliða húsmóðurstörfum í fiskvinnslu. Erla og Örn fluttu suður í gosinu 1973 og bjuggu lengst af í Holtsbúð í Garðabæ, þar vann Erla m.a. við heimilisbakstur og lengi á barnadeildum Kópavogshælis. Erla og Örn skildu árið 1996 og síðustu ár bjó Erla á Álfhólsvegi í Kópavogi.
Að ósk hinnar látnu fór útförin fram í kyrrþey.
Ég minnist þín. Árið var 1977. Ég var 27 ára gömul. Örlögin leiddu okkur saman á ný eftir langa fjarveru. Þessi stund, að sjá þig, var ógleymanleg tilfinning. Falleg ung kona með ljóst hár birtist mér. Ég fylltist gleði yfir að sjá blóðmóður mína í fyrsta sinn til að muna hana. Tilfinning sem engin/n þekkir nema sú/sá sem upplifir. Þú varst eins og engill af himnum sendur til mín. Ég var með öran hjartslátt uns við hittumst. Þá hvarf stressið, sem við báðar upplifðum, þennan gæfuríka dag. Mér fannst þú svo falleg og blíð. Árin liðu. Síðar um 1979 fórum við að hittast. Við spiluðum saman og þú sagðir mér svo margt um uppruna minn. Ég er ólýsanlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman í spjalli, söng og gleði, sem fylgdu þér ætíð á mannamótum. Mig langar til að ljúka þessum orðum um þig, elsku Erla mamma, með texta sem þú kenndir mér á sínum tíma ásamt lagi sem er geymt í huga mínum. Textinn er:
Ég minnist þín í sérhvert sinn
er sólin skín á gluggann minn.
Að sumri var mér samvist þín
og sífelld gleði æskan mín.
Og þó að fjólan fölni og fenni í gömul spor
um vetrardaga dimma
mig dreymir sól og vor.
Ég þrái kveðjukossinn þinn,
uns kemurðu aftur vinur minn.
Góða ferð yfir í aðra vídd, handan móðunnar miklu. Laus úr viðjum veikinda. Löngu stríði er lokið. Ástarkveðja, uns við sjáumst á ný. Þín,
Helga.
Æskan hennar mömmu var erfið og lífið fór ekki um hana mildum höndum. Það setti auðvitað mark sitt á lífshlaup hennar. Og mamma var einhvern veginn alltaf best í mótlæti. Ef eitthvað bjátaði á í fjölskyldunni var mamma alltaf komin til bjargar, gaf ráð og veitti stuðning af einstakri hlýju og gæsku. Mamma fyrirgaf allt og skildi allt, hlustaði, dæmdi ekki og mamma ráðlagði.
Ég held að bestu ár mömmu hafi hún átt í Garðabænum, þangað fluttu þau pabbi árið 1978. Þar var garðurinn yndi hennar og ég man ekki eftir mömmu öðruvísi á sumrin en rótandi í beðum og að rogast með tré og runna, hún var alltaf að breyta og bæta í garðinum, sem bar af í götunni.
Mamma var sjálfmenntuð á píanó og gítar. Hún söng eins og engill og samdi bæði lög og ljóð alla tíð, var rómantísk og talaði með hjartanu. Ég á ófáar minningar af mömmu með gítarinn að syngja enda fjörkálfur og létt í skapi. Henni lá mjög hátt rómur og var nú stundum sagt að hún þyrfti engan síma, þvílíkur var raddstyrkurinn. Og svo hló hún hrossahlátri og sló sér á lær. Það voru góðar stundirnar í Holtsbúðinni þegar setið var við eldhúsborðið, þá var hlegið og talað hátt.
Hún mamma var mjög handlagin og hvort sem hún prjónaði, heklaði eða saumaði var allt sem hún vann vel gert og vandað. Þannig man ég mömmu, falleg og alltaf framúrskarandi snyrtileg og vel til höfð. Hún var hlý og góð amma og voru barnabörnin hænd að henni. Hún hafði þolinmæðina til að hlusta og taka áhugasöm þátt í heimi litla fólksins og lifði sig inn í sorgir þess og sigra.
Þegar ég hugsa til baka sé ég að sá sjúkdómur sem fylgdi mömmu alla tíð var orðinn þaulsetin og tók loks yfirhöndina síðustu ár. Félagsfælni og ofsakvíði gerðu vart við sig öðru hvoru allt hennar líf. Mamma, sem var svo mikil félagsvera og elskaði að vera innan um fólk, dró sig meira og meira í hlé og síðustu ár taldist það til undantekninga ef hún fór út úr húsi. En þrátt fyrir það hélt hún góðu sambandi við alla sína nánustu, það var mjög oft á tali hjá mömmu. Og þannig var það alltaf, mamma í símanum að fá fréttir af vinum og ættingjum.
Síðustu mánuðir voru okkur öllum erfiðir. Það var erfitt að horfa á þessa sterku konu veslast upp og láta undan því sem ekki varð umflúið. En ekkert liggur ósagt og ekkert óuppgert og við systkinin vorum hjá henni þegar hún kvaddi. Ég veit að Guð geymir hana mömmu og henni líður nú betur þar sem hún vakir yfir okkur eins og hún hefur alltaf gert. Elsku besta mamma mín, ég var heppin að eiga þig og ég á eftir að sakna þín það sem ég á eftir ólifað.
Guðríður.
Amma var einstök kona sem ég bar ómælda virðingu fyrir. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ömmu lengi í lífi mínu en þó ekki nógu lengi. Amma var einstök kona með stórt hjarta, spilaði óaðfinnanlega á gítar, var söngelsk, listakona mikil, hláturmild, kona sterkra lýsingarorða, alltaf með svör á reiðum höndum og raddsterk með eindæmum.
Amma var mitt skjól og þangað þreyttist ég seint á að leita ef eitthvað bjátaði á í lífinu, alltaf átti amma orð og huggun og henni á ég svo ótal margt að þakka. Barnung tók ég bátinn suður til ömmu og afa. Hún sótti mig á bryggjuna og alltaf voru móttökurnar þær sömu, faðmlag, koss á kinn og svo komu orðin sem mér þótti svo gott að heyra: „Ertu nú komin skonsípons.“ Því öll sumur dvaldi ég í Garðabænum í góðu yfirlæti og spenningurinn var því mikill, hvert sumar var sem ævintýri, ég fékk alla heimsins athygli, fékk að vera með fólkinu mínu og ekki skemmdi hvað amma sagði skemmtilegar sögur, allar persónurnar voru raddaðar og þá er minningin um Kalla á þakinu eftirminnilegust. Það var ætíð líf og fjör þegar kom að Holtsbúðinni, við bjuggum þar mörg um tíma, mörg kvöldin sátum við og sungum saman og amma spilaði á gítarinn.
Ég gæfi mikið fyrir að heyra ömmu hlæja en síðustu árin voru þær stundir ekki margar, því kvíðinn sem hafði fylgt henni allt hennar líf tók yfir, svo hún fór að einangrast, hætti að mæta á mannamót. Við fórum til hennar í heimsókn því hún hætti að fara út á meðal fólks en amma kunni vel að tala í síma og það var hún dugleg að gera fram á síðasta dag. Fyrir ári síðan var hún lögð inn og hún kom ekkert heim eftir það. Heimsóknirnar á spítalann urðu óteljandi og við vorum að koma á öllum tíma sólarhrings, ef amma hringdi þá var einhver mættur og það strax því amma kunni illa að bíða. Af spítalanum fór hún á Vífilsstaði og þar héldu heimsóknirnar áfram, við svo mörg að koma alla daga og hvert öðru háværara að ekki var annað hægt en að hafa hana eina á stofu, ömmu var farið að hraka og dagarnir misslæmir en einn og einn góður læddist með og þeir dagar voru nýttir vel. Amma lést á afmælisdaginn sinn, lokakaflinn var langur og erfiður en elsku amma fékk að fara í faðmi sinna nánustu og hvert og eitt okkar syrgir sárt. Allar minningarnar eru orðnar að ómetanlegum perlum en ég veit að ömmu líður vel í dag, hún hefur fengið hvíldina.
Við höfði lútum í sorg og harmi
og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.
Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið
því fegursta blómið er frá okkur horfið.
Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir
og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir
þótt móðuna miklu þú farin sért yfir
þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.
Við kveðjum þig, amma, með söknuð
í hjarta,
en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.
Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi
og algóður Guð á himnum þig geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir.)
Þín ömmustelpa,
Rakel.