Ég var eitt sinn sem oftar að róta í gömlu dóti hjá Fríðu frænku fyrir mörgum árum þegar ég rakst á stokk með gömlum ljósmyndum, lítil portrett límd á karton í stærðinni 9 x 6 cm.

Ég var eitt sinn sem oftar að róta í gömlu dóti hjá Fríðu frænku fyrir mörgum árum þegar ég rakst á stokk með gömlum ljósmyndum, lítil portrett límd á karton í stærðinni 9 x 6 cm. Þegar ég svo var að fletta í gegnum myndirnar rakst ég á eina af þremur börnum og þar á meðal eitt með svip sem mér fannst ég kannast við.

Þegar ég skoðaði myndina betur kom í ljós að hún var tekin af H. Einarssyni á Akureyri og ofan við myndina hafði einhver skrifað: „Börn Steingríms læknis Akureyri“. Börnin á myndinni voru semsé Anna amma mín í miðjunni, sennilega á öðru árinu þegar myndin var tekin, líklega 1912, en sinn hvorum megin við hana voru bræður hennar Baldur og Bragi.

Það kemur þér væntanlega ekki á óvart, lesandi góður, að það gladdi mig mjög að rekast á þessa litlu mynd sem ég keypti snimmhendis, enda örfáar myndir til af ættmennum mínum frá þeim tíma og hver mynd því dýrgripur.

Örlítið fleiri myndir eru til af foreldrum mínum litlum og reytingur af myndum af mér og systkinum mínum frá því við liggjum ber á gæruskinni og fram á unglingsár. Af börnum mínum eru aftur á móti til hundruð mynda og af barnabörnunum? Þúsundir mynda og verða eflaust tugþúsundir áður en yfir lýkur.

Nú vill svo til að mér finnst það hreint afbragð að eiga svo margar myndir af barnabörnunum og þær mættu skipta hundruðum þúsundum mín vegna. Ég er því ekki að barma mér yfir grúanum, en þessar hugleiðingar spruttu af fréttum frá Google um daginn, þar sem fram kom að myndageymsla fyrirtækisins, sem opin er hverjum sem vill, geymir nú 13,7 petabæti af myndum, 13.700 terabæti, ef það gerir auðveldara að sjá magnið fyrir sér (gætið að því að Google rekur bara eina þjónustu af mörgum og ekki þá stærstu).

Mér þykir líklegt að obbinn af myndunum sé fjölskyldumyndir og þá aðallega myndir af börnum og barnabörnum. Eftir því sem Google-bændur segja tæki það 424 ár að fletta í gegnum þær myndir, en ekki fylgir sögunni hve hratt er flett.

Það er þó nokkuð ljóst að fæstar myndirnar mun nokkurn tímann bera fyrir augu eiganda þeirra eða nokkurs manns yfirleitt. (Þess má geta í þessu samhengi að ljósmyndararnir hafa merkt tvo milljarða myndanna og þá kemur í ljós að í safninu eru 24 milljarðar sjálfsmynda.)

Það er viðbúið að manni fallist hendur þegar maður áttar sig á því að í stafræna fjölskyldualbúminu eru fleiri myndir en ævin endist til að skoða, en kannski erum við ekki að taka myndir til þess að skoða þær, heldur til að staðfesta augnablikið, sjá viðfangið á skjánum áður en smellt er af og setja þannig punktinn aftan við atburðinn.

arnim@mbl.is

Árni Matthíasson