— Morgunblaðið/RAX
Nokkrar vikur eru síðan niðurrrif gamla Iðnaðarbankahússins í Lækjargötu hófst. Það hýsti síðast starfsemi Íslandsbanka en eftir að húsið var dæmt ónýtt var ákveðið að byggja þar að nýju og mun Íslandshótel reisa þar nýtt fjögurra stjörnu hótel.

Nokkrar vikur eru síðan niðurrrif gamla Iðnaðarbankahússins í Lækjargötu hófst. Það hýsti síðast starfsemi Íslandsbanka en eftir að húsið var dæmt ónýtt var ákveðið að byggja þar að nýju og mun Íslandshótel reisa þar nýtt fjögurra stjörnu hótel.

Þorkell Erlingsson, fulltrúi Íslandshótela, segir að verktakafyrirtækið Afltak sjái um niðurrifið. „Þetta gengur hægt og rólega. Ástæðan er sú að það þarf að byrja á því að taka allt innan úr húsinu og flokka það. Timburinnveggjum er fargað sérstaklega, sem og málmhlutum og perum. Allt er flokkað niður og fargað eftir kúnstarinnar reglum,“ segir Þorkell. Að sögn hans er enn beðið eftir leyfi til að brjóta húsið niður með stærri vinnuvélum.

„Það tekur ekki langan tíma að taka innan úr húsinu en við erum enn að bíða eftir leyfi til að fá að rífa þetta allt saman,“ segir Þorkell.

Að sögn Þorkels er búið að rannsaka allar minjar sem fundust sunnan og norðan við húsið og ákveða hvernig þær verða varðveittar. „En húsrifið kemur því ekkert við enda er það á öðru svæði,“ segir Þorkell. Að sögn hans gera áætlanir ráð fyrir því að búið verði að rífa húsið seint á þessu ári. „Skipulagsferlið tekur langan tíma. Þetta er vandasamt verk.“ vidar@mbl.is