Sigurður Þorvaldsson er genginn til liðs við Íslandsmeistara KR í körfuknattleik og hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kom fram á Vísi í gær.
Sigurður, sem á að baki 57 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, kemur til félagsins frá Snæfelli, en hann gaf það út á dögunum að hann væri að flytjast til höfuðborgarsvæðisins frá Stykkishólmi. Hann hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með félaginu. Í vetur skoraði hann 14,6 stig og tók 6,3 fráköst að meðaltali í leik með Snæfelli.
Sigurður er 35 ára gamall og er ætlað að fylla skarð Helga Más Magnússonar, sem lagði skóna á hilluna eftir tímabilið. Um leið skilur hann eftir sig stórt skarð í liði Snæfells, sem endaði í níunda sæti Dominos-deildar karla á nýliðnu keppnistímabili. Sigurður hefur leikið með Snæfelli frá 2003, að undanskildu einu tímabili, 2005-2006, sem hann lék með Woon Aris í Hollandi, en hann spilaði áður þrjú tímabil með ÍR.