[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Hún er sögð óður til módernismans með vísan til íslensks landslags. Látlaus, en þó kraftmikil og hvelft loftið varpar skeljalaga skuggum á rjómalita veggina.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Hún er sögð óður til módernismans með vísan til íslensks landslags. Látlaus, en þó kraftmikil og hvelft loftið varpar skeljalaga skuggum á rjómalita veggina. Hallgrímskirkju er fagurlega lýst á menningarvefsíðu breska dagblaðsins The Guardian þar sem hún er á lista yfir tíu bestu íhugunarstaði í heimi. Í kirkjuna koma mörg hundruð þúsund erlendir ferðamenn á hverju ári og margir þeirra koma þangað til að slaka á og hugsa sinn gang í dagsins önn.

„Sumir stoppa og eiga stund við ljósberann sem er við útgöngudyrnar og biðja þar gjarnan fyrir ástvinum sínum. Aðrir setjast niður á bekk. Fólk stillir sig af inni í kirkjunni, þar eru svo margir rólegir staðir þrátt fyrir að oft séu mörg hundruð manns þar inni,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju. „Margir gefa sig á tal við okkur prestana eða annað starfsfólk og segja okkur hvernig þeir upplifa kirkjuna og margir segja að þeir njóti þess hvernig ljósið leiki um hana. Margir tala um hversu björt hún er – sannkölluð dómkirkja ljóssins. Svo er upplifunin mismunandi eftir því hvernig veður er, því ljósið breytist eftir því.“

150-200.000 fara upp í turn

Sigurður Árni segir að margir erlendu gestanna spyrji um hverskonar kirkja Hallgrímskirkja sé; hvort hún sé mótmælendakirkja eða kaþólsk og þá fýsi líka marga að vita meira um trúarlíf Íslendinga. „Við megum ekki gleyma því að þó að trú sé gagnrýnd víða um heim, þá eru líka margir sem rækta sitt trúarlíf.“

Hann segir að fólk á öllum aldri sæki kirkjuna heim, svo virðist sem það sé af ýmsu þjóðerni og t.d hafi verið talsverð fjölgun á heimsóknum skólahópa. Ekki er haldið nákvæmlega utan um gestafjöldann, en áætlað er að rúmlega helmingur þeirra erlendu ferðamanna sem sækja Ísland heim fari í kirkjuna og því er talið að á milli 500-700.000 þeirra hafi heimsótt kirkjuna í fyrra.

Hluti þeirra, á milli 150.000 og 200.000, fer svo með lyftunni upp í turninn og segir Sigurður Árni ljóst að löngu sé komin þörf fyrir nýja lyftu, sú sem nú er anni ekki þessu álagi. „Við erum að skoða lyftukaup og hún þyrfti að vera komin í gagnið ekki síðar en á næsta ári,“ segir hann. Oft eru raðirnar að lyftunni meira en 50 metra langar og ná inn eftir allri kirkju. Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að undanförnu að ég hef ekki treyst mér yfir þetta Times Square Íslands til að ná mér í kaffi,“ segir Sigurður hlæjandi.

Þessi mikla aðsókn í að fara upp í turninn hefur m.a. haft það í för með sér að ekki hefur verið hægt að nýta skrifstofur í turninum, sem m.a. hafa hýst Biblíufélagið og listastarfsemi kirkjunnar. „Starfsfólkið kemst hvorki upp né niður. Út frá öryggissjónarmiði getum við ekki látið fólk vera að störfum á skrifstofum sem eru með svona takmarkað aðgengi.“ segir Sigurður Árni.

Spurður hvort boðið sé upp á leiðsögn um kirkjuna segir Sigurður Árni ekki hafa verið nægilega góða aðstöðu til þess, en reynt sé að verða við beiðnum hópa sem biðji um það með fyrirvara. Margir séu forvitnir um ævi og störf Hallgríms Péturssonar og þá veki listaverkin í kirkjunni aðdáun og áhuga margra, en meðal þeirra má finna skírnarfont, hurð og steindan glugga Leifs Breiðfjörð, Kristsstyttu Einars Jónssonar og verk Kristínar Gunnlaugsdóttur.

Hefur mikil áhrif á fólk

„Þetta, að vera með skipulagða leiðsögn, er eitthvað sem við þurfum að fara að huga betur að. Gestum í kirkjuna á alveg örugglega eftir að fjölga og við viljum taka sem best á móti þeim,“ segir Sigurður Árni og bætir við að fjölga hafi þurft starfsfólki kirkjunnar á undanförnum árum í takt við fjölgun gesta, en nú starfa þar um 20 manns.

Hallgrímskirkja er ekki í amalegum félagsskap á lista The Guardian. Aðrir staðir sem þar eru nefndir sem tíu bestu íhugunarstaðir heims eru Grafarkirkjan í Jerúsalem, Iona-klaustur í Skotlandi, tilteknar deildir Þjóðarsafnsins og Tate-safnsins í London, musteriskirkjan í sömu borg og klaustur heilags Markúsar í Feneyjum.

En þetta er ekki eini listinn sem kirkjan prýðir. Árið 2014 komst hún t.d. á lista yfir 50 skrýtnustu byggingar heims og hún hefur oftar en einu sinni verið á listum yfir áhugaverðustu kirkjur heims. Þá er hún á lista yfir tíu áhugaverðustu steypumannvirki heimsins. „Kirkjan er á hinum fjölbreytilegustu topplistum yfir hitt og þetta,“ segir Sigurður Árni. „Þannig að hún hefur greinilega mikil áhrif á fólk.“

Með mörg hlutverk

Sigurður Árni segist ekki verða var við að sóknarbörnunum þyki á köflum nóg um mannmergðina í kirkjunni. Ekki beri á öðru en stolti yfir því hversu mikla athygli kirkjan vekur. „Okkar söfnuður er svolítið sérstakur. Hingað kemur fólk alls staðar að af landinu, fólk víða af höfuðborgarsvæðinu og þeir sem koma utan af landi og vilja fara í messu fara gjarnan í Hallgrímskirkju. Hún er safnaðarkirkja og höfuðborgarkirkja, þjóðarkirkja og heimskirkja. Hún gegnir mörgum hlutverkum og gerir það með prýði.“