Fimm leikir af sex í þriðju umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld. Viðureign KR og FH ber að sjálfsögðu hæst en þetta eru þau félög sem hafa verið sigursælust frá aldamótum og oftast háð baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

Fimm leikir af sex í þriðju umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld. Viðureign KR og FH ber að sjálfsögðu hæst en þetta eru þau félög sem hafa verið sigursælust frá aldamótum og oftast háð baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftir tvær umferðir eru FH, Fjölnir, Stjarnan og Víkingur Ólafsvík með 6 stig, fullt hús. ÍBV og Breiðablik eru með 3 stig, KR 2, Víkingur R. og Þróttur R. 1 stig en Valur, Fylkir og ÍA eru án stiga.

Skoðum þessar fimm viðureignir og söguna á bak við þær:

ÍBV – Víkingur Ó.

Hásteinsvöllur kl. 18

*Liðin mættust í fyrsta sinn í efstu deild 2013 og gerðu þá 0:0 jafntefli í Ólafsvík en 1:1 í Eyjum. Víðir Þorvarðarson kom þá ÍBV yfir en Farid Zato jafnaði fyrir Víking.

*ÍBV vann alla fjóra leiki liðanna þegar þau mættust í 1. deild árin 2007 og 2008. Einn núverandi leikmaður liðanna skoraði í þeim viðureignum, Ian Jeffs í 3:1 sigri ÍBV í Eyjum árið 2007.

Stjarnan – Þróttur R.

Samsung-völlurinn kl. 19.15

*Félögin hafa aðeins einu sinni áður verið saman í efstu deild en það var árið 2009. Stjarnan vann þá tvo stórsigra, 6:0 á Valbjarnarvelli og 5:1 í Garðabæ.

* Halldór Orri Björnsson skoraði fyrir Stjörnuna í báðum leikjum og Arnar Már Björgvinsson tvö í þeim fyrri en þeir leika enn með Stjörnunni.

* Haukur Páll Sigurðsson , núverandi fyrirliði Vals, gerði eina mark Þróttar í þessum viðureignum.

Fylkir – Valur

Floridana-völlurinn kl. 19.15.

*Valur vann báða leiki liðanna í fyrra, 3:0 í Árbænum og 4:2 á Hlíðarenda. Patrick Pedersen gerði þrjú marka Vals og Kristinn Ingi Halldórsson tvö en Ásgeir Eyþórsson bæði mörk Fylkis.

*Valur hefur unnið 18 leiki en Fylkir 13 af 32 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1989. Þau hafa aðeins einu sinni skilið jöfn og það var 0:0 í Árbænum árið 2001.

*Þegar Valur vann Fylki 4:1 í fyrstu viðureign þeirra í deildinni árið 1989 voru það Þorgrímur Þráinsson, Atli Eðvaldsson, Heimir Karlsson og Lárus Guðmundsson sem gerðu mörk Vals. Þorgrímur skoraði reyndar líka mark Fylkis!

ÍA – Fjölnir

Norðuráls-völlurinn kl. 19.15.

*Fjölnir hefur unnið þrjá af fjórum leikjum liðanna á milli í efstu deild en sá fjórði endaði með 4:4 jafntefli á Akranesi í fyrra.

*Þar gerði Jón Vilhelm Ákason tvö mörk fyrir ÍA og Mark Magee tvö fyrir Fjölni en dramatískar sveiflur voru í leiknum. ÍA komst í 3:1 og Fjölnir í 4:3 áður en Garðar Gunnlaugsson jafnaði fyrir ÍA í uppbótartíma.

* Ólafur Páll Snorrason (2) og Gunnar Már Guðmundsson gerðu þrjú af fimm mörkum Fjölnis sem vann ÍA 3:0 og 2:0 þegar liðin mættust fyrst árið 2008.

KR – FH

Alvogen-völlurinn kl. 20

*FH hefur unnið KR tvö undanfarin ár í Vesturbænum og samtals sigrað 10 sinnum í 15 heimsóknum þangað á þessari öld.

Félögin hafa mæst 60 sinnum í efstu deild frá 1975. FH hefur unnið 29 leiki en KR 19 og þau hafa tólf sinnum skilið jöfn.

Í fyrra unnu liðin hvort annað 3:1 á útivelli, og í bæði skiptin náði heimaliðið fyrst forystunni. Atli Guðnason gerði tvö marka FH í Vesturbænum í fyrravor.