Lok, lok og læs Hegningarhúsið hefur staðið við Skólavörðustíg frá árinu 1874. Líklega verður húsinu fengið annað hlutverk í framtíðinni.
Lok, lok og læs Hegningarhúsið hefur staðið við Skólavörðustíg frá árinu 1874. Líklega verður húsinu fengið annað hlutverk í framtíðinni. — Morgunblaðið/Golli
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is 142 ára sögu fangelsisins við Skólavörðustíg lýkur í dag þegar síðustu tveir fangarnir munu yfirgefa bygginguna.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

142 ára sögu fangelsisins við Skólavörðustíg lýkur í dag þegar síðustu tveir fangarnir munu yfirgefa bygginguna. Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874 en strax á sjöunda áratug síðustu aldar heyrðust þau sjónarmið að húsið væri orðið úrelt og gamaldags sem fangelsi.

Helst lokun fangelsisins í hendur við opnun hins nýja fangelsis á Hólmsheiði sem formlega verður tekið í notkun síðar í mánuðinum. Fangelsið var hið eina á landinu til ársins 1929 þegar hælið á Litla-Hrauni var tekið í notkun. Á síðustu árum hefur Hegningarhúsið verið notað sem móttökufangelsi og sjaldgæft að menn dvelji þar í lengri tíma. Magnús Páll Ragnarsson, varðstjóri í fangelsinu, segir þó að á þeim ellefu árum sem hann hefur starfað þar hafi fangi dvalið lengst í 22 mánuði að eigin ósk.

Fjórmennt var í klefa

„Á tímabili var fjórmennt í hverjum klefa og síðan fór það niður í tvo menn á hvern klefa og undanfarið hefur það að einhverju leyti verið með einstaklingsklefa,“ segir Magnús sem segir hvern klefa 10-12 fermetra stóran. Síðustu ár hefur verið pláss fyrir 12 afplánunarfanga og tvo í gæsluvarðhaldi. Fyrir það voru 16 pláss en einum klefanum var breytt í setustofu fyrir fanga að kröfu heilbrigðiseftirlitsins. „Fangelsið er búið að vera á undanþágu í 15-20 ár og það var talað um að byggja þyrfti nýtt fangelsi á sjöunda áratugnum,“ segir Magnús Páll en Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum hefur margsinnis gert athugasemdir við aðbúnað í fangelsinu. „Það verður kannski einhver söknuður, því fangelsið er á mjög sérstökum stað. Nándin við fangana er mikil, sem og gesti og gangandi. Nú förum við upp í sveit í stærra og nútímalegra umhverfi,“ segir Magnús Páll.

Að sögn Magnúar hefur það sjaldan gerst að fangar hafi strokið úr fangelsinu en það gerðist síðast árið 1993 þegar þrír fangar söguðu í sundur rimil á baðherbergisglugga fangelsisins með járnsagarblaði. Þeir náðust þó fljótt.

Í fangelsinu hafa fangar fengið að vera utandyra í bakgarði í klukkustund fyrir hádegi og klukkustund eftir hádegi. Það teygðist þó á sumrin þegar heitt var í veðri. Að sögn Magnúsar verður kveðjuhóf í fangelsinu á föstudag sem verður þó lágstemmt. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp varðandi það sem gera á við húsið. Bæði hefur verið nefnt að gera eigi þar hótel, en einnig hafa komið fram hugmyndir um að þarna verði réttarsögu- og lögreglusafn.