Öxarárfoss „Þarna var gróðursett af mikilli hugsjón og með góðum hug. Margir áttu þar hlut sem vildu Þingvöllum vel, meðal annars Vestur-Íslendingar sem komu langt að eins og gefur að skilja,“ segir Ólafur um barrskóginn.
Öxarárfoss „Þarna var gróðursett af mikilli hugsjón og með góðum hug. Margir áttu þar hlut sem vildu Þingvöllum vel, meðal annars Vestur-Íslendingar sem komu langt að eins og gefur að skilja,“ segir Ólafur um barrskóginn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Skúli Halldórsson sh@mbl.is Áður en Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 kom til landsins eftirlitsnefnd sem gerði úttekt á svæðinu, líkt og venjan er um þessar umsóknir.

Sviðsljós

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Áður en Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 kom til landsins eftirlitsnefnd sem gerði úttekt á svæðinu, líkt og venjan er um þessar umsóknir.

Þetta segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í samtali við Morgunblaðið.

Stofnunin leggur það sjónarmið til grundvallar að þjóðgarður sé til þess gerður að varðveita upprunalega ásýnd náttúrunnar.

Sem dæmi nefnir Ólafur að honum hafi verið sagt að Mývatn myndi aldrei komast á heimsminjaskrána. Of mikil mannvirki séu þar í grennd til að svo megi verða.

Í skýrsluna sem hjá var lögð með útnefningu Þingvalla í skrána voru gerð viss tilmæli um það sem betur mætti fara innan þjóðgarðsins.

Einkum var hert á þremur atriðum að sögn Ólafs.

„Í fyrsta lagi var mælst til þess að öll aðkomin tré yrðu felld. Þá erum við að tala um áleitnar plöntur svosem lúpínuna og kerfilinn, aspirnar við sumarbústaðina og sjálfan barrskóginn austan við vatnið,“ segir Ólafur. Þar sé í raun gríðarmikill og vinsæll skógur.

„Mörg heit hjörtu sem slá“

„Hann er hlaðinn tilfinningum, sögu og er sannast sagna barn síns tíma. Þarna var gróðursett af mikilli hugsjón og með góðum hug. Margir áttu þar hlut sem vildu Þingvöllum vel, meðal annars Vestur-Íslendingar sem komu langt að eins og gefur að skilja,“ segir Ólafur og bætir við að í skóginum sé einnig fjöldi reita til minningar um menn og málefni ýmiss konar.

„Það eru mörg heit hjörtu sem slá þegar þetta ber á góma.“

Upphaf skógræktar á Íslandi

Ekki er þá allt upp talið sem hverfa myndi úr þjóðgarðinum fengi UNESCO vilja sínum framgengt. Fyrir neðan Öxarárfoss er Furulundur, en þar er talið að skógrækt á Íslandi hafi átt upphaf sitt rétt fyrir aldamót nítjándu og tuttugustu aldar. Var haldið upp á hundrað ára afmæli hennar í lundinum árið 1999.

„Það myndi engum detta í hug að skerða þann lund,“ segir Ólafur. Bendir hann á að þjóðgarðsverðir hafi grisjað skóginn en ekki gengið að honum á þann hátt sem UNESCO mælti til um.

Forkaupsréttur oftar nýttur

Í öðru lagi mæltist UNESCO til þess að sumarhúsum yrði fækkað eða þau alfarið látin hverfa úr landi þjóðgarðsins.

„Við höfum nýtt okkur forkaupsrétt okkar til að kaupa bústaði og í auknum mæli síðustu fimm til sex árin miðað við það sem áður hafði verið gert,“ segir Ólafur.

Stefnumótunin endurskoðuð

Þriðju og síðustu tilmæli UNESCO voru þau að fækka þyrfti bílastæðum inni í þjóðgarðinum.

„Þar er helst undir Flosaplanið eins og við köllum það, eða bílastæðið við Flosagjána, sem einnig er þekkt sem Peningagjá. Og þar höfum við ekki staðið okkur nógu vel.“

Ábending þess efnis gæti borist þjóðgarðinum frá stofnuninni, þó ekki hafi komið til þess ennþá að sögn Ólafs.

„Hins vegar erum við að endurskoða stefnumótun Þingvallaþjóðgarðs núna og þar er líklegt að niðurstaðan verði að draga umferð bifreiða í miklum mæli frá þinghelginni. Bílastæði væru þá fjarri og fólk myndi jafnvel aka um svæðið í rafknúnum bílum, til og frá þessum bílastæðum.“