[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
6. umferð Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

6. umferð

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Andri Rafn Yeoman, miðjumaðurinn knái í liði Breiðabliks, hefur átt góðu gengi að fagna með Blikunum í Pepsi-deildinni það sem af er þessu tímabili, en hann og félagar hans tylltu sér á topp deildarinnar í fyrrakvöld með góðum sigri á móti Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ, 3:1, þar sem öll mörkin voru skoruð á síðustu 20 mínútum leiksins.

Andri Rafn er sá leikmaður sem Morgunblaðið fjallar sérstaklega um eftir 6. umferðina og sá leikmaður sem hefur hlotið flest M-in í einkunnargjöf Morgunblaðsins en þau eru samtals níu hjá honum í fyrstu sex leikjunum.

,,Andri Rafn er svona leikmaður sem er fyrstur á blað þegar valið er í lið,“ sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson, samherji Andra Rafns og fyrirliði Breiðabliks, við Morgunblaðið þegar hann var spurður um álit sitt á leikmanninum.

Smitar út frá sér með hugarfari sínu

,,Hann er gríðarlega vinnusamur og er frábær liðsmaður hvort sem það er innan eða utan vallar. Hann smitar út frá sér með hugarfari sínu. Það var einhver að segja að hann væri leikmaður mótsins hingað til og ég get alveg tekið undir það. Hann hefur spilað sérlega vel í byrjun mótsins. Mér finnst hann oft á tíðum mjög vanmetinn leikmaður. Ég hef spilað með honum í mörg ár. Það er oft verið að tala um að menn vilji fá meira frá honum hér og þar en mér finnst hann alltaf spila vel og hann fær ekki þá athygli sem hann á skilið,“ segir Arnór Sveinn.

Andri Rafn hefur spilað alla sex leiki Blikanna í deildinni og skorað eitt mark, sem hann gerði í fyrsta leik liðsins í 2:1 tapi á móti Víkingi Ólafsvík á Kópavogsvellinum.

Í fyrra spilaði Andri alla 22 leiki Blikanna í deildinni, 17 þeirra í byrjunarliði, og hann hefur aðeins misst af fimm deildaleikjum frá árinu 2012.

Vonandi ekki búinn með kvótann

,,Andri Rafn er algjörlega þindarlaus og það eru fáir betri en hann að pressa andstæðinginn. Hann bíður þar til leikmaðurinn gefur á það svæði sem hann vill pressa á og þá fer hann á fulla ferð og oftar en ekki vinnur hann boltann. Við vorum að gantast með það að hann skoraði í síðustu umferðinni í fyrra sem var hans eina mark og hann skoraði svo í fyrstu umferðinni. Vonandi er hann ekki búinn með kvótann fyrir sumarið. Ef það er eitthvað sem hann þyrfti að bæta úr er það að vera eigingjarnari fyrir framan markið en ég held að hluti af því sé líka að hann er óeigingjarn. Leikur hans er þannig úti um allan völl vegna þess að hann er óeigingjarn og þess vegna er hann svona góður. Kannski þyrfti hann að stilla því þannig að hann væri eigingjarnari í færunum.“

Hefur æft öðruvísi

Arnór Sveinn segir að Andri Rafn geti enn bætt leik sinn.

,,Eins og á við um alla leikmenn getur hann bætt sig, og mér finnst hann hafa gert það undanfarið. Hann æfir aðeins öðruvísi núna og leiðin liggur bara upp hjá honum. Mér finnst það alltaf dæmi um góðan leikmann þegar maður hefur séð hann spila nokkur tímabil í röð með stöðugri frammistöðu. Það hefur hann gert. Andri Rafn leggur sig 100% og rúmlega það fram í hverjum einasta leik og hann gerir það líka á æfingunum. Hann er alltaf á fullu og ég hef bara ekkert annað en gott að segja um hann,“ sagði Arnór Sveinn.

Sjötta umferðin í tölum

Breiðablik hefur unnið Stjörnuna þrisvar í röð í deildinni og ekki tapað í síðustu fimm viðureignum liðanna.

KR vann aðeins sinn annan heimasigur á Val í deildinnni á undanförnum ellefu árum.

Víkingur frá Ólafsvík hefur ekki tapað leik í Kaplakrika á Íslandsmóti. Liðið náði jafntefli þar gegn FH, rétt eins og árið 2013.

ÍBV vann sinn fyrsta útisigur á Þrótti í efstu deild frá 1979.

ÍA tapaði í fyrsta sinn útileik gegn Víkingi R. í deildinni frá 1980.

Albert Brynjar Ingason skoraði 60. mark sitt í efstu deild þegar hann jafnaði fyrir Fylki gegn Fjölni. Albert á markamet Fylkis í deildinni, 47 mörk, en hann gerði enn fremur 9 mörk fyrir FH og 4 fyrir Val.

Óskar Örn Hauksson skoraði 40. mark sitt fyrir KR í efstu deild gegn Val og er sá sjöundi í sögu KR sem nær þeim fjölda. Óskar gerði auk þess 12 mörk fyrir Grindavík í deildinni.

Garðar Gunnlaugsson skoraði 30. mark sitt fyrir ÍA í efstu deild í leiknum við Víking R. Hann gerði auk þess 14 mörk fyrir Val á sínum tíma. vs@mbl.is

Andri Rafn Yeoman
» Hann er 24 ára gamall, fæddur 18. apríl 1992 og lék með Breiðabliki upp yngri flokkana.
» Andri kom fyrst inn í meistaraflokkslið Breiðabliks 17 ára árið 2009, varð þá bikarmeistari með því og Íslandsmeistari 2010, og hefur verið meira og minna fastamaður síðan.
» Andri hefur leikið 135 leiki með Breiðabliki í efstu deild og er orðinn fimmti leikjahæstur í sögu félagsins í deildinni.
» Hann lék 23 leiki með yngri landsliðum Íslands og þar af 11 með U21 árs landsliðinu.