[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örvhenta skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson , sem verið hefur lykilmaður hjá ÍR í Olís-deildinni í handbolta síðustu ár, hyggst snúa aftur heim í Safamýri og leika með Fram á næstu leiktíð, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Örvhenta skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson , sem verið hefur lykilmaður hjá ÍR í Olís-deildinni í handbolta síðustu ár, hyggst snúa aftur heim í Safamýri og leika með Fram á næstu leiktíð, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Arnar Birkir skoraði 86 mörk í 18 leikjum með ÍR í vetur en liðið féll niður í 1. deild.

Framarar hafa misst nokkra sterka leikmenn frá síðustu leiktíð og skipt um þjálfara, en í gær var fyllt í eitt skarðið þegar örvhenti hornamaðurinn Svanur Páll Vilhjálmsson samdi við félagið til tveggja ára. Svanur Páll, sem á tvítugsafmæli í dag, lék 21 leik með ÍBV á nýliðnu tímabili.

Ó lafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR á möguleika á að ná sæti á Evian-meistaramótinu í golfi, en það er eitt af fimm risamótum hvers árs í golfi kvenna. Ólafía og Valdís Þóra Jónsdóttir léku í gær fyrri hringinn af tveimur í sérstöku úrtökumóti fyrir mótið, og lék Ólafía á 73 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Hún er í 9. sæti fyrir seinni hringinn í dag, fjórum höggum á eftir kylfingunum í efstu tveimur sætunum. Efstu tveir kylfingarnir, af um 70 keppendum, fá þátttökurétt á Evian-mótinu. Valdís er í 38. sæti á 8 höggum yfir pari.

Haukur Páll Sigurðsson , fyrirliði Vals, var í gær úrskurðaður í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Hann missir því af leik Vals við Stjörnuna á sunnudaginn. Hallur Hallsson , fyrirliði Þróttar, fékk einnig eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk fyrir að slá í pung Mikkels Maigaard , leikmanns ÍBV, á sunnudag. Hann missir af botnslagnum við ÍA næsta sunnudag.

Þýska meistaraliðið Bayern München er sagt hafa hafnað tilboði í austurríska miðvörðinn David Alaba sem Íslendingar etja kappi við á Evrópumótinu í Frakklandi í næsta mánuði. Spænska blaðið AS greinir frá því að Evrópumeistarar Real Madrid hafi boðið 50 milljónir evra í leikmanninn en sú upphæð jafngildir tæpum 7 milljörðum íslenkra kóna. Bæjarar eru fullvissir um að Alaba vilji halda kyrru fyrir hjá félaginu og segja hann ekki falan fyrir minna en 80 milljónir evra eða rúmlega 11 milljarða króna.

Alaba skoraði sjálfsmark í gærkvöld þegar Austurríki vann Möltu, 2:1, í næstsíðasta vináttulandsleik sínum fyrir EM. Marko Arnautovic , leikmaður Stoke, og Alessandro Schöpf úr Schalke, komu Austurríki í 2:0 á fyrstu 18 mínútunum.

Handknattleiksmaðurinn Júlíus Þórir Stefánsson hefur framlengt samning sinn við Gróttu til tveggja ára, en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Á nýliðnu keppnistímabili var Júlíus ein styrkasta stoðin í jöfnu Gróttuliði og fyrir úrslitakeppnina var hann valinn í lið ársins af þjálfurum deildarinnar. Júlíus skoraði 82 mörk í vetur.