Guðrún Anna Thorlacius fæddist á Bakkafirði 17. janúar 1931. Hún lést á heimili sínu þann 22. maí 2016.

Foreldrar hennar voru Þórarinn Valdimar Magnússon, f. 17.12. 1902, d. 6.8. 1978, og Sigurbjörg Sigurðardóttir, f. 29.5. 1901, d. 31.12. 1985. Systkini Guðrúnar: Theódóra Thorlacius, f. 1927, Jórunn Sigríður Thorlacius, f. 1928, d. 2012, Hólmfríður S. Thorlacius, f. 1929, d. 2006, Sigfríð Thorlacius, f. 1932, d. 1965, Magna Þóranna, f. 1933, d. 1933, óskírður bróðir, f. 1938, d. 1938, Magnús Þórarinn Thorlacius, f. 1940, d. 1972, óskírður bróðir, f. 1942, d. 1942. Uppeldisforeldrar Guðrúnar voru þau Jósep Th. Magnússon, f. 1893, d. 1957, og Kristín Sigurðardóttir, f. 1891, d. 1990. Þau slitu samvistum. Uppeldissystir Guðrúnar var Sveinbjörg Kristinsdóttir, f. 1919, d. 2007.

Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar er Halldór Geir Halldórsson rafvirki, f. 28.7. 1929, en þau giftust þann 31.12. 1954. Foreldrar hans voru Kristólína Þorleifsdóttir, f. í Haga í Holtum í Rangárvallasýslu 12.9. 1898, d. 21.3. 1962, og Halldór Sigurðsson, beykir, f. á Pétursborg í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði 27.8. 1893, d. 30.11. 1981. Guðrún og Halldór Geir áttu tvær dætur. 1) Kristín, f. 1955, d. 1986 2) Auður Friðgerður, f. 1957, maki Jens Sigurðsson. Börn þeirra eru: a) Halldór Geir, f. 1978, hann á tvö börn, maki Birgitta Rut Birgisdóttir. b) Sigurður Kristján, f. 1982, hann á þrjú börn, maki Sigrún Elva Guðmundsdóttir. c) Rúnar Smári, f. 1990. d) Kristín Anna, f. 1991. 5) Auður Ebba, f. 2000.

Guðrún Anna ólst upp hjá Kristínu sem sinnti hjúkrunar- og ráðskonustörfum vítt og breitt um landið. Fylgdi hún henni þar til hún var 16 ára en þá flutti hún til Reykjavíkur og sinnti þar ýmsum störfum þar til þau Halldór Geir felldu hugi saman. Árið 1954 kaupa þau hjónakornin lítið hús við Fossvogsblett 2a sem þá var í útjaðri Reykjavíkur. Þar bjuggu þau ásamt dætrum sínum alla tíð innan um fjölskrúðugan dýrahóp sem töldu meðal annars hænsni, endur, kalkúna, kanínur og dúfur svo eitthvað sé nefnt. Árið 1978 lét Guðrún Anna gamlan draum rætast þegar hún hóf nám til sjúkraliða. Hún útskrifaðist árið 1981 og starfaði við Borgarspítalann allar götur síðan. Guðrún var mikil bókakona. Á seinni árum gaf hún út tvær bækur, fyrst kom út bókin Aðrar víddir árið 2008 og fjallaði um dulræn málefni. Árið 2015 gaf Guðrún út síðari bók sína Ömmusögur úr Fossvoginum en sú bók inniheldur sannar sögur af hinu fjölskrúðuga dýralífi sem hún hélt í Fossvoginum. Guðrún Anna og Halldór Geir bjuggu í Fossvoginum meðan heilsa leyfði en 2013 fluttu þau til dóttur sinnar og fjölskyldu á Hvolsvelli. Halldór Geir fluttist á hjúkrunarheimilið Lund á Hellu 2014.

Útför Guðrúnar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 1. júní 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mig langar að skrifa nokkur minningaorð um móður mína. Ég ólst upp í yndislegu umhverfi í Fossvoginum, sem þá var mjög afskekkt. Þarna vorum við með mikið af dýrum og ræktuðum alls kyns grænmeti. Það var því alltaf nóg að gera á þessu heimili. Mamma var alltaf mjög skipulögð og voru heimilisverkin framkvæmd eftir dögum og þá voru fimmtudagar alltaf skemmtilegastir því þá var bökunardagur og þá kom líka sendingin úr KRON, mamma pantaði alltaf matvörur þaðan, þangað til pabbi keypti Bedfordinn þegar ég var ca. átta ára. Minnisstæðar eru verslunarferðirnar til Reykjavíkur á laugardögum með fjölskyldunni og frændfólki og var þá mikið sungið í Bedfordinum.

Mamma fór að vinna í fiski í nokkur ár en fann að það var stundum erfitt og langaði alltaf að fara í nám þar sem hún hafði ekki tækifæri til þess á sínum tíma þar sem hún var á svo miklu flakki með Kristínu ömmu vegna starfa hennar. Hún dreif sig svo af stað í nóvember 1978 og ætlaði að skrá sig til náms eftir jólin. Þá var henni sagt að byrja strax og það gerði hún og lauk fyrst gagnfræðaprófi og svo sjúkraliðaprófi. Hún lauk því 1981. Hún kom oft miður sín heim eftir próf og hélt að nú væri fall á leiðinni en við vorum alveg hætt að hlusta á þetta hjá henni því einkunnir voru aldrei undir níu.

Það var stórt höggvið þegar systir mín var myrt í september 1986. Ég var í útlöndum og kom heim nokkrum dögum síðar. Ég gleymi aldrei þeirri stund þegar ég kom í Fossvoginn til pabba og mömmu. Þetta fór alveg með þau bæði og hafði mikil áhrif á líf okkar allra.

Það var líka erfitt fyrir þau þegar við fluttum á Hvolsvöll en pabbi og mamma voru dugleg að koma til okkar og mættu iðulega með páfagauk og kött, það voru alltaf dýr í kringum þau.

Börnin okkar bjuggu svo hjá þeim þegar þau fóru í skóla til Reykjavíkur og var það mikill styrkur á báða bóga. Þegar tíminn leið þurftu þau svo meiri aðstoð og þá hlupu þau í skarðið fyrir mig ef ég komst ekki í bæinn. Svo kom að því að þetta var orðið of erfitt og þá fluttu þau til okkar í litla íbúð. Það var gott að hafa þau nálægt til að geta sinnt þeim eins og þurfti. Pabbi varð svo veikari og þá komst hann á Hjúkrunarheimilið Lund þar sem hann er núna í góðu yfirlæti. Þetta var mikill léttir fyrir mömmu en um leið söknuður yfir að geta ekki haft hann hjá sér. Hún var nýbúin að vera í stuttri hvíldarinnlögn þar og áttu þau góðar stundir saman þá.

Mamma var mjög listræn og fór á alls kyns námskeið þegar hún bjó í Fossvoginum. Það eru mörg listaverkin eftir hana, teikningar, málverk og listaverk úr rekavið. Ekki síst bækurnar sem hún gaf út, Aðrar víddir 2008 og Ömmusögur úr Fossvoginum 2015. Minningin lifir um góða konu sem öllum vildi vel.

Ég hugsa með þakklæti til mömmu fyrir allt sem hún kenndi mér og að hún var góð móðir. Það er alltaf erfitt að kveðja en ég veit að mömmu líður vel núna. Hún var alltaf fullviss um annað líf og ég veit að hún er núna í góðum hópi og Kristín systir hefur verið fremst í flokki.

Blessuð sé minning þín, elsku mamma.

Auður Friðgerður.

Elsku amma mín.

Það er erfitt að kveðja en ég veit að þér líður betur núna í faðmi Kristínar þinnar.

Ég á margar góðar minningar með þér og er mér efst í huga allir hjólatúrarnir okkar um Fossvoginn. Ég var á alltof litlu hjóli og því var stoppað við hvern einasta bekk og tekin hvíld.

Við vorum alltaf góðar vinkonur þrátt fyrir að við höfðum oft mismunandi skoðanir. Ég hafði á tilfinningunni að ég yrði að hringja og heyra í þér daginn áður en þú fórst. Við áttum gott spjall þar sem þú sagðir mér hvað þú værir stolt af mér og ég sagði þér að ég elskaði þig. Ég mun alltaf búa að þessu spjalli og kveð þig sátt en samt með söknuði.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Þín nafna,

Kristín Anna Thorlacius.

Fossvogurinn var og er minn griðastaður. Amma og afi bjuggu þarna innan um fjölskrúðugt dýralíf. Óteljandi stundir var ég úti í þessum gróðursæla garði með prik í hönd að leika mér innan um allar kartöflurnar. Skemmtilegt fannst mér þegar ég stóð við stofugluggann 30 árum síðar með ömmu að horfa á strákana mína og amma sagði: „Þeir eru alveg eins og þú, þeir finna sér eitt prik og svo sjáum við þá ekki meira þann daginn.“

Tímarnir þegar við fórum niður í skógrækt og tókum með okkur kerfil til baka og gróðursettum, ári síðar var garðurinn allur undirlagður í þessu og afi kannski ekki alveg sáttur en mikið rosalega höfðum við gaman af því. Þú kenndir mér að synda í lauginni sem þér lá víst svo mikið á að búa til 1978 með mömmu kasólétta, laugin átti svo sannarlega eftir að nýtast.

Góðu stundirnar með þér, amma, voru óteljandi þú fórst t.d. reglulega með mig og Sigga í hjólatúr niður í skógrækt þar sem við borðuðum nesti saman. Þessi siður hélt áfram þegar yngri systkini mín voru á sama aldri. Svo þegar Brynjar Bjarmi, minn elsti, kom þá hélstu áfram að hjóla niður í dal með börnunum, ég er ekki viss um að 80 ára gamalt fólk fari mikið í hjólatúra með barnabarnabörnunum, en þú varst ótrúleg.

Mikið á ég eftir að sakna þín amma. Heimagerðu fiskibollurnar, sögurnar og hjólatúrarnir er eitthvað sem mun alltaf lifa í minningunni.

En loksins fékkstu að fara og hitta hana Kristínu, eitthvað sem þú ert búin að bíða eftir alltof lengi. Ég bið innilega að heilsa henni með kossum og knúsi.

Ef við þekkjum ekki myrkrið, sæjum við ekki sólskinið.

(Þórarinn frá Steintúni)

Hittumst í blómabrekkunni. Þinn,

Halldór Geir.

Amma var mér sem besta vinkona og hún kenndi mér margt. Hvert skipti sem ég kom í Fossvoginn til afa og ömmu bað ég alltaf um að fara í hjólatúr um skógræktina að tína köngla, í lautarferð og gefa öndunum brauð.

Ég bjó mér einnig til bú í trjánum í garðinum og bauð ykkur svo í mat, ég man hvað hún hafði gaman að því. Hvíldu í friði, amma mín, og við sjáumst aftur í Sumarlandinu.

Auður Ebba.

Elsku besta amma mín, mikið á ég eftir að sakna þín. Þú ert svo einstök og frábær. Ég er svo heppinn að þú ert amma mín. Þú hefur kennt mér ótal hluti sem ég hef notfært mér og mun halda áfram að gera í gegnum lífið. Það sem einkenndi þig var ást þín gagnvart krökkunum þínum, þú gerðir allt fyrir okkur. Að eiga kröftuga ömmu sem helgaði líf sitt börnunum sínum er ómetanlegt, ég á þannig ömmu. Þakka þér fyrir það og þann ótakmarkaða áhuga og stuðning sem þú sýndir mér í einu og öllu. Með þakklæti, ást, tárum og brosi kveð ég þig í bili. Farðu vel með þig, sem þú ert eflaust að gera með kveikt á útvarpinu og að horfa á Leiðarljós.

„Faðir vor þú sem ert á himnum helg ... ertu búinn að pissa?“

Hvíldu í friði. Þinn,

Rúnar Smári.

Elsku langamma.

Þú varst besta langamma mín, þú leyfðir mér að sjá bækur um hann pabba minn.

Mér fannst sagan um gæsina alveg svakalega fyndin, að pabbi hafi haft hana í bandi eins og hund. Það var líka mjög gaman þegar þú sagðir mér sögur þegar þú varst lítil. Ég elskaði að fara í heimsókn til þín í Fossvoginn, það var svo gaman hjá okkur. Ég ætla að segja litlu systur minni allt um þig.

Ég sakna þín rosalega mikið. Nú ertu sofandi. Sofðu rótt, í alla nótt og hafðu það gott.

Þinn

Arnór Bjarki.