„Það er rosa gaman að fá að snerta svona marga þætti samfélagsins,“ segir Sigrún um starf sitt hjá Advania, þar sem hún þarf iðulega að vera í samskiptum við viðskiptavini sem hafa mjög ólíkar þarfir í veflausnum. Sigrún, sem er með MS-gráðu í tölvunarfræði og MBA-gráðu, hefur starfað í upplýsingatækni í ríflega 15 ár. Starfsumhverfið segir hún vera nokkuð breytt og nú sé fleira eldra fólk í geiranum en tíðkaðist áður fyrr. Innan fyrirtækisins starfar fólk með fjölbreyttan bakgrunn; verkfræðingar, forritarar og viðskiptafræðingar, sem gagnast við að smíða lausnir fyrir ólík fyrirtæki. Hluti af því sé að setja sig inn í hugarheim notenda, sem Sigrún segir vera skemmtilegasta þáttinn í sínu starfi. „Maður er að komast í snertingu við alls konar skemmtilega hluti sem maður hefði ekkert gert ef maður væri í einsleitri vinnu.“
Eurovision eftirminnilegt
Sigrún var á árum áður mjög vinsæl söngkona og söng m.a. með Stjórninni og Upplyftingu. Hápunkt söngferilsins segir hún hafa verið þegar hún söng í lokakeppni Eurovision-keppninnar árið 1992 með Stjórninni, sem hét Heart 2 Heart í keppninni. Ásamt Sigríði Beinteinsdóttur söng hún lagið Nei eða já, sem hún segir að hafi lifað lengi með þjóðinni. „Nú í dag, 25 árum síðar, er enn verið að biðja okkur um að koma að syngja lagið.“ Þær stöllur náðu prýðilegum árangri og enduðu í 7. sæti. Tveimur árum síðar sigraði Sigrún svo í Söngvakeppni Sjónvarpsins en síðar var sú ákvörðun tekin af yfirstjórn Ríkisútvarpsins að Sigríður Beinteinsdóttir myndi frekar syngja fyrir Íslands hönd í keppninni, sem haldin var í Dyflinni það árið.Sigrún segist vera plötuð í að syngja annað slagið og þá iðulega á skemmtunum hjá Advania, þar sem búið sé að stofna hljómsveit innan fyrirtækisins. „Áhuginn er kannski ekki jafn mikill og hann var áður fyrr en það er svo sem alltaf jafn gaman að grípa í hljóðnemann,“ segir Sigrún, sem segist hafa nánast spilað um allar helgar á 16 ára tímabili. Þetta hafi verið svakalega gaman, eins og sé reyndar raunin með allt annað sem hún hafi tekið sér fyrir hendur um ævina.