[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Norðurljósin halda áfram að laða ferðamenn til landsins. Ferðamönnum fjölgaði um 30% í norðurljósaferðum á 1.

Sviðsljós

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Norðurljósin halda áfram að laða ferðamenn til landsins. Ferðamönnum fjölgaði um 30% í norðurljósaferðum á 1. fjórðungi ársins, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjum í rekstri hópferðabíla, sem Samtök ferðaþjónustunnar tóku saman. Þetta er í takt við aukinn fjölda ferðamanna á þessum árstíma en þeim hefur fjölgað hlutfallslega meira á 1. fjórðungi ársins en á öðrum árstímum.

Í apríl fjölgaði þeim um 35% borið saman við sama tíma í fyrra. Gistinóttum á 1. ársfjórðungi fjölgaði einnig um 35% en meðaldvalarlengd er samt styst á þessum tíma eða þrjár nætur en þær eru að meðaltali fimm á þeim fjórða.

Í könnunum Ferðamálastofu kemur fram að veturinn 2004/2005 greiddu rúmlega 14% erlendra ferðamanna fyrir norðurljósaferðir, veturinn 2014/2015 var þetta hlutfall komið upp í 42%.

„Norðurljósin draga vagninn í vetrarferðum til landsins. Við seljum leitina að norðurljósunum en ekki norðurljósin sjálf. Við getum aldrei ábyrgst að norðurljósin sjáist. Það þarf ákveðin veðurskilyrði til að þau sjáist, hagstætt skýja- og veðurfar þarf að vera fyrir hendi,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line. Fjölgun í norðurljósaferðir fyrirtækisins hefur verið yfir 30% milli ára en fyrirtækið hefur boðið upp á slíkar ferðir frá haustinu 2001.

Í stærstu norðurljósaferðinni eitt kvöld í vetur fóru um 1.600 manns með 25 til 30 rútum sem dreifðust á þrjá brottfarartíma. Af þessum farþegum voru líklega um 1.000 í frírri ferð en þeir sem kaupa norðurljósaferð hjá Gray Line geta komið aftur, í allt að tvö ár eftir að ferðin er keypt, ef norðurljósin sjást ekki í fyrstu ferð.

Stöku sinnum geta þær aðstæður skapast að engin skilyrði fyrir norðurljósaferðir hafi verið í nokkra daga í röð eða að fólk hefur ekki séð norðurljós í ferðunum, en þá getur safnast upp í ferðirnar. Ein norðurljósaferð getur tekið allt upp í fimm klukkutíma og kostar hún 6.400 krónur.

Ekki hefur reynst erfitt að manna ferðirnar með starfsfólki, að sögn Þóris, en hjá fyrirtækinu starfa um 300 manns og er það með um 70 bíla. Fyrirtækið hefur vaxið ört undanfarið í samræmi við fjölgun ferðamanna og þurfa ferðaþjónustufyrirtæki að vera sveigjanleg til að laga sig að breytilegum markaði.

Óánægja breyst í ánægju

Þórir bendir á að margt hafi breyst á þessum 15 árum sem fyrirtækið hefur boðið upp á norðurljósaferðir.

„Þegar við byrjuðum var meira kvartað en í dag þó að fjöldinn í ferðunum hafi allt að 100-faldast. Þetta má þakka aukinni þekkingu. Leiðsögumenn þekkja norðurljósin betur og geta skýrt fyrirbærið vel fyrir ferðamönnum, en þeir vita einnig meira að hverju þeir ganga. Annað sem hefur breyst mikið er ljósmyndatæknin. Þegar við byrjuðum var erfitt að ná myndum af þeim. Í dag nemur stafræna tæknin norðurljósin miklu betur en augað greinir,“ segir Þórir og vísar til fallegra mynda af norðurljósunum sem heilla.

Spánverjum fjölgar

Enginn munur er á aldurssamsetningu þeirra sem fara í ferðirnar. Ferðamennirnir eru frá 20 ára aldri og upp úr. Áhugi fólks á norðurljósum einskorðast heldur ekki við einn menningarheim umfram annan en löngum hafa Asíubúar verið spenntir fyrir að sjá þetta náttúruundur. „Það skemmtilega er að fleiri markaðir hafa tekið við sér eins og t.d. Spánverjar,“ segir Þórir.