Mótsagnir Þessi menningarsaga er saga mistaka.
Mótsagnir Þessi menningarsaga er saga mistaka.
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Á morgun, fimmtudaginn 2. júní kl. 20, verður í sýning í Gamla bíói sem fjallar um Mistakasögu mannkyns.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Á morgun, fimmtudaginn 2. júní kl. 20, verður í sýning í Gamla bíói sem fjallar um Mistakasögu mannkyns.

Á boðstólum verða hefðbundin ljóð og tónlist sem fara í gegnum nýstárlega skapandi hakkavél í ádeiluverki tónlistarmannanna Hallveigar Rúnarsdóttur, Erps Eyvindarsonar, Hilmars Arnar Hilmarssonar og Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Vanmetum greind almúgans

Aðstandendur sýningarinnar vitna í fréttatilkynningu í blaðamanninn H.L. Mencken, sem vann hjá Chicago Tribune í byrjun síðustu aldar: „Enginn hér í heimi hefur eftir minni bestu vitneskju – og ég hef ráðist í áralangar rannsóknir og notið liðsinnis annarra við þær – nokkurn tíma tapað fé á því að vanmeta greind hins almenna fjölda. Né hefur nokkur þurft að segja af sér embætti vegna þessa.“

Þarna er ákveðinn tónn sleginn fyrir sýninguna.

Trúarbrögð, heimspeki og listir hafa árþúsundum saman fjallað um hina „illu hneigð“ mannkyns og að það sé okkur eðlislægt að endurtaka mistök kynslóðanna.

Mistakasaga mannkyns skoðar söguna sem og íslenskan raunveruleika okkar daga með hjálp tónlistar allra alda. Harmljóð bókmenntanna, tregasöngvar ólíkra tónlistarstefna og kaldhæðnir textar um það hvernig sagan hefur gefið okkur óljósa von um framtíðina mynda grunn verksins. Tónlistarmennirnir fjórir leita svara við því hvort okkur sem mannkyni sé viðbjargandi, hvort líffræðin sé öllu yfirsterkari og hvort við séum öll á leið út í geim.

Upphafið býr í klámvísu

Mistakasaga mannkyns er fyrsta samstarfsverkefni þessara listamanna og spratt samstarfið út frá verkefni þeirra með Bjarka Karlssyni, íslenskufræðingi og skáldi, sem fékk þessa listamenn til þess að vinna með sér að flutningi og túlkun á klámvísu sem var skrifuð á handrit af Grettissögu á miðöldum.

Listamennirnir náðu það vel saman að þeir fóru að þróa með sér annað verk og nú án Bjarka.

Listamennirnir koma úr ólíkum áttum, úr klassískum söng eða úr rapptónlist eða þjóðlagahefð.

„Já, verkið er tónlist, ljóðlist og sjónrænt, þetta er allt sett saman í eina ágæta súpu,“ segir Erpur Eyvindarson, einn listamannanna. „Við erum að fókusera á Íslandssöguna en erum í raun að segja heimssöguna. Það er þetta með mannskepnuna að halda alltaf að hún sé miðpunktur alls. Sérstaklega ef okkur tekst að búa til ágæt samfélög, þá missa menn sig gjarnan í einhverjar fantasíur um eigið ágæti. Þá ryðjast menn líka fram og sækjast til valda og þetta vald yfir hugmyndum og hugum fólks er mikilvægasta valdið.

Upphaf verksins býr í raun og veru í klámvísu frá miðöldum.

Tónlist og ljóðlist og svo er þetta sjónrænt. Já, þetta er svona allt saman í góðri súpu.“

Þú segir að vald yfir huga fólks sé mikilvægasta valdið?

„Já, og þessi valdabarátta er í gangi allt í kringum okkur. Þetta er náttúrulega algjör sturlun.

Það sem Hollywood er að segja okkur, þessi heimsmynd sem er alltaf verið að varpa upp. Allt mjög sjálfmiðað og hluti af valdi.

Við erum með flutning á hluta af fyrirlestri stórskrítins verkfræðings sem reiknaði hnit út frá píramídunum í Egyptalandi þar sem öll hnit vísuðu til Íslands og þetta hlyti því að vera merkilegasta land í heimi.

Þetta er svo ofboðslega skemmtileg upphafning og svo klikkað.

Svo má ekki gleyma að sýna þessu fólki virðingu, því að þegar þessi verkfræðingur er að setja Ísland í miðju alls erum við náttúrulega ennþá nýlenda Danmerkur og menn mjög komplexaðir, búa í moldarkofum og eru að reyna að mikla sig og öðlast sjálfstraust.

Þetta fer allt saman svolítið eftir því í hvaða samfélagi þú lifir á hverjum tíma hversu óeðlilegt þetta er.

Þetta er alveg eðlilegt í ákveðnum aðstæðum en getur orðið mjög ljótt í öðrum.

Ég meina, hvað er hvíti maðurinn að mikla sig núna í dag? Hann var algjört drasl á miðöldum og lifði bara í hellum og moldarkofum og borðaði gras og þang á sama tíma og stórkostleg menningarríki voru bæði í Kína og Mið-Austurlöndum.“

Öryggi er það sem allir vilja

„Þetta eru stóru pælingarnar en svo erum við mest að einbeita okkur að þessu smáa. Við viljum öll það sama. Við viljum öll öryggi fyrir okkur og börnin okkar. Við viljum geta étið án þess að vera étin. Verða einhvern veginn hluti af þessu gangverki. En svo þegar menn eru í valdastöðum með ýmsar ágætar hugmyndir um að ná þessum markmiðum fyrir sem flesta fer framkvæmdin alltaf í eitthvert fokk.

Við segjum frá þessu bæði með ljóðum og tónlist. Við erum með egypsku dauðabókina, sem er svona fyrsti vísirinn að boðorðunum. Síðan tökum við fyrir öll þessi helstu menningarsamfélög sem hafa átt sín ljóð og sína tóna.

Við byrjum samt alltaf á Íslandi og endum alltaf þar.“

Samstarf listamanna

Hafðir þú unnið með þessum listamönnum áður en þið hittust í kringum þetta verkefni hjá Bjarka?

„Nei, fæst af okkur þekktumst fyrir þetta samstarf.

Nema að ég hafði unnið með Hilmari Erni áður. Við unnum með rímnaljóninu Steindóri Andersen í verkefninu Rímur og rapp. Stikluvik var lagið okkar, þar sem við blönduðum saman gömlum rímum og rappi okkar tíma. Það náði gríðarlegum hæðum, þú ættir að kíkja á það á Youtube. Það verður líka hluti af mistakasögunni. Hallveigu Rúnarsdóttur og Bjarna Frímanni kynntist ég í flutningi á Grettisdæminu hans Bjarka Karlssonar í Humboldt-háskóla í Berlín. Bjarki kemur reyndar við sögu í mistakasögunni sem vígslubiskup, við vildum sýna honum virðingu fyrir að hafa leitt okkur saman.“