[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn fæddist í Reykjavík 1.6. 1976, ólst upp í Þorlákshöfn fram að skólaaldri og síðan í Grundarfirði, Þorlákshöfn og á Sauðárkróki: „Ég ólst upp að mestu hjá einstæðri móður og við vorum svolítið á faraldsfæti á uppvaxtarárum mínum.

Björn fæddist í Reykjavík 1.6. 1976, ólst upp í Þorlákshöfn fram að skólaaldri og síðan í Grundarfirði, Þorlákshöfn og á Sauðárkróki: „Ég ólst upp að mestu hjá einstæðri móður og við vorum svolítið á faraldsfæti á uppvaxtarárum mínum. Svo lenti ég í einelti í grunnskólanum, einkum í Grundarfirði og á Sauðárkróki, en á þeim árum var nú ekki mikill skilningur á slíkum vanda hjá ungum sálum. Ég dró mig því svolítið inn í skelina, las mikið og varð dæmigerður nörd. Ég hef alltaf verið dálítill talnahaus, glímdi við stærðfræðina í skóla eins og um gestaþrautir væri að ræða. Ég fæ útrás fyrir það í dag í ýmiss konar spilum, borðspilum og tölvuleikjum.“

Björn var í grunnskóla í Þorlákshöfn, Grundarfirði og á Sauðárkróki, stundaði nám við FÁ og lauk þaðan stúdentsprófi 1996.

Á grunnskólaárunum stundaði Björn íþróttir af kappi: „Ég æfði frjálsar íþróttir og keppti í þeim um skeið. Svo æfði maður sund í litlu sundlauginni í Grundarfirði sem fraus á veturna og renndi sér á skíðum á litlum hól við þorpið í Grundarfirði. Þrátt fyrir þær aðstæður náðu Grundfirðingar merkilega góðum árangri á mótum. Seinna æfði ég og keppti í handbolta um skeið, fyrst með Snæfelli og síðar með Val.“

Björn var í sveit í Birtingarholti á sumrin í æsku og vann síðan við fiskvinnslu í Grundarfirði og í Þorlákshöfn. Auk þess var hann handlangari við múrverk.

Að loknu stúdentsprófi var Björn starfsmaður á leikskóla, fyrst á Staðarborg og síðan á Jörva þegar leikskólinn Staðarborg var lagður niður: „Eineltið hvarf þegar ég kom í framhaldsskóla enda yfirleitt ekkert athugavert við nörda á þeim vettvangi. Ég held svo að leikskólastarfið hafi opnað mig aftur. Börnin eru svo einlæg og hreinskilin og ég naut mín vel að starfa með þeim og sinna þeim. Áhuginn á kennslu kviknaði undir lok grunnskóla, en ég kynntist tölvunum í framhaldsskóla í árdaga internetsins. Það réð miklu um hvað tók við næstu ár eftir stúdent.“

Björn stundaði kvöldnám í kerfisfræði við Rafiðnaðarskólann meðfram leikskólastarfinu. Hann varð kerfisstjóri hjá LÍN um skeið og síðan þjónustufulltrúi hjá Hugviti 1999-2000. Á sama tíma stundaði hann kennaranám í fjarnámi við KHÍ og var síðan kennari í stærðfræði, upplýsingatækni og náttúrufræði við Foldaskóla í tvö ár.

Björn hætti síðan í kennaranáminu og kennslunni, fór í fullt nám í tölvunarfræði við HÍ og lauk þaðan BSc-prófi 2008. Hann stundaði framhaldsnám í tölvunarfræði við Brandeis University í Waltham í Bandaríkjunum frá 2008 og útskrifaðist með MA-próf þaðan árið 2013.

Björn var hugbúnaðarsérfræðingur hjá Meniga 2013-2014, hjá Námsmatsstofnun 2014-15 og hefur verið hugbúnaðarsérfræðingur hjá Menntamálastofnun frá 2015.

„Ég missti aldrei áhuga á kennslu og kennslufræði þó að ég hætti í hvoru tveggja og færi á fullt að læra hugbúnað. Þvert á móti get ég nú sameinað þessi áhugamál mín, tölur, tölvur og kerfisfræðina, og áhuga á skólamálum og kennslufræði. Hjá Menntamálastofnun er verið að vinna að margvíslegum afar spennandi verkefnum og þróa hugbúnað til að þjóna nýjum leiðum og markmiðum í kennslu og kennslufræði. Ég get því ekki annað sagt en að ég sé alsæll í mínu starfi.“

Björn hefur verið varaþingmaður fyrir Pírata frá 2013.

Fjölskylda

Eiginkona Björns er Heiða María Sigurðardóttir, f. 3.11. 1982, doktor í taugavísindum og lektor við sálfræðideild HÍ. Foreldrar hennar: Sigurður Hjalti Magnússon, f. 9.11. 1945, gróðurvistfræðingur á Högnastöðum á Flúðum, og Ásdís Birna Stefánsdóttir, f. 30.9. 1951, prófarkalesari á Högnastöðum.

Börn Björns og Heiðu Maríu eru Alexander Arnar Björnsson, f. 17.9. 2009, og Ársól Ísafold Heiðudóttir, f. 2.4. 2015.

Hálfsystkini Björns, samfeðra, eru Rakel Gunnarsdóttir, f. 29.3. 1989, viðskiptafræðingur í Reykjavík, og Lárus Gunnarsson, f. 25.10. 1990, sílíkontæknir í Reykjavík.

Stjúpbróðir Björns er Þórir Hall Stefánsson, f. 18.12. 1980, MA í alþjóðastjórnmálum, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Björns eru Gunnar Þorsteinsson, f. 7.9. 1956, múrarameistari í Reykjavík, og Fanney Gunnarsdóttir, f. 2.4. 1959, leiðsögumaður og ferðamálafræðingur.

Stjúpmóðir Björns er Sigurveig Salvör Hall, f. 19.9. 1956, sölumaður.