Hafís á Halanum „Í gær sigldum við inn í ísinn á leið okkar á milli fiskislóða,“ segir í lýsingu skipverja á Þerney RE.
Hafís á Halanum „Í gær sigldum við inn í ísinn á leið okkar á milli fiskislóða,“ segir í lýsingu skipverja á Þerney RE. — Ljósmynd/Hjalti Gunnarsson
Meira virðist vera af hafís á Grænlandssundi nú en á sama tíma í fyrra og er talsvert af ís Íslandsmegin við miðlínuna milli Íslands og Grænlands, að sögn Ægis K. Franzsonar, skipstjóra á Þerney RE.

Meira virðist vera af hafís á Grænlandssundi nú en á sama tíma í fyrra og er talsvert af ís Íslandsmegin við miðlínuna milli Íslands og Grænlands, að sögn Ægis K. Franzsonar, skipstjóra á Þerney RE. Þeir voru á mánudag á ufsaveiðum á Halamiðum þegar hafísinn kom inn yfir veiðislóðina og var þar talsvert af rekís og íshrafli, en einnig einstaka myndarlegir ísjakar. Þoka var á miðunum og þegar Ægir skipstjóri færði sig á milli veiðisvæða greip hann til þess ráðs að fá skipverja til að standa á útkikki til að fylgjast með hafísnum. Hann segir að það hafi allt gengið vandræðalaust.

Á Facebook-síðu Þerneyjar RE mátti lesa eftirfarandi í gær: „Hinn eini og sanni landsins forni fjandi, hafísinn, er ekki langt undan á Vestfjarðamiðum núna. Í gær sigldum við inn í ísinn á leið okkar á milli fiskislóða, engar græjur greindu ísinn, hvorki radar né hitamyndavél, og veðurskilyrði erfið til siglinga í ís, þ.e.a.s. mikil þoka og þá dugar ekkert annað en gamla góða aðferðin að raða strákunum á útkikk og þeir leiðbeindu skipstjóranum framhjá stóru jökunum. Þeir voru margir tignarlegir þegar þeir komu út úr þokunni.“

Í gær var Þerney komin sunnar og voru þeir á grálúðuveiðum á Torginu sem svo er kallað. Ægir sagði að afli væri frekar tregur, en ágætlega hefði hins vegar gengið á ufsanum á Halamiðum.

10. maí máttu íslensk skip hefja karfaveiðar á Reykjaneshrygg og sóttu Þerney og Örfirisey kvóta HB Granda. Ægir segir að vel hafi gengið og veiddi Þerney sinn skammt, um 550 tonn, á 10 dögum. Karfakvóti Íslendinga hefur verið skorinn mikið niður undanfarin ár og þannig nemur kvóti skipa HB Granda ekki nema þriðjungi þess magns sem félagið fékk úthlutað fyrir þremur árum. aij@mbl.is