Jón Yngvi Jóhannsson er lektor á Menntavísindasviði HÍ og formaður Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna.
„Ég kenni íslensku og íslenskar bókmenntir í kennaradeild en hef lengi kennt íslenskar bókmenntir og bókmenntafræði á Hugvísindasviði þótt það hafi ekki verið mikið undanfarinn vetur.“
Þegar blaðamaður hafði samband við Jón Yngva var hann að skila síðustu einkunnum skólaársins. „Nú taka við rannsóknir og skrif, en það er helmingurinn af starfinu og ég get sinnt því betur núna.“
Jón Yngvi flytur fyrirlestur á Akureyri 21. maí um bókmenntaval í grunn- og framhaldsskólum, en sá fyrirlestur er hluti af rannsókninni „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ sem er samvinnuverkefni íslenskukennara við HÍ og HA. Hann er einnig að undirbúa fyrirlestra um Gunnar Gunnarsson, bæði hér á landi og í Hollandi, en Jón Yngvi skrifaði ævisögu Gunnars sem kom út árið 2011. „Ég vona að bókin hafi aukið áhuga lesenda og fræðimanna á Gunnari og hann á sinn sess í bókmenntasögunni þótt hann standi í hugum margra tröppu lægra en Halldór Laxness eins og aðrir rithöfundar frá síðustu öld.
Aðventa er sú bóka hans sem nýtur mestrar hylli og það hefur myndast merkileg hefð hjá mörgum að lesa hana á aðventunni. Ég er einmitt með Aðventu á borðinu hjá mér í vinnunni ásamt ýmsum ritum um vistrýni og heimspeki en ég flutti fyrirlestur um það efni á síðasta Hugvísindaþingi og er nú að breyta honum í grein.
Heima hjá mér er ég að lesa mér til ánægju Glataða snillinga eftir Heinesen í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar, ég las hana fyrir löngu en það er ánægjulegt að koma að henni aftur.
Utan bóklesturs og fræðimennsku þá stunda ég golf á sumrin og er byrjaður á því núna. Svo er konan mín einnig farin að spila og það er gaman að geta spilað saman. Ég var líka að fjárfesta í ársmiða á heimaleiki Þróttar í fótbolta og svo reyni ég að rækta garðinn og þá aðallega matjurtir fyrir fjölskylduna.“
Eiginkona Jóns Yngva er Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu, og dætur þeirra eru Valgerður, Silja og Steinunn.