Regína Sif Marinósdóttir fæddist 26. febrúar 1992 í Reykjavík. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu, Lindasmára 93 í Kópavogi, 22. maí 2016.

Foreldrar hennar eru Guðbjörg Birkis Jónsdóttir, bókari, f. 5. ágúst 1962, og Marinó Björgvin Björnsson, framkvæmdastjóri, f. 24. janúar 1956. Systkini Regínu Sifjar eru: 1) Jón Ragnar Birkis, f. 7. apríl 1981. 2) Þorbjörg Alda Birkis Marinósdóttir, fjölmiðlafræðingur og rithöfundur, f. 7. desember 1984, sambýlismaður hennar er Karl Sigurðsson, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður, f. 24. júlí 1973. Dóttir þeirra er Regína Birkis Karlsdóttir, f. 6. júlí 2014. 3) Rebekka Rut Marinósdóttir, nemi, f. 25. desember 1993. Móðuramma Regínu Sifjar er Regína Birkis, f. 1. febrúar 1937, hennar maður er Guðberg Haraldsson, f. 30. september 1927.

Regína Sif hóf sína skólagöngu í Smáraskóla í Kópavogi, æfði sund með Breiðabliki og stundaði fiðlunám í nokkur ár í Tónlistarskóla Kópavogs. Á unglingsaldri vann hún með skólanum í bakaríi og eins við barnagæslu sem var hennar líf og yndi. Regína var í Hrafnagilsskóla í Eyjafirði og síðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Haustið 2014 hóf hún fjarnám í Fjölbrautaskólanum í Ármúla og síðastliðið ár sótti hún dagskóla og fjarnám þar. Regína hóf aftur fiðlunám fyrir nokkrum árum, sem hún stundaði til dánardags.

Útför Regínu fer fram frá Digraneskirkju í dag, 1. júní 2016, og hefst athöfnin klukkan 11.

Elsku hjartans ljúfa, fallega gullið mitt. Lengi biðum við pabbi þinn eftir fæðingu þinni og hvílík hamingja sem við upplifðum þegar þú leist dagsins ljós. Litla, blíða, fallega skottið mitt, þú náðir að bora þig inn að hjartarótum flestra sem þér kynntust. Þú varst alltaf viðkvæmt barn, svo blíð, skemmtileg og hugulsöm. Þú varst bara sex ára skott, nýbyrjuð í skóla þegar þú lentir í einelti sem engan enda ætlaði að taka. Þessi hræðilega lífsreynsla markaði djúp sár í sálu þinni og markaði líf þitt.

Þú varst ótrúlega orðheppin og oft veltumst við um af hlátri. Þú elskaðir fiðluna þína og ljúfar voru stundirnar þegar þú spilaðir uppáhaldslögin mín fyrir mig, þú elskaðir að vera í sundi og unun var að fylgjast með hvað þú fórst hratt yfir í skriðsundi. Þú elskaðir börn og sakleysi þeirra.

Oft var ég hrædd um þig og fylgdi þér eftir eins og skuggi til að reyna að tryggja öryggi þitt og hamingju. Síðasta árið sem þú fékkst að dvelja hjá okkur einkenndist af hamingju, gleði, áföngum, stolti og ást. Litlu nöfnuna þína, Regínu litlu, elskaðir þú svo mikið og sagðist stundum láta eins og hún væri barnið þitt þegar þið voruð að þvælast saman. Elsku hjartans blómið mitt, þráðurinn á milli okkur var svo sterkur og við elskuðum hvor aðra út yfir öll mörk. Ef ég spurði hvort þú nenntir út í búð fyrir mig svaraðir þú stundum: „Ég nenni því ekki, en fyrir þig geri ég allt, mamma mín.“ Við vorum saman daglega og gerðum flesta hluti saman, ef við hittumst ekki í nokkrar klukkustundir þá gengu símtölin á milli okkar. Daglega sagðir þú mér að þú elskaðir mig og í hverjum mánuði fórstu og keyptir handa mér blóm og gjafir, tjaldaðir öllu til, allt til að gleðja mömmu.

Þú varst mín besta vinkona og örlátasta, sterkasta og ljúfasta manneskja sem ég hef kynnst og öllum góð. Þú máttir ekkert aumt sjá öðruvísi en að reyna að hjálpa og laga. Þú vildir helst gefa öllum allt þitt ef það gat hjálpað. Þú hófst fatasöfnun fyrir skjólstæðinga Landspítalans sem áttu kannski ekki föt til skiptanna.

Jólin 2014 stofnaðir þú Jólahjálp sem vatt heldur betur upp á sig, þú gast ekki hugsað þér að aðrir ættu ekkert til skiptanna á jólunum, stundum fórstu sjálf og keyptir handa þeim sem ekki hafði náðst að safna fyrir. Kvöldið áður en þú lést fléttaði ég á þér hárið því þú ætlaðir í bröns með Erlu þinni næsta dag. Mitt síðasta verk um kvöldið þegar þú varst sofnuð var að breiða yfir þig, hjartagullið mitt. Ég veit ekki hvernig lífið á að geta haldið áfram án þín, ljúfan mín. Þakka þér, elsku hjartað mitt, fyrir alla gleðina, faðmlögin, hamingjuna og ástina sem þú færðir mér. Öll ferðalögin okkar, öll fallegu bréfin sem þú skrifaðir mér í gegnum árin og ræðuna sem þú samdir þegar ég varð fimmtug og orðheppni þín náði þar hæstu hæðum. Ég mun ætíð minnast þín, grátandi, syngjandi, hlæjandi, alltaf í huga mér. Alltaf góð og minn mesti stuðningur þegar ég átti erfitt. Ég elska þig, ástin mín, og verð alltaf hjá þér í huga mínum og hjarta. Ástarkveðja. Þín.

mamma.

Einn fallegasti dagur sem af er sumri, glaða sólskin, afastelpa að hjálpa mér að sópa pallinn, grillið tilbúið fyrir hamborgaraveislu í sunnudagshádeginu. Regína mín ekki komin niður, okkur fannst gott að hún svaf lengur, búin að vera dugleg að vinna undanfarið. Allt klárt, fór upp að vekja hana, hún var farin frá okkur, dáin. Allt hrundi, sársaukinn var óbærilegur, dagurinn breyttist í martröð. Fjölskyldan harmi slegin, skildum ekki af hverju hún var tekin frá okkur, allt var svo endanlegt. Hún var alltaf jákvæð og hafði svo mikið að gefa, fjölskyldan var í fyrirrúmi og ást hennar til okkar var óendanleg, hugsun hennar gekk fyrst og fremst út á að við gætum öll verið saman og notið stundarinnar. Hún hafði gengið í gegnum áralöng veikindi og oft átt mjög erfiða tíma, en með einstökum dugnaði sínum og jákvæðni, að ógleymdu því frábæra fagfólki sem hjálpaði okkur og urðu í ferlinu hennar bestu vinir, náði hún bata. Hún var full af spenningi fyrir komandi sumri, löngu planað sumarfrí fjölskyldunnar á Ítalíu átti að hefjast eftir tvær vikur og hún var að vinna sem mest til að safna fyrir því. Við fórum sem oftar út í búð að versla seinnipart laugardagsins, hún með allt þrælskipulagt á miða „pabbi þú keyrir körfuna og velur kjötið og ég sé um hitt“. Á leiðinni heim sagði hún: „Pabbi getum við ekki fengið okkur hjólhýsi í sumar og verið dálítið dugleg að ferðast og tekið litlu Regínu með?“ Þannig hugsaði hún alltaf um það fyrst og fremst að við værum saman. Ég held að Regína hafi verið of góð fyrir þennan heim og oft var það henni ofviða að höndla það slæma sem henni mætti því miður oft á stuttri ævi. Öllum vildi hún rétta hjálparhönd sem minna máttu sín, gjafir til okkar frá henni komu á ólíklegustu tímum, að gleðja sína var hennar upplifun, umvafin ást og umhyggju. Takk fyrir að vera ávallt boðin og búin að hjálpa þeim sem minna máttu sín. Takk fyrir að kenna mér að hlusta á óperulög. Takk fyrir fallegu fiðlulögin sem þú spilaðir. Takk fyrir alla bíltúrana og ferðirnar norður, við tvö með músíkina í botni. Takk fyrir fallegu barnæskuna þína og allar sundferðirnar okkar. Takk fyrir faðmlögin þín og ástina til okkar. Góður Guð tekur nú við þér á æðra tilverustig, þar sem þín bíða stór verkefni. Drottinn gefðu okkur fjölskyldu hennar styrk til að skilja og lifa án hennar. Hvíl í friði elskan, hjartað mitt.

Pabbi.

Elsku hjartans ljúfan mín. Stoltið mitt. Það ná engin orð yfir þig. Yfir alla ástina, stuðninginn, óeigingirnina, gjafmildina og gleðina sem þú færðir okkur. Þegar dóttir okkar fæddist fyrir nær tveimur árum kom ekkert annað nafn en Regína til greina. Þú vissir ekkert um ákvörðun okkar en húmorinn og hamingjan yfirtók þig. Lítið barn í fjölskylduna! „Já sæll, hvað ég mun sjá um það,“ sagðir þú og varðst altekin spenningi þegar ég tilkynnti þér að við ættum von á barni. Ég hélt svo að þú færir endanlega yfir um þegar það kom í ljós að þetta yrði stelpa. Þá fyrst byrjaði fjörið og þú tókst að tíunda ágæti þess að skíra hana eftir þér. Listinn var handskrifaður – og langur! Nr. 1. Frí pössun – endalaust. Nr. 2. Erfitt að uppnefna. Nr. 3. Það þýðir drottning. Nr. 4. Ég heiti Regína – og svona hélt listinn áfram. Svo byrjuðu sendingarnar. Þú varst nýbúin að uppgötva netgíró. Fyrsti pakkinn innihélt smekk með áletruninni „Regína er besta frænka í heimi“. Næst kom samfella með áletruninni „Ég er barn en ekki dvergur!“ Og svona hélt fjörið áfram. Þú varst komin með alklæðnað á litlu frænku áður en við náðum að snúa okkur við. Því þannig varst þú. Gjafmildasta manneskja sem ég hef komist í tæri við. Einlæg ást þín á litla barninu okkar Kalla var einstök enda sá hún ekki sólina fyrir þér og heimtaði daglega að fá að hringja í Nínu Sif. Þú varst með fasta daga þar sem þú sóttir hana til dagmömmunnar – óumbeðin. Ást þín var svo mögnuð og einlæg að ég fékk stundum kökk í hálsinn þegar ég umgekkst þig.

Aldrei spör á faðmlög eða hrós. Síðast á þriðjudaginn sagðirðu mér hvað þú værir stolt af mér en það var ég sem var stoltust af þér en kom því ekki í orð þennan dag. Þú blómstraðir sem aldrei fyrr. Stóðst þig vel í skólanum, passaðir börn eins og þau væru þín eigin, alltaf boðin og búin að gera eitthvað fyrir okkur fjölskylduna, hamaðist í ræktinni og varst nýhætt að reykja því þú vildir vera góð fyrirmynd fyrir litlu frænku. Ég sagði þér það aldrei en þú varst mín helsta fyrirmynd. Krafturinn, dugnaðurinn og þessi hreina bjarta ást til fjölskyldunnar.

Síðustu skilaboðin frá þér til mín voru hvort þú mættir ekki bara flytja inn til lillu. Þú sagðir það í gríni en þú vildir helst alltaf vera með litlu frænku og lést ekki rassaköstin eða yfirganginn í henni á þig fá. Þín ást yfirtók allt. Litla barnið mitt missti svo mikið þegar við misstum þig og það er óskaplega sárt að svara því þegar hún spyr eftir Nínu sinni. Ég get aldrei kvatt þig. Þú ert hluti af mér um ókomna tíð og ég mun hafa þína stórkostlegu kosti að leiðarljósi. Ást, umburðarlyndi, óbilandi trú á það góða, óeigingirni og litagleði. Ég sakna þín svo mikið en þú mátt trúa því að Nína Sif verður partur af Regínu litlu og þín gleði og umhyggja í hávegum höfð. Því ber ég höfuðið hátt í dag, ljósið mitt, þakklát fyrir allt sem þú hefur kennt mér og gefið mér. Skær varalitur og öll mín ást munu bera þig hinn hinsta spöl. Ég elska þig að eilífu, elsku litla systir mín.

Þorbjörg Alda (Tobban þín).

Elsku ljúfa, fallega, klára systir mín. Ég trúi ekki að ég fái ekki að hitta þig aftur. Ég man hvað við deildum herbergi lengi í æsku og hvað við rifumst um hvor ætti stærri helminginn, en hvað ég myndi gefa fyrir að deila með þér núna. Þú ert sterkasta manneskja sem ég hef kynnst og gafst aldrei upp. Þú kenndir mér að maður stjórnar ekki hverju við lendum í, en við stjórnum hvernig við bregðumst við því. Hjarta þitt er svo fallegt og stundum skammaði ég þig fyrir að eyða allri þinni aleigu og ást í fjölskylduna þína en hún var þín dýrmætasta eign.

Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem við eigum en ég vildi að þær hefðu orðið fleiri, elsku systir. Þú varst bara árinu eldri en ég, samt gekk ég á eftir þér og skammaðist í þér eins og fertug frænka þín, enda sönn pirrandi systir. Við vorum alltaf svo ólíkar í öllu sem við gerðum sem var hin fullkomna vinátta. Ég sakna þín svo mikið og ég trúi ekki að það sé rúm vika síðan ég reyndi seinast að stela af þér uppáhaldsbolnum þínum og þú með þitt hjarta leyfðir mér alltaf að komast upp með það.

Ég var alltaf að reyna siða þig til. Það var seinast í matarboði þegar ég var að skamma þig fyrir að vera að pota í matinn. Ég fann alltaf svo sterka tilfinningu að reyna að kenna þér sem mest. Þú varst auðvitað fullkomin eins og þú varst en ég trúði alltaf svo mikið á þig. Ég var alltaf hörðust við þig því ég vissi að það bjó svo mikið í þér. Ég bannaði þér að fara of mikið í ljós, drekka of mikið kaffi. Tók þig á teppið að gefa ekki stefnuljós á hringtorgi. Ég lét ekki svona við neinn annan. Þú vissir alltaf að þetta kæmi frá góðum stað og reifst aldrei í mér til baka, þú bara svaraðir já, ekki málið.

Þú leist alltaf upp til mín með svo miklum þroska. Það var engin önnur manneskja sem hrósaði mér jafn mikið og þú. Ég er svo ánægð að ég fékk að njóta nærveru þinnar og hvernig þú komst fram við aðra með ást og umhyggju mun ég alltaf bera áfram. Þú varst fyrirmynd í öllu sem þú gerðir og gafst aldrei upp. Lífið lék þig oft grátt en eins og alltaf stóðstu upp, sterkari en áður. Þú munt alltaf vera partur af mér og ég er stolt að kalla þig hetjuna mína. Hvíldu í friði, elsku besta systir mín. Ég elska þig alltaf. Sakna þín að eilífu.

Þín systir,

Rebekka Rut Marinósdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Hún var fallegt blóm hún Regína. Fallegt blóm sem breiddi út blöðin sín móti lífinu. Sveigðist með storminum á ströngum dögum en lék sér ljúft þegar blærinn strauk blítt um kinn.
Nú blómstrar á völlum sumarlandsins og fallega blómið gleður fugla himinsins með litbrigðum sínum.
Góða ferð, frænka mín.
Þórvör Embla
Guðmundsdóttir.