Ferðamenn Tjaldað er í Borgarnesi þótt ekki sé búið að opna svæðið þar.
Ferðamenn Tjaldað er í Borgarnesi þótt ekki sé búið að opna svæðið þar.
Óþolinmóðir erlendir ferðamenn hafa undanfarna daga verið að koma sér fyrir á tjaldsvæðinu við Borgarbraut í Borgarnesi þótt það verði ekki opnað fyrr en 1. júní.

Óþolinmóðir erlendir ferðamenn hafa undanfarna daga verið að koma sér fyrir á tjaldsvæðinu við Borgarbraut í Borgarnesi þótt það verði ekki opnað fyrr en 1. júní. Salernis- og hreinlætisaðstaðan á svæðinu er lokuð og keðja hefur verið strengd yfir veginn að svæðinu svo þangað sé ekki ekið. Það hefur þó ekki hindrað ferðafólk í að dvelja þarna og er líklegt að það hafi ekki vitað að tjaldsvæði landsins verða almennt ekki opnuð fyrr en um næstu mánaðamót.

Arndís Úlfhildur Sævarsdóttir hjá Landamerkjum ehf,, sem reka tjaldsvæðið í Borgarnesi, segir að veðurfar ráði því einkum að svæðið sé ekki opnað fyrr. Hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík fengust þau svör að vegna þess hvernig veðurfari á Íslandi væri háttað í maímánuði hefði ekki þótt óhætt að hafa tjaldsvæði landsins almennt opin fyrr en í júní. Þó eru dæmi um að svæði séu opnuð fyrr eins og í Laugardal í Reykjavík og á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Þar er opnað 15. maí samkvæmt vefsíðunni tjalda.is sem veitir upplýsingar um öll helstu tjaldsvæði landsins.

Upplýsingamiðstöðin ráðleggur ferðamönnum, sem komnir eru til landsins og ekki var kunnugt um hvenær tjaldsvæðin eru opin að hafa samband við bændur og aðra landeigendur og leita leyfis til gistingar á meðan. gudmundur@mbl.is

Tjaldsvæði
» Mikill fjöldi tjaldsvæða er í öllum landsfjórðungum. Flestum fylgir salernis- og hreinlætisaðstaða.
» Tjaldsvæðin eru vinsæl og þétt setin yfir sumarmánuðina. Gestir eru jafnt Íslendingar sem erlendir ferðamenn.
» Gistikostnaður er misjafn, oft 1.000 til 1.500 kr. á mann. Aukalega er greitt fyrir rafmagn og aðra þjónustu.