Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Kerfi blekkinganna er óðum að hrynja sem aumasta spilaborg,“ segja Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri í leiðara Tíundar, blaðs ríkisskattstjóra.

„Kerfi blekkinganna er óðum að hrynja sem aumasta spilaborg,“ segja Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri í leiðara Tíundar, blaðs ríkisskattstjóra. Þar fara þeir hörðum orðum um aflandsfélög og skattaskjól.

Í leiðaranum, sem ber yfirskriftina Aflandsbælin, segir m.a. að það sé áleitin spurning hvers vegna fjármagnseigendur hafi í stórum stíl tekið ákvörðun um að færa eignir inn í aflandsfélög og sveipa þær huliðshjúpi með flóknum blekkingum. Sumir hafi gefið þær skýringar að þetta hafi verið einhliða ákvörðun fjármálafyrirtækis og að úrvinnsla lánafyrirgreiðslu hafi verið færð til Lúxemborgar. Aðrir hafi þó viðurkennt að ástæðan hafi einfaldlega verið sú að fyrirkomulagið gerði skattyfirvöldum erfitt fyrir að afla upplýsinga og í trausti leyndarinnar hafi menn látið freistast.

Það sé að koma enn skýrar í ljós en áður að íslenskir athafnamenn hafi ekki dregið af sér við að fela fjármuni og eignarhald fyrir íslenskum yfirvöldum. „Svo virðist sem ekki aðeins skattyfirvöld hafi verið blekkt, heldur einnig samkeppnis- og fjármálayfirvöld. Uppsetning á aflandsfélagi ásamt felustjórnendum, verður ekki gerð nema með liðsinni fjármálafyrirtækja eða sérfræðinga í hlutaðeigandi löggjöf sem vinna verkin fyrir eigendur fjármagnsins. Allt virðist þetta hafa verið unnið með skipulegum hætti á öllum stigum og ráðgjafarnir voru ugglaust til taks ef yfirvöld fóru að krefjast óþægilegra upplýsinga. Við þær aðstæður er gjarnan gripið til gamalkunnugra aðferða, tefja, fara undan í flæmingi, jafnvel að gera yfirvöld tortryggileg og þegar öll sund lokast að hóta starfsmönnum skattyfirvalda. Nú hefur sannast hið fornkveðna að upp komast svik um síðir, þó með óvæntum hætti væri. Panamaskjölin hafa svipt hulinni af felustaðnum og þeir sem töldu sig eiga falinn fjársjóð í jörðu að hætti sjóræningja geta tæplega vænst þess lengur að sitja einir að góssinu.“