Leikskólabörn Lokuð Facebook-síða vakti lukku á meðal foreldra. Við rannsóknina var rætt um mikilvægi þess að gæta að persónuvernd barna.
Leikskólabörn Lokuð Facebook-síða vakti lukku á meðal foreldra. Við rannsóknina var rætt um mikilvægi þess að gæta að persónuvernd barna. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Dagbjört Svava Jónsdóttir skrifaði lokaritgerð í meistaranámi í menntunarfræðum leikskóla um sýnileika starfs í leikskólastarfi.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Dagbjört Svava Jónsdóttir skrifaði lokaritgerð í meistaranámi í menntunarfræðum leikskóla um sýnileika starfs í leikskólastarfi. Til þess kannaði hún áhrif notkunar Facebook á tveimur leikskóladeildum á leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti. Var ætlunin að kanna hvaða áhrif lokaður Facebookhópur hefði sem foreldrar höfðu aðgang að hvað varðar samskipti, fagmennsku starfsfólks og viðhorf foreldra til leikskólastarfsins.

Hún segir að algengt sé að leikskólar notast við opna Facebook-síðu þar sem hægt sé að fylgjast með starfinu en í tilviki rannsóknar Dagbjartar var notast við lokaða Facebook-síðu. „Núna í vetur höfum við bara verið að setja inn upplýsingar um nám og leik barna,“ segir Dagbjört.

Hún segir að þessi nýlunda hafi mælst vel fyrir og að foreldrar hafi lýst því að þeir telji sig hafa betri sýn á það sem fram fer í skólastarfinu og hvert hlutverk leikskólakennara sé. Sjálf er Dagbjört starfandi á leikskólanum Rauðhóli og notaðist hún við hann í rannsókninni. Hún tók mið af viðtölum við starfsfólk og foreldra og dagbókarfærslum þar sem skráð voru niður viðbrögð foreldra við rannsóknina.

Að sögn Dagbjartar mældist samfélagsnotkunin vel fyrir en þó hafi einnig þau sjónarmið heyrst að ekki sé rétt að kennarar notist við eigin farsíma til þess að mynda börnin. „Við notuðumst við símann því hann er þægilegt tæki.[...] en svo fannst sumum óþægilegt að búið væri að taka myndir af börnunum og starfinu og í raun var gerð krafa á að starfsfólk losaði sig strax við efnið úr eigin síma. Foreldrar hafa ekki mikið rætt þetta en við kennararnir áttuðum okkur sjálf á því að við erum með persónulegar upplýsingar í símanum sem við viljum ekki að séu á glámbekk. Við þurfum að gæta að persónuvernd, barnanna vegna,“ segir Dagbjört.

Hún segir ekki síður vert að velta því fyrir sér þegar leikskólar eru að deila myndum af starfinu á opnum síðum, þar sem ekki er notast við lokaða hópa á Facebook eins og gert er á Rauðhóli.