Það verður seint sagt að Víkverji sé með bjartsýnustu mönnum á Íslandi. Hann er til dæmis búinn að dæma Stórveldið niður eftir bara tvo leiki af Íslandsmóti karla í knattspyrnu, jafnvel þó að liðið sé taplaust.
Það verður seint sagt að Víkverji sé með bjartsýnustu mönnum á Íslandi. Hann er til dæmis búinn að dæma Stórveldið niður eftir bara tvo leiki af Íslandsmóti karla í knattspyrnu, jafnvel þó að liðið sé taplaust. Að vísu er það líka sigurlaust, og gerir Víkverji raunar frekar ráð fyrir því að svo verði áfram eftir að Fimleikafélagið kíkir í heimsókn í Vesturbæinn í kvöld.
Svartsýni Víkverja er þó ekki einskorðuð við KR. Hann til dæmis vissi það þegar í undankeppninni hér heima að hún Greta okkar kæmist ekki áfram í Júróvisjón og þá gerir hann sömuleiðis frekar ráð fyrir því að íslenska karlalandsliðið muni ekki ná upp úr riðli sínum á Evrópumótinu í knattspyrnu sem hefst í næsta mánuði.
Það er þó ekki svo að Víkverji óski þess að illa fari. Hann hefur bara betri reynslu af því þegar væntingum hefur verið stillt í hóf, hvort sem það er í Júróvisjón, fótbolta eða í bíó. Vonbrigðin, sem alla jafna eru sár, verða mun minni fyrir vikið, og Víkverji getur slegið um sig með spekingslegu: „Ég vissi það allan tímann.“ Víkverji getur um leið sett sig á háhest gagnvart öllum hinum, sem leyfðu sér að dreyma.
En kannski er kominn tími til þess að breyta um skoðun. Knattspyrnugoðið Kevin Keegan var hér á landi í vikunni á ráðstefnu að ræða tengsl viðskipta og knattspyrnunnar. Hann spáði því fullum fetum að Íslendingar yrðu Evrópumeistarar. Hann vissi að vísu ekki hvernig við myndum fara að því, en minnti á það að Danir hefðu unnið keppnina fyrir 24 árum og Grikkir fyrir 12. Það væri því alveg kominn tími á óvænt úrslit aftur.