Hella Rangárþing ytra sigraði í sundkeppni sveitarfélaga.
Hella Rangárþing ytra sigraði í sundkeppni sveitarfélaga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Hreyfiviku Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), sem stóð yfir 23. til 29. maí. Alls tóku 42 þúsund þátt á 55 þéttbýlisstöðum á landinu og voru viðburðirnir samtals 450 víða um land.

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Hreyfiviku Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), sem stóð yfir 23. til 29. maí. Alls tóku 42 þúsund þátt á 55 þéttbýlisstöðum á landinu og voru viðburðirnir samtals 450 víða um land.

„Það er gaman að sjá hversu margir tóku þátt og viðburðirnir fjölbreyttir. Fólk nálgast verkefnið alfarið út frá því hvað sveitarfélögin hafa upp á að bjóða. Við vitum að Hreyfivikan hefur mikil áhrif, sérstaklega í minni sveitarfélögum, þar sem aðildarfélög að ungmennafélaginu eru fleiri á landsbyggðinni,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ.

Einn liður í Hreyfiviku var sundkeppni sveitarfélaga, og tóku 38 sveitarfélög þátt í ár en 28 árið áður. Samkvæmt sex þúsund skráningum voru syntir rúmlega 4.000 km, sem er svipuð vegalengd og til Möltu. Rangárþing ytra bar sigur út býtum aftur í ár; syntir voru 401,2 km og er það bæting um 89 km á milli ára. Samanlagt voru þetta 487 metrar á hvern íbúa í sveitarfélaginu.

„Markmiðið er að fá fleiri til að finna uppáhaldshreyfingu sína og stunda hana að minnsta kosti í 30 mínútur á dag. Öll hreyfing telur. Það skiptir máli að fá aukin hjartaafköst,“ segir Sabína Steinunn.

Hreyfivikan var fyrst haldin hér á landi árið 2012 og er hluti af stóru alþjóðlegu lýðheilsuverkefni. Markmið verkefnisins er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020, en þá lýkur verkefninu. Yfirleitt hefur Hreyfivikan verið haldin á haustin en eftirleiðis verður hún haldin á vorin. 40 Evrópulönd tóku þátt í ár. thorunn@mbl.is