Spekingar spjalla Björn hér í miðjunni á leiknum gegn Val á sunnudaginn. Hann hefur mætt á völlinn frá því krafturinn í starfinu var efldur. Krafturinn hefur smitað marga aðra Ólafsvíkinga sem mæta jafnvel klukkutíma fyrir leik til að fanga stemninguna og láta vel í sér heyra á meðan á leik stendur.
Spekingar spjalla Björn hér í miðjunni á leiknum gegn Val á sunnudaginn. Hann hefur mætt á völlinn frá því krafturinn í starfinu var efldur. Krafturinn hefur smitað marga aðra Ólafsvíkinga sem mæta jafnvel klukkutíma fyrir leik til að fanga stemninguna og láta vel í sér heyra á meðan á leik stendur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Fjögur lið eru efst eftir tvær umferðir í Pepsi-deild karla í fótbolta og eitt þeirra eru nýliðar Víkings frá Ólafsvík.

Á vellinum

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Fjögur lið eru efst eftir tvær umferðir í Pepsi-deild karla í fótbolta og eitt þeirra eru nýliðar Víkings frá Ólafsvík. Víkingar hafa unnið bæði Breiðablik og Val, lið sem spáð var góðu gengi en nýliðunum var spáð falli af flestum spámönnum.

„Mér líst vel á liðið í ár,“ segir Björn Arnalds hafnarstjóri í Snæfellsbæ sem hefur lengi mætt á völlinn í Ólafsvík og var meðal 712 áhorfenda sem hvöttu Ólafsvíkinga áfram í fyrsta heimaleik ársins gegn Val sem heimamenn unnu 2:1. Alls búa um 1.800 manns í Snæfellsbæ en um 1.100 í Ólafsvík. Uppgangur Víkinga hefur verið magnaður og eftir að hafa verið yfirleitt í neðri deildum fóru þeir upp í efstu deild árið 2014 sem þótti mikið afrek. Þeir féllu með sæmd og í fyrra settu þeir stigamet í 1. deildinni og ruku beint aftur upp í efstu deild.

„Ég nennti ekkert á leiki í gamla daga. Svo smitaðist maður af þessum köllum Jónasi Gesti og félögum sem hífðu starfið upp, þá fékk maður aftur áhuga á að fara á völlinn.

Ég hef alltaf haft áhuga á fótbolta alla mína ævi og held með Liverpool í enska fótboltanum. Ég átti heima á Akureyri í gamla daga og var Þórsari en eftir að ég varð sjómaður þá hætti ég að sparka sjálfur,“ segir Björn.

Hátíðarstemning

Krafturinn er mikill í Ólafsvík og það var hátíðarstemning í bænum þegar fyrsti heimaleikur sumarsins fór fram. En krafturinn er einnig á öðrum leikvöllum því töluverður fjöldi fer á útileiki. „Mér fannst vel mætt á sunnudag því það voru ekki margir Valsarar á leiknum. Það er svakaleg stemning hjá okkur á útileikjum. Það kemur fullt af brott fluttum Ólsurum á útileikina. Það er ekkert endilega fólk sem var á leikjum hér í Ólafsvík enda var þá ekki þessi uppgangur. Ég fór í fyrra á fjóra eða fimm útileiki og mér er svo minnisstætt þegar við spiluðum við Hauka að þar voru engir stuðningsmenn heimaliðsins, það voru bara Ólsarar. Í Grindavík sömuleiðis áttum við stúkuna enda unnum við þann leik stórt.“

Björn hefur farið á marga útileiki í gegnum tíðina en einn stendur upp úr. „Það var bikarleikur gegn FH. Ég er viss um að það voru um þúsund manns í bláu þann dag. Ég sá mynd og þar voru tveir þriðju í stúkunni í bláu og einn þriðji var hvítur. Það var haldin svakaleg grillveisla á trésmíðaverkstæði í Hafnarfirði hjá manni sem er ættaður úr Ólafsvík. Það var yfirfullt á planinu og brjáluð stemning. Svo fóru menn á leikinn og við töpuðum honum eins og við var búist en þetta var alveg ofboðslega skemmtilegur dagur. Það er magnað hvað það er flottur hópur sem styður liðið á höfuðborgarsvæðinu. Það gerir mikið fyrir liðið.“

Aðeins þrjú lið eru af landsbyggðinni í efstu deild og segir Björn að það sé oft styttra fyrir stuðningsmenn Víkinga að sjá sitt lið í Reykjavík en fyrir stuðningsmenn Reykjavíkur liðanna að koma í Ólafsvík. „Það er ekki minni stemning á útileikjunum. Okkur finnst ekkert mál að keyra til Reykjavíkur. Það eru ekki nema tveir klukkutímar hvora leið. Ég gæti þess vegna farið í bíó og heim aftur, þetta er svo lítið mál. Eftir að göngin komu er lítið mál að skutlast. Það er alltaf þannig að það er lengra úr Reykjavík út á land en frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.“

Draumabyrjun

Björn segir að fótboltinn skipti bæjarfélagið máli og sé góð auglýsing fyrir Ólafsvík. „Alveg eins og körfuboltinn er góð auglýsing fyrir Stykkishólm. Það er stemning hér, grill fyrir leik, fólk er að koma klukkutíma fyrir leik til að fanga stemninguna og hér er haldin hátíð fyrir hvern leik.“

Yrði draumur að vinna ÍA

„Það skiptir máli að byrja vel. Þegar við vorum síðast í úrvalsdeildinni gekk okkur illa í byrjun og við féllum eiginlega út af henni. En núna erum við reynslunni ríkari. Þetta er draumabyrjun og það væri algjör draumur að taka ÍA annan í hvítasunnu,“ segir Björn. Spurður um minnisstæðasta leikinn í Ólafsvík nefnir hann án þess að hika bikarleikinn gegn Stjörnunni fyrir nokkrum árum. „Það var magnaður leikur. Fór fram við frábærar aðstæður. Það var logn, kvöldsól, rosalegur fjöldi á vellinum og við unnum í vítakeppni. Ég get svarið það að ég missti röddina eftir leikinn. Þetta var eitt af þessum ógleymanlegu kvöldum.“