Allt stefnir í hörkuspennandi keppni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í ár og gefur stigataflan eftir sex umferðir glögga mynd af því. Ekki munar nema þremur stigum á toppliði Breiðabliks og KR, sem situr í sjöunda sæti deildarinnar.
Allt stefnir í hörkuspennandi keppni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í ár og gefur stigataflan eftir sex umferðir glögga mynd af því. Ekki munar nema þremur stigum á toppliði Breiðabliks og KR, sem situr í sjöunda sæti deildarinnar.

Þó svo að allt of snemmt sé að tala um titilbaráttu held ég að stefni í baráttu 4-5 liða um titilinn í ár. Breiðablik, Stjarnan, FH, KR verða klárlega í baráttunni og svo er spurning hvort Valur og jafnvel fleiri lið blanda sér í baráttuna.

Hið rándýra lið Vals, eins og Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, kaus að kalla það eftir sigur hans manna á Hlíðarendaliðinu, hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sex leikjum sínum og það voru sigrar á móti Fylki og Þrótti. Valur tekur á móti Stjörnunni á sunnudaginn og þar verða Valsmenn einfaldlega að vinna ef þeir ætla sér að vera með í toppbaráttunni.

Með fimm Dani í herbúðum sínum held ég að KR-liðið sé ekki ódýrara en Valsliðið. Eftir smá „krísu“ tókst KR að innbyrða gríðarlega mikilvægan sigur og þó svo að Bjarni hafi ekki léð máls á því fyrir leikinn að pressa væri á honum og liði hans var kominn titringur í Frostaskjólinu. En hlutirnir geta verið fljótir að breytast og nái KR að landa þremur stigum gegn ÍBV á laugardaginn getur liðið skotist á toppinn, í það minnsta um stundarsakir.

Spútniklið deildarinnar hingað til er nýliðar Víkings Ólafsvík. Ejub Purisevic hefur gert frábæra hluti með Ólsarana sína og ég sé vel fyrir mér að þeir haldi áfram að safna stigum og haldi sér í efri helmingi deildarinnar með markavélina Hrvoje Tokic í broddi fylkingar.