Sigurður Ketill Gunnarsson fæddist 25. janúar 1931. Hann lést 7. maí 2016.

Útför Sigurðar fór fram 20. maí 2016.

Afi minn kom stundum með ömmu norður á Hvammstanga að hitta mig og fjölskyldu mína. Þegar pabbi eða mamma sögðu að amma og afi væru að koma varð ég mjög glaður. Stundum beið ég í glugganum og horfði út þangað til þau komu. Um leið og ég sá litla gráa jepplinginn þeirra hljóp ég út og sá þar afa beygja sig niður og opna faðminn og taka fast utan um mig. Það er til á vídeó þegar ég og Engilbjört vorum að spila á einhvern afríkugítar, þá kom afi inn og brosti og horfði á okkur og var glaður. Hann afi knúsaði fast og gerði það oft. Stundum þegar ég var kannski bara að horfa á sjónvarpið kom afi og var nýbúinn að leggja sig, hann beygði sig niður og opnaði faðminn og ég hljóp i fangið hans. Þegar afi varð hissa þá lét hann hendurnar sínar detta á lærin á sér. Og þegar hann var að banna mér eða einhverjum öðrum eitthvað þá sagði hann: „abbabbabbabb“.

Amma gerði og gerir enn í dag hafragraut á morgnana. Þegar ég var hjá þeim fórum við afi inn í eldhús og fórum í keppni um hver kláraði grautinn fyrst. Ég fór með ömmu og afa í göngutúr á morgnana og fékk stundum stórt hælsæri. Þá hélt afi stundum á mér heim og setti sérstakt smyrsl á hælinn minn, og þá greri sárið fljótt.

Benjamín Jafet

Sigurðarson.