James Simons, strengjafræðingur og stofnandi Renaissance Technologies, stillir sér hér upp við hlið lífstílsdrottningarinnar Martha Stewart. Hann varð að gera sér 1,7 milljarða dala (210 milljarða króna) að góðu í fyrra.
James Simons, strengjafræðingur og stofnandi Renaissance Technologies, stillir sér hér upp við hlið lífstílsdrottningarinnar Martha Stewart. Hann varð að gera sér 1,7 milljarða dala (210 milljarða króna) að góðu í fyrra. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Miles Johnson Tekjur forsvarsmanna bandarískra vogunarsjóða eru stjarnfræðilegar og í sumum tilfellum virðast þóknanir sjóðsstjóranna á síðasta ári ekki endilega í beinu samhengi við árangur þeirra við að ávaxta eignir fjárfesta.

Sú var tíð að kjörorð vogunarsjóðanna á Wall Street var „þeir sterkustu lifa af“. Nú gæti þurft að breyta því yfir í „nördarnir munu erfa jörðina“.

Þeir sjóðsstjórar vogunarsjóða sem kallaðir eru „quants“, eða tölfræðingar, og nota flókin tölvukerfi til að ákvarða viðskipti sín á fjármálamörkuðum, voru með hærri laun á síðasta ári en margir frægustu hlutabréfafjárfestarnir í greininni, sem sumir töpuðu háum fjárhæðum á árinu 2015.

Tekjurnar hækkuðu um 10%

Samkvæmt samantekt tímaritsins Institutional Investor's Alpha fengu 25 hæst launuðu vogunarsjóðsstjórar heims greidda samtals 12,94 milljarða dala á síðasta ári, sem er meira en 10% hækkun frá árinu 2014 þegar fjárhæðin var 11,62 milljarðar.

Mest áberandi í hópi „tölfræðinganna“ er strengjafræðingurinn og fyrrverandi dulmálsgreinandinn James Simons hjá Renaissance Technologies. Hann þénaði 1,7 milljarða dala í fyrra og deilir efsta sætinu.

Með honum í hópi 10 tekjuhæstu eru David Shaw, fyrrverandi prófessor í tölvunarfræði við Columbia-háskóla, sem stýrir DE Shaw fjárfestingarfyrirtækinu og fékk í sinn hlut um 750 milljónir dala, auk John Overdeck og David Siegel hjá Two Sigma sem þénuðu hvor um sig 500 milljónir dala.

Stór nöfn detta út af lista

Árangur þeirra er allt annar en hjá sumum stærstu nöfnunum á Wall Street sem reiða sig á mannlega dómgreind frekar en talnarunur og tölvukóða.

Vegna slakrar frammistöðu datt Bill Ackman hjá Pershing Square út af listanum yfir þá 25 tekjuhæstu, en hann tapaði miklu á því að veðja á lyfjafyrirtækið Valeant. Af öðrum stórum nöfnum sem hurfu af listanum má nefna Daniel Loeb hjá Third Point, John Paulson hjá Paulson & Co og Leon Cooperman hjá Omega Advisors.

En það var ekki hart í ári hjá öllum hefðbundnum vogunarsjóðum. Stuðningsmenn hlutabréfavals geta fundið friðþægingu í þeim 1,7 milljörðum dala sem Ken Griffin hjá Citadel græddi á síðasta ári, og komu honum í fyrsta sæti listans við hlið James Simons. Aðalsjóðirnir tveir hjá Citadel, Kensington og Wellington, skiluðu 14% ávöxtun.

Eigin pyngja sleppur

Auk þess sýna tölurnar að ekki þurftu allir leiðandi stjórnendur vogunarsjóða að láta eigin pyngju líða fyrir það þótt að arðsemin ylli vonbrigðum . Sumir héldust áfram í hópi þeirra hæst launuðu í geiranum þrátt fyrir lélega frammistöðu.

Ray Dalio hjá Bridgewater, stærsta vogunarsjóði heims í eignum talið, fékk 1,4 milljarða dala þó svo að All Weather sjóðurinn hans hefði skilað tapi. Michael Platt hjá Blue Crest og Dan Och hjá Och Ziff voru einnig í hópi 25 tekjuhæstu þó svo að helstu fjárfestingasjóðir þeirra hefðu skilað lélegri afkomu.