Átján Renato Sanches verður ekki 19 ára fyrr en í ágúst og er yngsti portúgalski leikmaðurinn sem tekur þátt í stórmóti.
Átján Renato Sanches verður ekki 19 ára fyrr en í ágúst og er yngsti portúgalski leikmaðurinn sem tekur þátt í stórmóti. — AFP
Portúgal Vítor Hugo Alvarenga Maisfutebol twitter.com/valvarenga Síðustu 19 mánuðir hafa verið ótrúlegir hjá Renato Sanches, undrabarninu frá Lissabon. 19. október 2014 spilaði hann fyrir eitt af unglingaliðum Benfica gegn Sporting. 10.

Portúgal

Vítor Hugo Alvarenga

Maisfutebol

twitter.com/valvarenga

Síðustu 19 mánuðir hafa verið ótrúlegir hjá Renato Sanches, undrabarninu frá Lissabon. 19. október 2014 spilaði hann fyrir eitt af unglingaliðum Benfica gegn Sporting. 10. maí síðastliðinn var hann keyptur til Bayern München frá Benfica fyrir 35 milljónir evra.

Benfica græddi á Sanches en skjöl frá árinu 2007 sýna að hann kostaði portúgölsku meistarana 750 evrur. Auk þess lofaði Benfica að kaupa 25 bolta handa smáliðinu Águias. Kaupverð Bayern gæti hækkað upp í 45 milljónir evra en það fer eftir ýmsu; allt frá því hversu marga leiki Sanches spilar fyrir þýsku meistarana til þess hvort hann verður tilnefndur sem besti leikmaður heims (Ballon d'or) fyrir árið 2021.

Tilboð frá Manchester United

„Ég fékk nokkur tilboð en valdi Bayern München,“ sagði Sanches. „Manchester United? Ég held að allir viti að það kom tilboð frá Manchester United en það komu einnig önnur tilboð. Ég valdi Bayern vegna þess að það er stórlið og þar mun ég vinna titla.“

En hver er þessi 18 ára strákur sem vakti athygli marga stærstu liða í Evrópu? Sanches hefur sýnt slíka hæfileika undanfarna mánuði að stuðningsmenn og stjórnarmenn sumra liða í Portúgal hafa efast um aldur kappans. „Heimskan kemur þaðan sem maður býst síst við henni,“ sagði leikmaðurinn um þau ummæli. „Þetta er svo hræðilegt að það þarf ekki að segja meira um það. Málið er í viðeigandi farvegi.“ Sanches hefur kært ummælin og eru málin í farvegi hjá dómstólum.

Úr varaliðinu í Meistaradeild

Sanches braust inn í aðallið Benfica 30. október í fyrra eftir að hafa vakið athygli fyrir góða frammistöðu með varaliðinu í annarri deild. Mánuði síðar var hann í byrjunarliði Benfica í leik í Meistaradeild Evrópu og þegar tímabilið var á enda hafði hann hjálpað Benfica að vinna þriðja landstitil félagsins í röð, liðið vann einnig deildabikarinn og hann hafði leikið sinn fyrsta A-landsleik. Í leiknum áður en Sanches lék fyrsta leik sinn með Benfica tapaði liðið 3:0 á heimavelli fyrir Sporting. Á þeim tímapunkti var Benfica í sjötta sæti deildarinnar, átta stigum á eftir grönnum sínum í Sporting.

Bolo tekur gjarnan áhættu

Sanches sýndi í fyrsta byrjunarliðsleik sínum á heimavelli Benfica, Estádio da Luz, í byrjun desember hvað í hann er spunnið. Hann heimtaði boltann, leit upp og skoraði með þrumuskoti, langt fyrir utan vítateig andstæðinganna frá Académica. Stuðningsmenn heimaliðsins ærðust úr gleði. Bolo, eins og amma Sanches kallar hann, hefur gaman af því að taka áhættu. Honum er sama þó að nokkrar sendingar mislukkist eða honum mistakist að fara framhjá varnarmönnum. Hann hefur trú á því að hann hafi hæfileika til að gera út um leiki. Í því samhengi er hann eins og Frakkinn Paul Pogba.

Hitti áfram gömlu vinina

„Þetta hefur verið draumi líkast og stundum klíp ég sjálfan mig til að sjá hvort þetta sé draumur,“ sagði Sanches. Þrátt fyrir frægðina hefur miðjumaðurinn ungi ekki gleymt uppruna sínum. Eftir að hann skoraði gegn Académica fór hann í gamla hverfið sitt og gerði það sama og hann hafði alltaf gert eftir leiki. Hann hitti vini sína á sama stað og venjulega og fékk sér samloku. Að hans mati hafði ekkert breyst.

Vildi ekki fara

Forseti Águias, António Quadros, rifjar upp viðbrögð Sanches eftir að leikmaðurinn ungi æfði með Benfica og sló í gegn á korteri. Vandamálið var að fá hann til að yfirgefa hverfið á hverjum degi til að æfa með Benfica, hinum megin við ána Tejo. „Ég vil ekki fara, þetta er svo langt í burtu,“ rifjar Quadros upp að Sanches sagði og bætti við: „Strákurinn vildi vera hér, nálægt vinum og vandamönnum. Hér var lífið hans og hann kunni vel við það.“

Sló strax í gegn

Leikmaðurinn skipti um skoðun og Benfica fékk hann á kostakjörum. Sanches sló strax í gegn. Hann leikur á miðjunni og sýndi fljótt óvenjulega hæfileika. Hann á ekki í vandræðum með að hlaupa 30 metra með boltann, enda er hann hæfileikaríkur og með gott úthald.

Rui Vitória tók við sem knattspyrnustjóri Benfica í júní í fyrra og tók fljótt eftir Sanches. Hann gaf honum tíma til að vaxa og dafna og gera mistök þegar pressan varð of mikil og andstæðingarnir áttuðu sig á því að þeir þyrftu tvo til þrjá leikmenn til að stoppa hann.

Hann lék samtals 49 leiki á nýafstöðnu tímabili, eða tæplega 4.000 mínútur. Auk þess þurfti hann að venjast því að vera uppáhald stuðningsmanna Benfica og sá leikmaður sem andstæðingarnir lögðu helsta áherslu á að stöðva.

Svaraði kynþáttaníði brosandi

Eftir sigurleik á útivelli gegn Rio Ave í apríl gaf hann stuðningsmanni keppnistreyjuna sína og varð fyrir kynþáttaníði þegar stuðningsmenn Ave gáfu frá sér apahljóð. Sanches brosti og svaraði fyrir sig með smá látbragðsleik, þar sem hann lék apa.

Tímabilið endaði fyrr en áætlað hafði verið, en hann var rekinn af leikvelli í næstsíðasta leik tímabilsins, gegn Marítimo. Hann fékk tvö gul spjöld, annað fyrir leikaraskap og hitt fyrir tæklingu. Sanches tók því út leikbann í síðasta deildarleik tímabilsins. Þegar Benfica tryggði sér titilinn á heimavelli í lokaumferðinni var Sanches hrókur alls fagnaðar, en hann tók hljóðnemann á vellinum og stjórnaði fagnaðarlátunum.

Nokkrum dögum síðar valdi Fernando Santos landsliðsþjálfari miðjumanninn unga í leikmannahóp Portúgals fyrir Evrópumótið í sumar. Sanches verður yngsti Portúgalinn til að fara á stórmót í knattspyrnu og slær þar með met stórstjörnunnar Cristiano Ronaldo.

Portúgali skrifar um landa sinn

Portúgal er fyrsti andstæðingur Íslands á EM karla í knattspyrnu, en liðin mætast í Saint-Étienne í Frakklandi þriðjudaginn 14. júní.

Vítor Hugo Alvarenga, íþróttafréttamaður hjá portúgalska netmiðlinum Maisfutebol, skrifar um áhugaverðan leikmann portúgalska liðsins, Renato Sanches. Alvarenga hefur starfað sem íþróttafréttamaður frá 2002 og hjá Maisfutebol frá 2005.

Næstu daga birtast hér í Morgunblaðinu greinar frá ungverskum og austurrískum íþróttafréttamönnum um áhugaverða leikmenn í liðum þeirra landa.

Renato Sanches
» Hann er fæddur 18. ágúst 1997 í Lissabon í Portúgal.
» Benfica keypti hann frá smáliðinu Águias fyrir tæpum áratug. Kaupverðið var 750 evrur og 25 boltar.
» Benfica seldi Sanches til Bayern München fyrir 35 milljónir evra í byrjun maí.
» Er yngsti Portúgalinn frá upphafi til að taka þátt í lokamóti stórmóts í knattspyrnu. Mætir Íslandi 14. júní í fyrsta leik F-riðils Evrópumótsins í knattspyrnu.