Sturla Friðrik Þorgeirsson fæddist 25. nóvember 1933. Hann lést 23. mars 2016. Útför Sturlu fór fram 9. apríl 2016.
Þann 9. apríl var elskulegi stjúpfaðir okkar, Sturla Friðrik Þorgeirsson, lagður til hinstu hvílu í Vestmannaeyjabæ. Eyjan skartaði sínu fegursta þennan dag og var það vel við hæfi.
Það var fyrir um fyrir 30 árum sem Sturla kom inn í líf okkar systkina þegar leiðir hans og móður okkar lágu saman. Hamingja hans og mömmu var einstök þannig að eftir var tekið af þeim sem þekktu þau og öðrum sem ekkert þekktu til. Þau voru samrýnd og studdu hvort annað í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau nutu þess að dansa, sem var oftast á stofugólfinu heima. Þau ferðuðust um landið og nutu náttúrunnar og að lesa hvort fyrir annað. Þau kunnu líka að gefa og þiggja af góðmennsku sinni hvort fyrir annað.
Hjálpsemi og greiðvikni var Sturlu í blóð borin. Við fengum oft að njóta kunnáttu hans og handlagni við stærri og smærri verk, hvort sem það var að smíða, mála eða jafnvel skipuleggja og innrétta heilu íbúðirnar.
Við minnumst Sturlu sem yndislegs manns sem alltaf var til staðar þegar á þurfti að halda. Margar minningar eigum um þær stundir sem við fjölskyldan áttum með móður minni, Erlu, og Sturlu. Ávallt var hlýlegt að koma til þeirra og enginn fékk að fara fyrr en vel mettur.
Afi Sturla var enginn venjulegur afi. Hann var þannig að alltaf var tími fyrir barnabörnin, annað mátti bíða, þau áttu alltaf alla hans athygli. Þolinmæði hans að leika við þau átti sér engin tímamörk. Það var hægt að byggja sama húsið úr kubbum tíu sinnum í röð en alltaf var það jafnspennandi fyrir litla fingur. Þau máttu einnig fylgja honum í allt sem hann var að gera. Göngutúr út í búð gat þannig orðið að ógleymanlegu ævintýri því afi kunni að segja sögur og glæddi umhverfið. Fyrir Sturlu var fjölskyldan það mikilvægasta og sýndi hann það svo sannarlega í verki.
Sturlu var margt til lista lagt og hann var mikil félagsvera. Hann spilaði brids, var öflugur skákmaður, spilaði á píanó og harmonikku. Einnig stundaði hann mikla útiveru, var fróður um sitt land og sinn uppruna. Það voru ófáar ferðirnar sem mamma og Sturla fórum um landið og átti Esjan ákveðinn sess í þeirra hjarta. Það er með söknuði sem við kveðjum Sturlu, hann sem gaf af sér svo margt og kenndi okkur hinum svo margt í lífinu.
Takk fyrir að vera börnum okkar svo góður afi. Takk fyrir að vera okkur svo góður stjúpfaðir. Takk fyrir að leiðbeina og kenna okkur hvað lífið er yndislegt. Takk fyrir allar góðu minningarnar. Takk fyrir að vera lífsförunautur móður okkar.
Við munum ávallt sakna þín.
Guð blessi og varðveiti þig, elsku Sturla, og megi Guðs englar vaka yfir þér.
Sigurður, Gunnsteinn, Sævar, Eydís og fjölskyldur.
Maður finnur það eftir því sem maður eldist meira hvað það er mikilvægt að fá að kynnast góðu fólki. Einstaklingum sem hafa haft góð áhrif á mann og maður hefur haft gagn og gaman af samvistum við líkt og þegar ég hugsa um kynni mín við Sturlu í gegnum tíðina. Hafi hann þökk fyrir og þótt farinn sé þá sendi ég honum kveðju í þessum minningarorðum og ljóði sem ég orti til hans eftir andlát hans.
Sturla var á margan hátt mjög sérstakur maður sem ekki flíkaði mannkostum sínum. Maður þurfti að umgangast hann býsna mikið til að kynnast því sem innra með honum bjó. Hann var til dæmis mjög fróður um allt sem viðkom Íslendingasögum og gat rakið söguna langt aftur á bak eins og ekkert væri. Hann átti það til að taka barnabörn sín og annarra og segja þeim á göngutúrum sögur úr Íslendingasögum. Frásögur sem þau síðan höfðu eftir honum. Til marks um áhuga hans fyrir sögunni er vert að geta þess að Íslendingasögurnar voru alltaf á náttborðinu hans og þótti honum þær ómissandi á öllum ferðalögum, svo hollur var hann undir söguna. Ekki stóð á Eyjamanninum að minnast á Tyrkja-Guddu ef þannig vildi til, enda hún hluti af hans vitund um söguna og eiginmaður hennar, Hallgrímur Passíusálmaskáld Pétursson, jafnframt. Sturla átti mjög auðvelt með að koma þessari mögnuðu þekkingu sinni áleiðis til þeirra sem hann umgengst þó smáfólkið hafi þar verið fróðleiksfúsast að öðrum ólöstuðum.
Sturla og Erla konan hans voru frábærir dansarar og var til þess tekið á böllum, enda hún fyrrverandi ballerína og hann skóladansari. Sturla var líka mjög hagur í höndum. Segja má að allt hafi leikið í höndum hans og þeir sem nutu þeirrar getu hans fóru ekki varhluta af hæfninni. Ég veit þetta sjálf að fenginni reynslu. Það er ekki öllum gefið að vera jafnvígur til höfuðs og handa en óhætt að fullyrða að Sturla hafi verið það.
Sturla var búsettur í Vestmannaeyjum þar til gosið kom. Flutti hann þá til Reykjavíkur og settist þar að og fór ekki aftur til Eyja fyrr en fullorðinn og heilsuveill maður með seinni konu sinni, Erlu, vinkonu minni, sem hann hafði verið giftur í 29 ár. Svona eru örlögin. Hann átti þrjú systkini sem öll fóru á undan honum yfir í hinn heiminn og öll komu á undan honum í þennan heim.
Á sjúkrahúsi Vestmannaeyja naut Sturla frábærrar umönnunar og áttu þau hjón margar góðar stundir þar saman.
Faðir ber þig burt á væng í faðm sér,
allir bíða hljóðir eftir vitjunar stund.
Veit að Jesú varðveitir þig og er hér,
vináttu englar geyma í gæfuríkri lund.
Á sólarströnd er Drottinn og englar.
Í ljúfri bæn þakka þér góðar stundir
þig styrki englar í ljúfum föðurfaðmi.
Ég veit að þín bíða gullprýddir fundir,
í óska draumhimins i Jesú elsku armi.
Er stjörnublik Alvalds og englar nærri.
(JRK)
Jóna Rúna Kvaran.