[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Goðsögnin Kevin Keegan er í heimsókn á Íslandi vegna ráðstefnunnar Business and football sem haldin var í Hörpu í gær.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Goðsögnin Kevin Keegan er í heimsókn á Íslandi vegna ráðstefnunnar Business and football sem haldin var í Hörpu í gær. Keegan var á meðal þeirra sem tóku þátt í umræðum um hvernig byggja má upp liðsheild, hvort sem það er hjá íþróttaliðum eða fyrirtækjum. Keegan fór á kostum í umræðunum með húmorinn að vopni og glettnum tilsvörum. Er kempan greinilega gædd miklum persónutöfrum enda ekki margir sem geta státað af því að hafa leikið fyrir enska landsliðið og einnig stýrt því. Svo ekki sé minnst á að Keegan var tvívegis kjörinn knattspyrnumaður Evrópu.

Ertu að grínast?

Morgunblaðið spurði Keegan hvort maður með hans reynslu í fótboltanum kipptist við þegar hann heyrði úrslit á borð við þau að Ísland ynni Holland á knattspyrnuvellinum? „Já, engin spurning. Ég sá þetta ekki í sjónvarpi og man að einhver sagði við mig: Ísland vann Holland. Ég spurði á móti: Í handbolta? Nei, í fótbolta var svarað. Ertu að grínast? spurði ég. Þetta var sjokk og það er notalegt þegar slík úrslit eiga sér stað í fótboltanum, svo framarlega sem það er ekki þitt lið sem tapar. En íslenska liðið byrjaði auðvitað afar vel í riðlinum og vann fleiri öflug lið en Holland. Ég er ekki viss um að riðilinn á EM sé endilega sterkari en sá sem Ísland var í í undankeppninni. Það ætti að gefa þeim aukna tiltrú,“ sagði Keegan sem sjálfur stjórnaði Englandi í lokakeppni EM árið 2000.

Við hverju mega íslenskir knattspyrnuunnendur búast á EM í júní?

„Mikilli skemmtun fyrst og fremst. Þegar ég fór með enska landsliðið á EM í Belgíu voru væntingarnar mjög miklar. En ég held að íslensku stuðningsmennirnir ættu að fara til Frakklands með þá von að íslenska liðið geti aftur komið á óvart. Ég hlakka til að sjá íslenska liðið spila. Leikmenn virðast vera með rétta hugarfarið og þjálfarinn er mjög reyndur en vinnur jafnframt mjög vel með yngri þjálfaranum. Ég tel að Ísland geti komið fólki á óvart. Ekki endilega gegn Portúgal en gegn hinum þjóðunum í riðlinum. Þeir hafa staðið sig frábærlega með því að komast á EM og ættu að njóta þess að spila en leyfa sér að láta sig dreyma um að afreka meira. Þeir hafa þegar skrifað nýjan kafla í söguna en hvers vegna að stoppa þar? Ég er viss um að þjálfararnir eru að segja við leikmennina að hægt sé að skrifa fleiri kafla. Í liðinu er fínt jafnvægi og eftir að tilkynnt var að Eiður Smári Guðjohnsen yrði með að þá er reynsla til staðar. Hann er 37 ára en ennþá góður leikmaður og klókur.“

Ber hámarksvirðingu fyrir Lagerbäck

Keegan segist ekki þekkja Lars Lagerbäck persónulega en segir feril hans kalla á að honum sé sýnd virðing. „Ég þekki hans ferilskrá sem er ótrúleg. Hann er reyndur og ætlar víst að hætta eftir EM. Hann þjálfar liðið með manni sem allir kalla tannlækninn (Heimir Hallgrímsson). Þar virðist skapast fínt jafnvægi og menn geta klárlega lært af Lagerbäck. Hann hefur séð þetta allt og fór mun lengra með Svíþjóð heldur en búist var við. Hann á allar treyjurnar og hefur upplifað nánast allt í bransanum. Ég ber hámarksvirðingu fyrir svona manni,“ útskýrði Keegan en spurður um íslenska leikmenn þá þekkir hann best til Eiðs Smára.

„Síðustu árin er Guðjohnsen sá sem ég þekki best til en þess má geta að Árni Gautur Arason var markvörður hjá mér hjá Manchester City. Ég kann vel við strákinn hjá Swansea, Sigurðsson eða hvernig sem nafnið er nú borið fram. En íslenska liðið snýst ekki um einstaklinga heldur liðsheild og þess vegna á liðið góða möguleika,“ sagði hin viðkunnalega fótboltahetja Englendinga Kevin Keegan í samtali við Morgunblaðið.