Margrét Þórarinsdóttir fæddist í Teigi í Vopnafirði 30. júlí 1914. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum í Reykjavík 22. apríl 2016.

Foreldrar hennar voru Þórarinn Stefánsson, bóndi í Teigi, búfræðingur og kennari, f. 16. maí 1875, d. 28. maí 1924, og Snjólaug Filippía Sigurðardóttir, húsfreyja í Teigi og saumakona, f. 4. desember 1878, d. 30. mars 1954. Systkin: Sigurður, f. 1912, d. 1983, Soffía, f. 1912, d. 1921, Stefán Gunnlaugur, f. 1913, d. 2006, Vilhelm, f. 1916, d. 1998, Þórhildur, f. 1918, d. 2015, Soffía, f. 1924, d. 2006.

Margrét missti föður sinn þegar hún var tæplega tíu ára gömul. Þá tvístraðist fjölskyldan og Margrét bjó á ýmsum stöðum, fyrst í Vopnafirði, en síðan í Svarfaðardal og í grennd við Akureyri, en lengst af hjá móðursystur sinni, Vilhelmínu Þór, að Brekkugötu 34 á Akureyri. Margrét veiktist alvarlega þegar hún var liðlega sautján ára gömul og var upp frá því langdvölum á sjúkrastofnunum, á Akureyri, í Reykjavík og Hveragerði. Eftir að Vilhelmína lést 1966 flutti hún til systur sinnar, Soffíu, handavinnukennara, í Reykjavík, og bjuggu þær saman að Hörðalandi 4, allt þar til Margrét fór á Droplaugarstaði fyrir rúmlega tíu árum síðan.

Útför Margrétar hefur farið fram í kyrrþey að hennar ósk.

Þegar Magga, föðursystir mín, flutti suður til Soffíu, systur sinnar, árið 1967, hún rúmlega fimmtug og ég liðlega tvítugur, þekkti ég vart nokkuð til hennar. Síst gat mig þá grunað að hún ætti eftir að skipa jafn ríkan sess í huga mínum næstu hálfa öldina og raunin varð. Soffíu, sem var mér afar kær, hafði ég þekkt eins lengi og ég mundi. Nú varð fallegt heimili þeirra systra í Hörðalandi 4 miðdepill fjölskylduheimsókna. Sér í lagi var alltaf jafn notalegt að koma inn í herbergi Möggu og setjast þar á tal við hana. Hún var afar trúhneigð, hafði ung að árum helgað sig Hvítasunnusöfnuðinum. Trúin veitti henni augljóslega mikinn styrk til þess að takast á við erfiða heilsu, sem hafði hrjáð hana allt frá því að hún hafði orðið að leggjast in á Akureyrarspítala og vera þar í hálft annað ár þegar hún var rétt rúmlega sautján ára gömul. Hún hafði líka orðið fyrir þeirri reynslu að missa sex ára gömul tveimur árum eldri systur sína, og svo föður sinn þremur árum síðar og þurfa þá að flytja um sinn frá móður sinni. Fyrir mig, vantrúaðan frændann, færðist hugarró hennar, styrkt af trúnni, yfir á mig við þessar heimsóknir til Möggu, án þess að hún hefði nokkurn tíma otað trúnni að mér með beinum hætti. Ekki sakaði heldur hið hlýja skopskyn hennar og frásagnargleði. Minni hennar var með ólíkindum, hvort heldur hún var að lýsa atriðum úr æsku frá heimahögunum í Vopnafirði, ellegar færa nýlegar fréttir af því, sem var að gerast innan fjölskyldunnar. Hún sagði mér stundum frá því, hversu vel hún minntist hlýs og trausts handtaks föður síns, þegar hann leiddi hana, og ég leyfði mér að túlka það svo að þar hefði Jesús síðan komið í föðurstað. Hún geymdi í skúffu sinni fáeinar vísur, sem hún hafði ort um ævina. Ein þeirra er svona:

Gef mér náð til góði Jesús minn

að ganga með þér allan lífsveginn

svo að lokum sælla ég gangi inn

í sælubústað sem er himinninn.

Eina formlega menntunin, sem Magga naut um ævina, var tveggja mánaða farskóli á Vakursstöðum í Vopnafirði. Hún saknaði þess mjög að hafa ekki notið lengri skólagöngu, en skörp greind hennar skein í gegnum allt hennar viðmót. Þegar Magga fór á Droplaugarstaði fyrir rúmum tíu árum gat hún nánast fært herbergi sitt í Hörðalandi óbreytt þangað. Þar við bættist að Edith, sem hafði reynst þeim systrum svo góður granni í Hörðalandi, varð herbergisgranni Möggu síðustu árin. Heimsóknirnar héldu því áfram að vera jafn gefandi. Ég og Mary kveðjum Möggu frænku með þakklæti og söknuði. Hvíli hún í friði.

Sven Þ. Sigurðsson.

Ég vil skrifa nokkur orð um hana Margréti móðursystur mína, sem lést nú á öðrum degi sumars, 101 árs að aldri. Magga frænka var mér sannarlega mikils virði. Hún tók á móti mér þegar Þórhildur, móðir mín, kom heim af fæðingardeildinni. Magga sagði mér oft frá því að hún hefði staðið í dyragættinni með hvíta og nýstraujaða svuntu þegar hún tók mig nýfædda í fangið. Ég held að strax þarna hafi myndast þessi sterku tengsl og væntumþykja, sem var á milli okkar alla tíð. Magga átti við veikindi að stríða nærri allt sitt líf og gat þar af leiðandi ekki unnið úti, né hafði hún á yngri árum aðstöðu til að mennta sig, þó hún væri sannarlega góðum gáfum gædd. Hún bjó um 12 ára skeið á Droplaugarstöðum í litlu fallegu, notalegu herbergi. Það voru aldrei komin jól í mínum huga nema að heimsækja Möggu frænku. Þar var svo mikla ró að finna, notalegheit og æðruleysi. Þar gat maður einnig fengið fréttir af móðurfjölskyldunni, en hún var með allan þennan hóp nokkuð á hreinu, þrátt fyrir háan aldur. Einnig gat hún farið með ljóð utanbókar án þess að hika. Magga var einnig með góðan húmor og á 100 ára afmælinu stóð hún upp og sagði nokkur orð. Hún vildi láta Pétur nágranna sinn njóta dagsins líka, enda var þetta einnig hans afmælisdagur. Talaði um hversu skemmtilegur henni þætti Pétur vera og passaði sig á því að heimsækja hann ekki of oft, þar sem hláturinn lengir jú lífið. Áður en Magga fluttist á Droplaugarstaði hafði hún búið um alllangt skeið hjá yngstu systur sinni Soffíu, eða Fíu eins og hún var ávallt kölluð. Þar hittist fjölskyldan lengi vel um jólin og eru það góðar minningar. Ég man jóladaga þegar þær systur, ásamt móður minni, voru í smákökubakstri. Ilmurinn einstakur og hver smákaka gerð af kostgæfni. Það var ætíð mikil ró og friður á þessu fallega og fágaða heimili. Ég náði ekki að kveðja Fíu þegar hún féll frá 2006, stuttu eftir að hún flutti við hlið Möggu á Droplaugarstaði. Fannst mér erfitt að geta ekki fylgt Fíu, þar sem hún var mér einnig ákaflega kær og reyndist mér einkar vel. Vil ég því einnig minnast hennar í þessum skrifum. Fía starfaði sem handavinnukennari og voru verk hennar einstök. Þær systur kunnu allar til verka í þessum efnum og áttu þær ekki langt að sækja það. Móðir þeirra var saumakona að mennt og sá hún sér farboða með saumaskap í sveitinni eftir að hún missti mann sinn ungan að árum og varð að bregða búi og börnin fóru hvert í sína áttina. Þó að systkinin hefðu ekki alist upp saman var mikill kærleikur þeirra á milli og voru þau öll yfirveguð, þægileg og einstaklega hlý.

Ég þakka fyrir tímann með þeim systrum og allt sem þær gerðu fyrir mig og kenndu mér á lífsleiðinni. Dóttir mín er skírð í höfuðið á Margréti, sem auðnaðist ekki frekar en Fíu, að eignast börn, en þær áttu hins vegar í öllum börnum og barnabörnum systkina sinna og ræktuðu þau sambönd vel. Magga var einnig guðmóðir stelpunnar minnar og betri guðmóður var vart hægt að fá.

Magga var síðust að kveðja í þessum fallega systkinahópi.

Guð geymi ykkur öll.

Ragna.

Magga frænka, afasystir mín, var einstök og hæfileikarík manneskja. Hún hélt heimili með systur sinni Soffíu í Hörðalandi 4 til haustsins 2005, þegar hún fór á Droplaugarstaði. Eftir það kölluðum við herbergi hennar þar minnsta Hörðaland. Magga var alltaf mikill sjúklingur, en það lét hún ekki hafa áhrif á sig. Hún var afar handlagin og hafði þann hæfileika að endurlífga plöntur. Eitt skipti þegar ég kom í Hörðalandið var Magga að gera við rafmagnskló. Ég var svo hissa að sjá hana gera þetta að ég spurði hana hvort hún fengi ekki rafstuð af þessu. Hún hló og sagði að þetta væri ekkert mál. Hún var fréttaveita fjölskyldunnar og var alveg einstaklega minnug fram á síðasta dag. Hún sagðist stundum ekki geta heyrt eða skilið hvað fólk væri að segja, en þegar aðrir komu í heimsókn þá endurtók hún allt. Ég held að í hennar huga hafi menntunin falist í lífinu. Ég hef verið í söngnámi og eitt sinn þegar ég hafði fallið á bóklegu prófi sagði Magga mér bara að halda áfram vegna þess að lífið væri skóli. Hún hafði gaman af því að fylgjast með því, sem ég var að gera, hafði sterk áhrif á mig og mótaði mig sem þá persónu, sem ég er í dag. Ég heimsótti hana vikulega á Droplaugarstaði og við áttum alveg yndislegar stundir saman. Heimsóknir mínar í minnsta Hörðaland verða mér alltaf dýrmætar.

Aileen Soffía Svensdóttir.