[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Viðtal

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Þegar sú ákvörðun var tekin í febrúar 2009 að ríki og borg yfirtækju þennan hálfbyggða minnisvarða um mikilmennskuhugmyndir forhrunsáranna var það djörf ákvörðun sem hlaut að vekja deilur,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Fimm ár eru í dag síðan formlegir opnunartónleikar voru í Hörpu en hann tók við forstjórastöðunni ári síðar. Þegar rætt er við Halldór um þessi ár og baráttuna við að halda rekstri hússins gangandi segir hann það oft hafa verið erfitt en einnig afar ánægjulegt.

„Í upphafi þurfti að skrapa saman lán hjá þeim bönkum sem eftir voru á innanlandsmarkaði til þess að hægt væri að ljúka við bygginguna. Frá sjónarhóli okkar sem hér störfum var það bæði djörf og víðsýn ákvörðun. Annars hefðum við haft hér óbrotgjarnt minnismerki um mistök en vorum í stað þess að reisa minnisvarða um endurreisn.

Eins og útkoman varð er þetta líka vottur um þýðingu menningar á krepputímum. Á ráðstefnu sem ég var beðinn um að ávarpa hjá Evrópusambandinu sagði ég að mér þætti Harpa lifandi sannindamerki þess að ríki ættu að fjárfesta í menningu í kreppu fremur en eftir kreppu.“

Halldór segir að einmitt af því að Harpa hafi risið vegna glæsilegrar baráttu íslenska tónlistarmanna fyrir tónlistarhúsi, og að þar hafi átt að vera heimkynni Sinfóníuhljómsveitarinnar, hafi starfsmenn jafnframt þurft að sýna fram á að þetta væri hús allrar tónlistar. „Þá hefur líka þurft að sýna dugnað varðandi annars konar atburði, til að mynda innlent sem alþjóðlegt ráðstefnuhald sem skiptir miklu og skilar góðum tekjum. Það eru allir jafn velkomnir gestir í þessu húsi og við þurfum stöðugt að vanda okkur, enda erum við þjónustufyrirtæki fyrir eigendurna, sem er þjóðin. En þótt stærsta afrekið hafi verið hjá fólkinu sem opnaði þetta hús hefur starfsfólkið síðan líka sýnt einstakan dug við að sinna þessu alhliða hlutverki.“

Kafka við Sæbrautina

Halldór neitar því ekki að stóreinkennilegar þverstæður hafi verið í rekstri hússins undanfarin ár.

„Ein er að eyða fjórum árum í málaferli við eigendur sína. Þegar ég hóf hér störf þurfti að byrja á því að endurfjármagna bygginguna sjálfa. Sú endurfjármögnun átti að gerast með skuldabréfaútgáfu Landsbankans. En bankinn tregðaðist lengi við, var ekki nógu viss um að greiðsluloforð eigenda, það er ríkis og borgar, myndu standast, og var þó sjálfur í eigu ríkisins. Þetta var einkennileg hringrás og fjöldi lögmanna var kvaddur til verka áður en menn komust að þeirri niðurstöðu sem lá fyrir í upphafi. Eins lá algjörlega fyrir að enginn rekstur í þessu húsi myndi geta staðið undir öðrum eins fasteignagjöldum og hér höfðu verið lögð á. Það þurfti að fara með það mál alla leið fyrir Hæstarétt. Við fórum í mál við eigendur hússins, með samþykki eigenda, gegn ákvörðunum eigenda en þó með hagsmuni eigenda í huga. Enda hef ég skrifað um þetta og fleiri þverstæður örsögu sem heitir Kafka við Sæbrautina , hvenær sem ég nú birti hana!“

Nýjum útreikningi á fasteignagjöldum Hörpu er enn ekki lokið en Halldór segir Hæstarétt hafa verið afdráttarlausan um að þau yrðu reiknuð samkvæmt tekjuvirði hússins. „Sem var sú nálgun sem Harpa óskaði strax árið 2011 eftir að yrði beitt. Ef menn hefðu horft með sanngirni á málið, með þeim hætti sem Hæstiréttur leggur áherslu á, hefði það sparað okkur fjögurra ára úttektir og svimandi háan kostnað.“

– Og hversu margar milljónir?

„Það á eftir að koma í ljós. En þetta hefur verið langsamlega erfiðast við reksturinn. Oft vefst það fyrir útlendingum sem dást að því að Íslendingar skyldu hafa klárað þetta hús á erfiðum tíma að um leið hafi verið tekin ákvörðun um að leggja á það svo þunga skatta að það myndi aldrei geta risið undir þeim.“

Halldór segir stoltur að í dag iði Harpa af lífi. Húsið hafi getað aflað þeirra miklu tekna sem gert var ráð fyrir í upphafi, en í fyrstu áætlunum hafi kostnaðurinn við að reka svona hús hins vegar verið vanmetinn og þar skipti himinhá gjöld miklu. Þá var frá upphafi gert ráð fyrir ráðstefnuhóteli við Hörpu. „Nú er bygging þess hafin og það mun styrkja okkur mjög í alþjóðlegum ráðstefnurekstri. Í fyrra voru ellefu alþjóðlegar ráðstefnur í Hörpu, á þessu ári verða þær sextán.

Í alfyrstu hugmyndum Ólafs Elíassonar og félaga um útlit hússins má sjá skissur af fuglabjargi. Nú erum við orðin slíkt bjarg, margradda og iðandi af lífi, og þannig verður það vonandi áfram,“ segir hann.

1,7 milljónir gesta í fyrra

„Svo sannarlega hefur rekstur Hörpu verið erfiður en ef við lítum til síðasta árs komu hingað 1,7 milljónir gesta, það eru yfir 600 tónleikar og 400 annars konar viðburðir í húsinu,“ segir Halldór. „Þetta sýnir að Harpa hefur orðið miðlæg, ekki bara í tónlistinni heldur í mannlífi í landinu.

Mér fannst strax að á ábyrgð okkar sem höfum húsvörsluna með höndum væri að láta fólki líða eins og það ætti húsið. Það voru kjörorðin frá upphafi: Harpa, húsið þitt. Auðvitað munu ekki allir líta svo á, og fólk má með góðum rétti vera andsnúið mörgu af því sem hér fer fram, en upp til hópa eru Íslendingar stoltir af Hörpu og sækja sér hingað fróðleik, upplyftingu og afþreyingu.“