Stúdentagarðar Félagsstofnun stúdenta sér m.a. um ýmsa þjónustu á svæði Háskóla Íslands og byggingu og rekstur Stúdentagarðanna við HÍ.
Stúdentagarðar Félagsstofnun stúdenta sér m.a. um ýmsa þjónustu á svæði Háskóla Íslands og byggingu og rekstur Stúdentagarðanna við HÍ. — Morgunblaðið/Ómar
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Félagsstofnun stúdenta, FS, fól Kaupþingi um tvo milljarða króna í fjárstýringu á árunum fyrir bankahrun og tapaðist hluti þessara fjármuna við hrunið.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Félagsstofnun stúdenta, FS, fól Kaupþingi um tvo milljarða króna í fjárstýringu á árunum fyrir bankahrun og tapaðist hluti þessara fjármuna við hrunið. FS höfðaði í kjölfarið sex mál á hendur þrotabúi bankans og krafðist þess að fá þetta tap bætt. Málið snerist m.a. um hvort Kaupþing hefði farið út fyrir fjárfestingarheimildir sínar með því að fjárfesta í félögum sem tengdust bankanum.

Á mánudaginn felldi Hæstiréttur dóma í öllum málunum og varð niðurstaðan sú að þrotabúið var sýknað af öllum kröfum.

Forsaga málsins er sú að FS skaut málinu til Hæstaréttar eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði neitað að viðurkenna kröfuna. Samkvæmt dómsskjölum eru málavextir þeir að FS og Kaupþing gerðu með sér samning árið 2003 um að bankinn tæki að sér eignastýringu fyrir FS. Með samningnum var bankanum falið að kaupa fjármálagerninga fyrir fé stofnunarinnar, annast innlausn þeirra og innheimtu afborgana, vaxta og verðbóta og að endurfjárfesta fyrir það fé sem innheimtist af verðbréfum sóknaraðila. Kom m.a. fram í samningnum að FS gerði sér grein fyrir eðli verðbréfaviðskipta og þeirri áhættu sem þeim fylgdi og að henni hefði verið gerð grein fyrir hættu á sveiflum í ávöxtun verðbréfa og að undirliggjandi eignir samningsins gætu rýrnað á samningstímanum.

„Hefðbundið hrunmál“

Þegar íslensku bankarnir hrundu í október 2008 voru þessir fjármunir á annan milljarð króna, þar af voru rúmar 850 milljónir bundnar í sex verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Kröfur FS námu alls 169.765.543 krónum og 12.883 evrum, sem samtals eru rúmlega 171.572.000 krónur.

„Það má líklega segja að þetta sé hefðbundið hrunmál,“ segir Teitur Már Sveinsson, lögmaður FS. „Félagsstofnunin endurheimti ekki allt sitt fé úr þessum sex sjóðum þegar þeim var slitið og gengið frá uppgjöri á þeim. Í kjölfarið lýsti FS sex kröfum vegna þessara sex sjóða fyrir mismuninum í þrotabú bankans, ekki náðist sátt og þá fór málið fyrir héraðsdóm og síðan fyrir hæstarétt.“

Teitur segir að FS og Kaupþing hafi skrifað undir fjárfestingarstefnu sem var „mjög áhættufælin“.

Það hafi síðan verið mat dómkvadds matsmanns sem fenginn var til að meta tjónið að sjóðirnir hefðu farið út fyrir fjárfestingarheimildir laga með því að fjárfesta í Kaupþingi og tengdum aðilum, sem voru SPRON og Exista. Niðurstaða matsmannsins var að erfitt hefði verið að meta tjón vegna þessa og aðgreina það frá almennu tjóni vegna hrunsins.

Spurður hvort tap þessara fjármuna hefði áhrif á rekstur FS segist Teitur telja að þau séu óveruleg.