Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Ríkisskattstjóri hefur stofnað sérstaka einingu við embættið, hagsvið. Verkefni þess eru einkum þrenns konar; hagrannsóknir af ýmsu tagi, umsjón með skattatölfræði og rekstur á greiningardeild.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Ríkisskattstjóri hefur stofnað sérstaka einingu við embættið, hagsvið. Verkefni þess eru einkum þrenns konar; hagrannsóknir af ýmsu tagi, umsjón með skattatölfræði og rekstur á greiningardeild.

„Allt miðar þetta að því að auka þekkingu á skattskilum og leita uppi þá skattaðila sem talið er að þarfnist nánari skoðunar,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Vísir að hagsviði hefur verið rekinn á undanförnum árum hjá ríkisskattstjóra; með greiningardeild sem starfrækt hefur verið um nokkurt skeið og framsetningu á skattatölfræði sem m.a. hefur verið gerð grein fyrir á vefsíðu RSK en einnig með greinaskrifum í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra.

Breytingarnar með formlegri stofnun hagsviðs miða að því að auka við þessa þætti í störfum ríkisskattstjóra en einnig til að taka almennar hagrannsóknir sem tengjast skattskilum, að sögn Skúla Eggerts.

„Leiðarljósið er að því að auka getu til að framkvæma nákvæmri greiningu frávika frá lögbundnum skattskilum svo unnt verði að efla almennt skatteftirlit og bæta samhliða upplýsingagjöf til ráðuneytis og aðra sem hafa með höndum hagstjórn í landinu. Verður þannig bætt þekking á skattskilunum og þar með aukin tækifæri til frekari úrvinnslu.“

Markmið starfa hagsviðs sé að greina betur hversu hátt hlutfall skatta aðilar komi sér hjá að greiða vegna skattundanskota, ekki síst í hvaða atvinnugreinum þau undanskot séu og hlutfall af heildarundanskotum. „Með þessum hætti er unnt að velja aðila til frekari skoðunar með nákvæmari hætti en verið hefur ásamt því að hlutlægni við vali á verkefnum verður ráðandi við mat á því hvaða framteljendur veljist í eftirlitsúrtök. Með stofnun hagsviðs til þessara verkefna er þannig stefnt að aukinni skilvirkni skattframkvæmdar og að upplýsingar til hagstjórnar hérlendis verði nákvæmari en verið hefur,“ segir Skúli Eggert.

Embætti ríkisskattstjóra auglýsti nýlega laust starf við hið nýja hagsvið. Umsækjendur skulu hafa háskólapróf í hagfræði eða viðskiptafræði eða sambærilega menntun. Umsóknarfrestur er til og með 10. júní næstkomandi.