RB Áhugasamir hafa rætt við eigendur en það hefur ekki leitt til viðskipta.
RB Áhugasamir hafa rætt við eigendur en það hefur ekki leitt til viðskipta. — Morgunblaðið/Eggert
Jón Þórisson jonth@mbl.is Kjölfesta, fjárfestingarfélag sem er í eigu fagfjárfesta, þeirra á meðal nokkurra stærstu lífeyrissjóða landsins, undirbýr nú aðkomu sína að eignarhaldi Reiknistofu bankanna (RB), samkvæmt traustum heimildum Morgunblaðsins.

Jón Þórisson

jonth@mbl.is

Kjölfesta, fjárfestingarfélag sem er í eigu fagfjárfesta, þeirra á meðal nokkurra stærstu lífeyrissjóða landsins, undirbýr nú aðkomu sína að eignarhaldi Reiknistofu bankanna (RB), samkvæmt traustum heimildum Morgunblaðsins. Unnið hefur verið að þessu um nokkra hríð og er vinnan nú komin á lokastig. Búast má við að áform Kjölfestu muni skýrast betur á næstunni. Morgunblaðið hefur einnig heimildir fyrir því að fjárfestingarfélagið Innviðir, sem m.a. er í eigu Heiðars Guðjónssonar fjárfestis og 20 lífeyrissjóða, hafi sýnt áhuga á að koma að breytingum á eignarhaldi RB og hafa átt sér stað viðræður milli aðila á liðnum vikum og mánuðum.

Stefnan að vera í minnihluta

Kjölfesta var stofnuð árið 2012 og er í eigu 14 fagfjárfesta, þar af eru 12 lífeyrissjóðir. Stærstu eigendur eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður og Lífsverk, lífeyrissjóður verkfræðinga. Kjölfesta hefur þá meginstefnu að vera minnihlutaeigandi í félögum með sterkum meðfjárfestum. Meðal fjárfestinga eru hlutir í Meniga, Odda á Patreksfirði, Evu sem er móðurfélag Sinnum og Íslandshótelum.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins undanfarið um málefni RB eru 44% hlutafjár viðskiptabankanna í RB til sölu hið minnsta. Sé meðtalinn 7,2% hlutur sem Kvika seldi nýlega og ágreiningur er um, er ljóst að yfir helmingur hlutafjár gæti skipt um hendur á næstunni.

Fjárfestingarfélagið Innviðir var stofnað um mitt síðasta ár og hefur það hlutverk að fjárfesta í innviðaverkefnum og innviðafyrirtækjum. Félagið hefur ekki fjárfest enn sem komið er en ýmis verkefni hafa komið til skoðunar, þar á meðal RB.

Ágreiningur um forkaupsrétt

Svo sem fram kom í ViðskiptaMogganum í síðustu viku keypti Gísli Heimisson og félag hans, Mentis, 7,2% hlut í RB af Kviku og smærri aðilum. Í kjölfar kaupa hans á hlutnum reis upp ágreiningur um nýtingu forkaupsréttar sem ekki hefur verið til lykta leiddur. Gísli vinnur nú að frekari kaupum í félaginu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Greint var frá áhuga Símans á RB í Morgunblaðinu í síðustu viku og að Síminn væri að baki Sparisjóði Höfðhverfinga í tilkalli sparisjóðsins til forkaupsréttar. Fram kom hjá Jóhanni Ingólfssyni, formanni stjórnar sparisjóðsins, að sjóðurinn hefur ekki í hyggju að eiga hlutinn. Fyrir liggi samkomulag við utanaðkomandi aðila um að sá kaupi hlutinn, en hann sé bundinn trúnaði um hver sá aðili sé. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir að um sé að ræða Símann og að áhugi fyrirtækisins tengist meðal annars mögulegu samstarfi RB við Sensa, dótturfélag Símans.

Vel er hugsanlegt að einhverjir þessara aðila muni á endanum standa saman að kaupum á fölum hlutum í RB en að hve miklu leyti það gæti orðið er óljóst. Fram hefur komið í samtölum blaðsins við forsvarsmenn viðskiptabankanna að nýverið hafi orðið vart aukins áhuga á hlutum í Reiknistofu bankanna.

Tauganet bankakerfisins
» Rekstur og þróun kjarnakerfa bankanna er meginviðfangsefni RB.
» RB hefur grundvallað skilvirkni bankakerfisins og hagkvæmni þess.
» Hjá RB starfa 180 manns og nam velta 4,3 milljörðum 2014.