[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undankeppni EM Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Karen Knútsdóttir, fyrirliði handknattleikslandsliðsins, er bjartsýn fyrir komandi verkefni, en Ísland mætir Frakklandi á Hlíðarenda í kvöld og sækir Þýskaland heim á sunnudaginn.

Undankeppni EM

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Karen Knútsdóttir, fyrirliði handknattleikslandsliðsins, er bjartsýn fyrir komandi verkefni, en Ísland mætir Frakklandi á Hlíðarenda í kvöld og sækir Þýskaland heim á sunnudaginn. Þetta eru tveir síðustu leikir Íslands í undanriðli fyrir EM sem fram fer í Svíþjóð í desember.

Fyrir leikina er Ísland í þriðja sæti riðilsins með tvö stig, Frakkland er með átta stig í efsta sæti og Þýskaland fjögur í öðru. Tvö efstu liðin úr undanriðlunum sjö komast á EM. Auk þeirra taka gestgjafar Svía þátt og einnig liðið sem nær bestum árangri liðanna sem hafna í þriðja sæti.

Þegar árangur liðanna í þriðja sæti er skoðaður þurrkast viðureignir gegn liðinu sem hafnar í neðsta sæti út og því gæti Ísland komist á EM þótt það tapi báðum leikjunum sem fram undan eru, en ekkert liðanna í þriðja sæti hefur náð stigum gegn öðru af tveimur efstu liðunum í riðlunum sjö. Eins og staðan er núna eru Slóvakar í bestu stöðunni en Ísland á möguleika á að klófesta síðasta þátttökusætið.

Verðum að mæta vel stemmdar í leikinn

„Mér líst ágætlega á þetta. Ég kom til móts við liðið í gær (í fyrradag), þannig að ég er bara búin að ná þremur æfingum. Það eru alltaf einhver meiðsli en það koma sterkir leikmenn í hópinn í staðinn og það er gott að fá Berglindi og Íris í hópinn, það gefur okkur mikið á æfingunum,“ sagði Karen í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eins og hún nefnir eru markverðirnir Berglind Íris Hansdóttir og Íris Björk Símonardóttir í hópnum að nýju eftir nokkurt hlé en Florentina Stanciu og Guðrún Ósk Maríasdóttir glíma við meiðsli og eru ekki með. Auk þeirra eru Ramune Pekarskyte og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir frá vegna meiðsla. „Við erum ágætlega vanar því að það vantar alltaf einhverjar en svona er þetta í handboltanum. Við erum með fínan hóp og ég held að við getum gert góða hluti ef við mætum vel stemmdar til leiks,“ sagði Karen.

Mæta Frakkar til leiks með hangandi haus?

Andstæðingar kvöldsins eru ekki af verri endanum, en Frakkar höfnuðu í sjöunda sæti á heimsmeistaramótinu sem fór fram í fyrra og fimmta sæti á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Stelpurnar fengu skell í fyrri leiknum í Frakklandi í byrjun október í fyrra, en heimastúlkurnar unnu þann leik 27:17.

„Frakkar eru toppþjóð þannig að þetta verður erfitt. Við töpuðum stórt fyrir þeim úti og eigum að gera betur,“ sagði Karen og hikaði örlítið þegar hún var spurð hvort Ísland ætti raunhæfan möguleika á því að vinna leikinn í kvöld. „Ef allt gengur vel hjá okkur og allt illa hjá þeim, þá kannski. Þær eru að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana þannig að það er spurning hvort þær mæti til leiks með það hugarfar að gera þetta með vinstri og ætli að komast í gegnum leikinn án þess að meiðast. Það getur því allt gerst þannig séð.“

Karen leikur með Nice í Frakklandi, sem hafnaði í fjórða sæti deildarinnar í vetur. Hún þekkir því andstæðinga kvöldsins vel. „Þær eru mun líkamlega sterkari en við og þetta eru allt 100% atvinnumenn. Við erum með fáa atvinnumenn sem eru að æfa tvisvar á dag og eru í þessu á fullu. Það gefur augaleið að á því er mikill munur.“

Þær frönsku eru þó ekki bara stórar og sterkar. „Þær eru líka mjög fljótar og þessi hópur hefur verið lengi að. Flestar þeirra spila í Frakklandi og þekkjast vel. Þetta er held ég ein af átta bestu handboltaþjóðum í heiminum í dag.“

Ómögulegt að segja til um þetta

Karen er ekki búin að skoða hvað þarf að gerast til að Ísland komist á lokamótið í Svíþjóð. „Nei, ég er ekki búin að skoða þetta. Mér finnst þetta flókið og hálf leiðinleg umræða. Mig langar bara að einbeita mér að næsta leik, ná tveimur stigum og sjá hvað gerist. Ég veit ekki einu sinni hverjir eru í hinum riðlunum. Það eru svo margir leikir eftir að það er alveg ómögulegt að segja til um þetta.“