Sprengjuregn Íraskar hersveitir notast m.a. við stórskotaliðssveitir, skriðdreka af gerðinni M1 Abrams, herþyrlur og sprengjuvörpur í sókn sinni inn í borgina, en einnig veitir flugher Bandaríkjanna aðstoð í formi loftárása.
Sprengjuregn Íraskar hersveitir notast m.a. við stórskotaliðssveitir, skriðdreka af gerðinni M1 Abrams, herþyrlur og sprengjuvörpur í sókn sinni inn í borgina, en einnig veitir flugher Bandaríkjanna aðstoð í formi loftárása. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Harðir bardagar geisa nú á milli íraskra hermanna og vígamanna Ríkis íslams við borgina Fallujah þar í landi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Harðir bardagar geisa nú á milli íraskra hermanna og vígamanna Ríkis íslams við borgina Fallujah þar í landi. Borgin hefur verið undir stjórn vígamanna síðan 2014 en stjórnvöld í Bagdad hafa nú hrundið af stað stórsókn hersins þar sem markmiðið er að brjóta liðsmenn samtakanna á bak aftur og endurheimta þannig borgir og bæi.

„Þær írösku hersveitir sem reyndu að komast inn í borgina að sunnanverðu þurftu að þola fjögurra klukkustunda gagnárás af hendi vígamanna Ríkis íslams, en þeir notast meðal annars við leyniskyttur, sprengigildrur, bílsprengjur og sjálfsvígssprengjumenn,“ segir Ben Wedeman, fréttamaður CNN , en hann hefur fylgst náið með framvindu mála frá því að árásin hófst.

Óttast faraldur á svæðinu

Fréttaveitan Reuters segir minnst 50.000 almenna borgara búa innan marka Fallujah, flestir þeirra við afar bágar aðstæður, og hafa vígamenn meinað þeim útgöngu.

„Íraskar hersveitir hafa setið um borgina í um sex mánuði og er því mikill skortur þar á matvælum, hreinu drykkjarvatni og lyfjum,“ segir Wedeman og bendir á að Sameinuðu þjóðirnar hafi nú auknar áhyggjur af því að kólerufaraldur kunni einnig að brjótast út á svæðinu með enn frekara manntjóni.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) greinir frá því að vígamenn reyni nú hvað þeir geta til að fá þá almennu borgara sem enn eru í Fallujah til að taka upp vopn og berjast sér við hlið. Eru vígamenn einnig sagðir hafa myrt fjölmarga sem hafa neitað að hjálpa þeim í bardaganum.

Íraskar hersveitir hófu í fyrradag sókn sína inn í Fallujah og er barist á þrennum vígstöðvum þar nærri. Þrátt fyrir mikla mótspyrnu hefur, samkvæmt fréttaveitu AFP , hermönnum tekist best að sækja inn í borgina sunnanverða.

Gefa ekki upp eigið mannfall

Tölur um mannfall eru nokkuð á reiki, en Abdelwahab al-Saadi hershöfðingi, sem sér um allar aðgerðir í tengslum við orrustuna um Fallujah, segir minnst 75 liðsmenn Ríkis íslams hafa verið drepna við suðurhluta borgarinnar. Hann vildi hins vegar ekki veita neinar upplýsingar um mannfall í röðum íraskra sveita.