Seðlabankinn Fær rúmar heimildir til að afla upplýsinga.
Seðlabankinn Fær rúmar heimildir til að afla upplýsinga. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Seðlabanka Íslands eru veittar víðtækar rannsóknarheimildir með aflandskrónufrumvarpi sem nýlega var samþykkt á Alþingi.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Seðlabanka Íslands eru veittar víðtækar rannsóknarheimildir með aflandskrónufrumvarpi sem nýlega var samþykkt á Alþingi. Með lögunum er Seðlabankanum veitt heimild til að krefjast upplýsinga sem bankinn telur nauðsynlegar af hverjum sem er, en upplýsingarnar þurfa ekki að tengjast aflandskrónum með beinum hætti. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar eða gögn varða þann aðila sem beiðinni er beint til eða aðra sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans, til dæmis fjölskyldumeðlimi eða lögmenn.

Ákvörðun Seðlabankans um slíka upplýsingaöflun er endanleg á stjórnsýslustigi, en í því felst að ekki er mögulegt að skjóta ákvörðuninni til ráðherra. Þá frestar málskot til dómstóla ekki réttaráhrifum slíkrar ákvörðunar. Komi til þess að aðili neiti Seðlabankanum um upplýsingar eða gögn getur bankinn lagt dagsektir á viðkomandi, 50 þúsund til 50 milljónir króna á dag.

Andstætt mannréttindareglum

Að sögn Reimars Péturssonar, formanns Lögmannafélags Íslands, bera lögin vott um vanþekkingu á íslenskri réttarskipan. „Ef lögmaður hefur veitt skjólstæðingi sínum ráðgjöf um einhver málefni sem tengjast þessum aflandskrónum og hefur verið trúað fyrir upplýsingum sem tengjast því, þá getur hann aldrei afhent Seðlabanka Íslands slíkar upplýsingar. Ef hann gerði það myndi hann ekki einungis brjóta gegn siðareglum lögmanna heldur einnig gegn ákvæðum um réttláta málsmeðferð og friðhelgi einkalífs sem njóta verndar Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárinnar,“ segir Reimar.

Dagsektir notaðar sem refsing

Hann lýsir undrun sinni yfir þeim ákvæðum laganna sem lúta að dagsektum, en dagsektir falla alla jafnan niður eftir að aðilar hafa efnt þá skyldu sem stjórnvöld hafa lagt á þá. „Venjulega er þetta þannig að dagsektir eru tæki til að knýja fram efndir og eru ekki greiddar nema í undantekningartilvikum. Hérna er gengið miklu lengra, vegna þess að jafnvel þótt þú sért búinn að afhenda upplýsingarnar, þá falla dagsektirnar ekki niður. Í þessu tilviki eru dagsektirnar því ekki tæki til að knýja aðila til efnda á skyldu heldur eru þær notaðar sem bein refsing. Það er óhugsandi að refsing af þessum toga verði lögð á nema af sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól að undangenginni rannsókn og réttlátri málsmeðferð þar sem verjandi hefur verið skipaður,“ segir Reimar. Hann telur ótækt að refsa aðilum fyrir það eitt að láta reyna á hvort Seðlabankinn eigi í raun og veru rétt til að kalla eftir upplýsingum.

Lögin geta alls ekki staðist

Reimar segir laganefnd Lögmannafélagsins ekki hafa fengið tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarpið, en frumvarpið var lagt fyrir á föstudegi og samþykkt á sunnudegi, og bætir við að hann telji ólíklegt að gengið verði hart fram á grundvelli umræddra ákvæða. „Einhverjir af þeim sem fara með framkvæmd þessara mála hljóta að gera sér grein fyrir, ef allt er með felldu, að þetta getur aldrei virkað eins og þetta er skrifað og það er alvarlegt að á Alþingi séu samþykkt lög sem geta með engu móti staðist.“